Töluverðar breytingar hafa orðið á fæðingarhjálp á Íslandi síðustu áratugina. Fæðingarstöðum úti á landi hefur fækkað til muna og núorðið fara langflestar fæðingar fram í Reykjavík ( ~70%) og á Akureyri (~10%).
Árið 2012 fóru fæðingar fram á 12 öðrum stöðum á landinu auk þess sem rúmlega 2% kvenna áttu börn sín í heimahúsum (1).
Í leiðbeiningum um val á fæðingarstað frá Embætti landlæknis eru fæðingarstaðir á Íslandi skilgreindir í fjögur mismunandi þjónustustig, A-D (2).
Fæðingarstaður A táknar hæsta þjónustustig (þ.e. Landspítala-háskólasjúkrahús) og D fæðingarstað sem hentar konum aðeins þegar meðganga hefur verið eðlileg og fæðing er talin verða án fyrirsjáanlegra vandamála að mati læknis og ljósmóður.
Fæðingarstaður með þjónustustig D getur því verið lítil fæðingardeild á heilbrigðisstofnun eða fæðing í heimahúsi.
Á meðgöngunni eiga ljósmæður og læknar að ræða við verðandi foreldra um hvaða fæðingarstaðir standa þeim til boða. Þetta samtal á að taka mið af leiðbeiningum um val á fæðingarstað sem Embætti landlæknis gaf út árið 2007. Leiðbeiningar Embættis landlæknis eru hugsaðar til viðmiðunar en ekki sem reglur og að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að val á fæðingarstað sé einstaklingsbundið og háð aðstæðum hverju sinni.
Þannig ætti t.d. konu með langvarandi sjúkdóm, fjölburameðgöngu eða meðgöngusykursýki að vera ráðlagt að eiga barnið á fæðingarstað með háu þjónustustigi.
Á hinn bóginn má ráðleggja hraustum konum sem átt hafa eðlilega meðgöngu með engin fyrirsjáanleg vandamál í fæðingu að velja fæðingarstað í sínu bæjarfélagi eða í heimahúsi. Slíkt val er þó að sjálfsögðu háð aðgengi að ljósmóður eða lækni í bæjarfélaginu.
Leiðbeiningar um meðgönguvernd og fæðingarhjálp á Íslandi eru byggðar að miklu leyti á breskum leiðbeiningum frá National Institute of Clinical Exelence (3). Bresku leiðbeiningarnar voru nýlega uppfærðar þannig að lögð er meiri áhersla á samtal um val á fæðingarstað.
NICE leiðbeiningarnar benda einnig ljósmæðrum og læknum á mikilvægi þess að minna konur og aðstandendur þeirra á að sjálft fæðingarferlið er yfirleitt mjög öruggt fyrir hraustar konur með eðlilega meðgöngu.
Val á fæðingarstað ræðst oft af búsetu hér á landi. Þannig eiga konur búsettar á landsbyggðinni kost á því að eiga barn sitt í sínu bæjarfélagi ef ljósmóðir eða læknir með reynslu í fæðingarhjálp er á svæðinu og konan hefur átt eðlilega meðgöngu.
Ef áhætta eykst á meðgöngu þá geta konur fært sig til Reykjavíkur á hátæknisjúkrahús. Þar sem ekki er rekið fæðingarheimili á höfuðborgarsvæðinu hafa konur þar um tvo kosti að velja í sínu nágrenni, annað hvort fæðingu á hátæknisjúkrahúsi eða fæðingu í heimahúsi.
Val á fæðingarstað er því ákvörðun sem byggist meðal annars á samtali við ljósmóður eða lækni, þeim valkostum sem til staðar eru í hverju bæjarfélagi, heilsu móður og heimilisaðstæðum.
Fjölskyldur og heilbrigðisstarfsmenn geta einnig haft leiðbeiningar Embættis landlæknis, sem skilgreina fjögur mismunandi þjónustustig fæðingarstaða, til hliðsjónar við þessa mikilvægu ákvörðunartöku.