Hver er þín gulrót?

0

“Vá hvað hann er brúnn, það er eins og hann hafi verið á Tenerife” hrópuðu þeir þegar þeir sáu nýfædda bróður sinn baðaðan í fyrsta sinn. Hann kom í heiminn um hávetur og hafði ekki séð sólina. Móðir hans hafði hinsvegar verið sólgin í gulrætur á meðgöngunni.

Gulrætur fá lit sinn frá beta-karótíni en það er rauð-appelsínugult litarefni sem finnst víða í náttúrunni. Ef við borðum mikið af því eru líkur á að húðin fái gulbrúna áferð. Þar sem gulrætur hafa sýnileg áhrif á húðina spyr maður sig hvort þær hafi einhver önnur áhrif.

 

Hægir á öldrun

Með aldrinum tapar húðin styrkleika, verður slappari og myndar línur eða fellingar (mér leiðist orðið hrukkur og forðast að nota það). Eitt það sem á sér í stað í húðinni er að ensímið Matrix Metalloproteinase (MMP) fer að eyða kollageni hraðar eftir því sem við eldumst, sem er óheppilegt því með aldrinum verður húðin líka lélegri að búa til nýtt kollagen í stað þess sem tapast.

Við missum þannig kollagen hraðar með aldrinum og verðum lélegri í að mynda nýtt.

Það eru þó til ýmiss ráð við því. Eitt sem vekur athygli er að sýnt hefur verið fram á að beta-karótín hægir á niðurbroti kollagens (með því að hægja á virkni MMP ensímsins) í músum. Hvort hægt sé að heimfæra það á menn er þó enn óljóst. Einnig hefur verið sýnt að beta-karótín geti látið húðina eldast hægar, t.d. með því að verja hana fyrir sindurefnum en það eru efni sem ráðast á prótein og erfðaefni líkamans og eiga þátt í að við eldumst.

 

Ekki gagnkvæmt ástarsamband

Eins mikið og hægt er að elska sólina þá er ástarsambandið við hana ekki gagnkvæmt – þvert á móti. Á meðan húðin baðar sig í mátulega heitum sólargeislum er sólin í fullri vinnu við að láta húðina eldast hraðar.

Útfjólubláu geislarnir sem sólin sendir frá sér skemma erfðaefni húðfruma og brjóta niður elastín og kollagen í húðinni.

Eins og fyrr sagði minnka elastín og kollagen með aldrinum af náttúrulegum ástæðum en sólin setur það ferli á hraðspólun. Það sem við teljum stundum eðlilega öldrun er oft á tíðum einfaldlega afrakstur sólbaða og ljósabekkjanotkunar. Prófaðu að bera saman húð þína þar sem sól hefur sjaldan skinið á (t.d. innan á upphandlegg) við húð sem sólin skín oft á  (t.d. handarbak eða framhandlegg). Þannig geturðu séð hversu mikið sólin hefur látið húðina eldast. Þegar við verðum sólbrún þá er brúni liturinn í raun merki um skaða sem sólin er að vinna hægt og bítandi á húðinni.

Sólin launar okkur þannig ástarsambandið með því að láta húðina eldast hraðar. Húðbreytingar eins og ójöfn áferð, blettir, litabreytingar,  háræðaslit og línur eru allt öldrunarmerki – auk þess sem sólin eykur líkurnar á að við fáum húðkrabbamein!

 

Vörn gegn sólinni

En hvað er þá til ráða? Það er lítið spennandi að kúldrast í skuggum þegar sólin lætur loksins sjá sig. Við getum beitt nokkrum vopnum sem verja okkur fyrir sólinni. Beta-karótín virðist búa yfir ljósverndandi eiginleikum sem þýðir að það getur varið húðina að einhverju leyti fyrir sólbruna. Í gulrótum leynast karótínin phytoene og phytofluene sem geta tek upp útfjólubláageisla (UVB/UVA) og hugsanlega minnkað þann skaða sem sólin hefur á húðfrumur. Til að karótínin geti hafi þessi áhrif þarf líkaminn að breyta þeim fyrst í virk efni. Það ferli gerist fremur hægt og er talað um að það þurfi að neyta þeirra nokkrum vikum áður en tilætluð áhrif koma fram. Þetta er samt enn á svokölluðu tilraunastigi.

Þó svo að gulrætur geti mögulega varið húðina að einhverju leyti fyrir skaðlegum áhrifum sólargeisla þá eru þær á engan hátt fullnægjandi vörn.  Alltaf er mælt með að nota sólarvörn í styrkleika 30 SPF að lágmarki, með vörn fyrir bæði UVA og UVB geislum. Þetta er mun öflugri vörn en karótín.

Húðin eldist hægar hjá þeim sem nota sólarvörn í samanburði við þá sem nota ekki eða sjaldan sólarvörn.

Svo eru líka aðrar leiðir til að verja sig eins og að nota höfuðfat eða klæða sólina af sér. Sólgleraugu eru einnig mikilvæg vörn því sólin getur einnig skaðað augun. Þó svo að öllum þessum vopnum sé beitt þá mun húðin fá hraustlegt útlit af útiverunni og að auki eldast og endast okkur betur.

 

A-vítamín í kaupbæti

Beta-karótín í gulrótum nýtist einnig til annarra verka. Lifrin getur nefnilega breytt beta-karótíni í A-vítamín, sem er mikilvægt fyrir húðina, sjónina og slímhimnur líkamans. A-vítamínskortur getur skert fjórsemi karla, truflað tíðahring kvenna og valdið næturblindu því A-vítamín tekur þátt í að mynda litarefni í sjónhimnunni.

Til að húðfrumur okkar geti endurnýjað sig á heilbrigðan hátt þurfa þær A-vítamín. Án þess getur húðin orðið hreystrug og bólur myndast auk þess sem líkur á sýkingu í húð og slímhúð aukast, t.d. augnslímhúðarbólga (e. conjunctivitis), þvagfærasýking, öndunarfærasýking og húðsýking. Vegna þessa eiginleika hefur A-vítamín verið kallað andsýkingar-vítamín.

 

Þeir sem borða ekki gulrætur

Ef þér finnst gulrætur lítið spennandi þá eru fleiri jurtir sem innihalda beta-karótín eins og grænt laufgrænmeti (grænkál, spínat, spergilkál), gult rótargrænmeti (rófur, sætar kartköflur, grasker) og í raun allir gulir og appelsínugulir ávextir (melónur, apríkósur, mangó).

 

Náttúran toppar allt

En þá spyr maður sig hvort það sé ekki bara fínt að fá beta-karótín með pillu? Við mælum alls ekki með því þar sem sýnt hefur verið fram á að beta-karótín í töfluformi getur haft neikvæð áhrif á heilsu og t.d. aukið krabbameinshættu hjá reykingamönnum. Þar fyrir utan hefur ekki verið sýnt fram á gagnsemi beta-karótíns í töfluformi.

Mælt er með að fá beta-karótín af náttúrunnar hendi og gulrætur eru góðar því í þeim er einnig að finna B- og C-vítamín ásamt mikilvægum steinefnum eins og kalíum, kalk, járn og fosfór. Þegar gulrætur er valdar er ágætt að hafa í huga að því litsterkari sem þær eru, þeim mun meira er innihaldið af beta-karótíni.

Og ekki má gleyma að þegar við bítum reglulega í gulrót (eða annað hart undir tönn) þá erum við að örva beinvöxt tanngarðsins okkar.

Það er því gott að eiga gulrót fyrir fallega og heilbrigða húð!

Að lokum læt ég fylgja með eina uppskrift sem er í uppáhaldi og passleg fyrir fimm. Ég keypti mér um daginn kröftugan Vitamix blandara og er alveg hætt að notasafapressu því með með því að nota blandara fáum við trefjarnar með grænmetinu og ávöxtunum, sem eru mikilvægar fyrir meltinguna.

 

Gulrótar- og engiferdrykkur

  • 3 bollar eplasafi
  • 5-6 miðlungsstórar gulrætur, skornar í bita
  • 2 bollar klaki
  • ½ – 1 tsk rifið engifer eftir smekk
  • ½ – 1 tsk rifið túrmerik eftir smekk (má sleppa)
  • Aðferð: Sett í öflugan blandara eftir ofangreindri röð. Snúningur aukinn smám saman þangað til allt er vel blandað.

 

 

Heimildir

  1. Stahl W, Sies H. β-Carotene and other carotenoids in protection from sunlight. Am J Clin Nutr. 2012 Nov;96(5):1179S-84S.
  2. Evans JA, Johnson EJ. The role of phytonutrients in skin health. Nutrients. 2010 Aug;2(8):903-28.
  3. Pryor WA, Stahl W, Rock CL. Beta carotene: from biochemistry to clinical trials. Nutr Rev. 2000 Feb;58(2 Pt 1):39-53.
  4. Souyoul SA, Saussy KP, Lupo MP. Nutraceuticals: A Review. Dermatol Ther (Heidelb). 2018 Mar;8(1):5-16.
  5. Meléndez-Martínez AJ, Mapelli-Brahm P, Benítez-González A, Stinco CM. A comprehensive review on colorless carotenoids phytoene and phytofluene.  Arch Biochem Biophys. 2015 Apr 15;572:188-200.
  6. Hiragun M, Hiragun T, et al. Oral administration of β-carotene or lycopene prevents atopic dermatitis-like dermatitis in HR-1 mice. J Dermatol. 2016 Oct;43(10):1188-1192.
  7. de Waure C, Quaranta G et al. Systematic review of studies investigating the association between dietary habits and cutaneous malignant melanoma. Public Health. 2015 Aug;129(8):1099-113.
  8. Hughes MC, Williams GM, et al. Sunscreen and prevention of skin aging: a randomized trial. Ann Intern Med. 2013 Jun 4;158(11):781-90.
  9. Frank M, Lesley ER, et al. Effects of oral vitamin E and β-carotene supplementation on ultraviolet radiation–induced oxidative stress in human skin. The American Journal of Clinical Nutrition, Volume 80, Issue 5, 1 November 2004, Pages 1270–1275.
Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."