Hver er þinn óskalisti fyrir fæðingu?

0

Konur eru í auknum mæli farnar að skrifa óskalista fyrir fæðingar sínar. Í stuttu máli er óskalistinn skjal sem útskýrir væntingar þínar um fæðingu barnsins, allt frá verkjastillingu til brjóstagjafar.

Sitt sýnist hverjum um ágæti slíks lista. Sumir vilja meina að með óskalistum séu verðandi foreldrar að búa sér til væntingar sem í fæstum tilfellum geti staðist og því að auka líkurnar á því að verða fyrir vonbrigðum með fæðingarreynsluna. Fleiri eru þó á því að tímanum sem er eytt í að skrifa óskalistann sé vel varið.

Verðandi foreldrar velta fyrir sér mismunandi valkostum og óskum varðandi fæðinguna og er þetta því bæði tækifæri til að afla sér upplýsinga um þá kosti sem standa til boða og einnig tilefni til að ræða við ljósmóður og lækni um þessa valmöguleika.

Jafnvel þó óskalistinn verði ekki nýttur í fæðingunni hafa verðandi foreldrar yfirleitt skýrari mynd um hvernig þau myndu vilja takast á við fæðinguna ef þau hafa farið í gegnum þetta ferli.

Óskalistinn getur verið hjálplegur fyrir ljósmóðurina

Þar sem verðandi foreldrar á Íslandi hafa í fæstum tilvikum hitt þá ljósmóður sem tekur á móti þeim á fæðingarvaktinni, getur verið hjálplegt fyrir ljósmóðurina að sjá óskalista sem kynnir hana fyrir viðhorfum og væntingum verðandi foreldra. Dæmi um slík viðhorf gætu verið viðhorf til mænurótardeyfingar (e. epidural).

Konur sem vita að þær vilja fá slíka deyfingu sem fyrst eða konur sem vita að þær vilja helst ekki nýta slíka deyfingu geta skrifað það á óskalistann sinn. Í báðum tilvikum er þó mikilvægt að slíkar óskir séu skrifaðar með því hugarfari að þetta séu óskir en ekki kröfur.

Hafðu óskalistann jákvæðan frekar en neikvæðan

Óskalistar geta verið frábær leið til að koma mikilvægum skilaboðum til þeirra sem munu annast þig í fæðingunni en mikilvægt er að hafa óskalistann á jákvæðu nótunum. Margir falla í þá gryfju að skrifa óskalista sem einkennist af “ég vil ekki” staðhæfingum og fáum “Ég vil gjarnan” staðhæfingum. Það er þó líklegra að ljósmæður og læknar geti frekar hjálpað þér að vinna að því sem þú óskar eftir en því sem þú ekki vilt í fæðingunni. Því mætti skrifa “ég vil gjarnan reyna að fæða barn mitt án verkjastillingar” í stað “ég vil ekki verkjastillingu”. Á sama máta má skrifa “Ég kýs að láta fæðinguna hefjast af sjálfu sér ef heilsa mín og barnsins leyfir það” í stað “ég vil ekki láta gangsetja mig”

Hafðu óskalistann stuttan og hnitmiðaðan

Óskalistinn ætti alls ekki að vera meira en ein blaðsíða. Ljósmæður og læknar eru upptekin við ýmis störf og eru líklegri til að lesa óskalistann ef hann er ekki mjög langur. Þau atriði sem er mikilvægt að komi fram á óskalistanum er stutt kynning á þér og þeim sem eru þér til stuðnings í fæðingunni, nokkur atriði sem gefa til kynna viðhorf þín og væntingar til fæðingarinnar og viðhorf og reynsla við brjóstagjöf.

Óskalistinn er ekki handrit að fullkominni fæðingu

Fæðingar eru jafn mismunandi og þær eru margar og því margt sem ekki er hægt að skipuleggja með neinni vissu. Einnig geta komið upp aðstæður þar sem mikilvægt er að víkja frá upphaflegu plani til þess að tryggja sem best heilsu móður og barns. Það er því mikilvægt að skrifa óskalistann ekki sem handrit að hinni einu fullkomnu fæðingu því þá eru einhverjar líkur á því að verðandi foreldrar verði fyrir vonbrigðum með reynsluna.

Ef verðandi foreldrar skrifa óskalistann með því hugarfari að listinn sé kynning á þeirra viðhorfum og væntingum til barnseigna er líklegt að óskalistinn verði þeim til gagns og gamans bæði fyrir fæðinguna og í fæðingunni.

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.