Hvað eru timburmenn og hvernig er hægt að losna við þá?

0

Fæstum, ef nokkrum, finnst gaman að glíma við líkamlegar og andlegar afleiðingar þess að hafa drukkið of mikið áfengi. Daginn eftir áfengisneyslu eru eftirfarandi einkenni algeng:

 • Mikil líkamleg og jafnvel andleg þreyta
 • Þunglyndiseinkenni
 • Mikill þorsti
 • Vöðvakrampar
 • Höfuðverkur
 • Magaverkur
 • Lystarleysi
 • Niðurgangur og/eða uppköst

Þessi upptalning er ekki tæmandi og hér er gert ráð fyrir að enginn hafi orðið fyrir slysi eða ofbeldi.

En af hverju stafa þessi einkenni?

Eftir að hafa drukkið áfengi þarf líkaminn að brjóta niður etanól, sem er virka efnið í öllum áfengum drykkjum. Niðurbrotið fer fram í lifrinni og við það myndast eiturefnið asetaldehýð sem veldur til að mynda roða í andliti, aukinni svitamyndun, ógleði, uppköstum og hraðari hjartslætti.

Eiturefnið asetataldehýð veldur ofangreindum einkennum eftir áfengisneyslu en auk þess eru þrjár aðrar undirliggjandi ástæður fyrir líkamlegri vanlíðan:

1. Ofþornun

Hver kannast ekki við að þurfa að pissa óvenju mikið eftir að hafa drukkið bjór eða annað áfengi. Það er vegna þess að áfengi minnkar losun á ákveðnu hormóni sem stjórnar vatnsbirgðum líkamans og við það tapast meiri vökvi úr líkamanum en við neyslu drykkja sem eru án áfengis.

Þegar líkaminn tapar of miklum vökva þá verður heilinn fyrir vökvaskorti sem veldur höfuðverk. Við töpum einnig steinefnum með öllu pissinu (og svitanum) sem getur valdið vöðvakrömpum.

2. Lágur blóðsykur.

Ef við höfum verið ódugleg að borða áður en áfengisdrykkjan hófst þá eru glúkósabirgðir líkamans einnig lágar. Þar sem lifrin setur í forgang að brjóta niður etanól þá býr hún ekki til glúkósa á meðan. Heilinn okkar gengur helst fyrir glúkósa og þegar blóðsykurinn fellur þá getum við upplifað einkenni eins og þreytu, svima, einbeitingarskort og sjóntruflanir.

3. Svefntruflanir.

Mikil áfengisneysla hefur talsverð áhrif á gæði svefns og hefur áður verið líst hér. Í stuttu máli, þá byrjar heilaköngullinn að framleiða svefnhormónið melatónin þegar kvölda tekur. Áfengi hefur þau áhrif að við framleiðum minna af melatóníni sem getur haft þau áhrif að við sofum ekki eins vel og vöknum upp árla morguns.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir þynnku?

Besta ráðið gegn þynnku eða timburmönnum er ávallt að drekka bara lítið eða ekkert af áfengi. Annars hjálpar að:

 • alcoholBorða vel af mat og drekka vel af vökva sama dag og áfengis er neytt.
 • Miða við að drekka eitt glas af vatni fyrir hvert glas af áfengi.
 • Að taka inn 3-5 mg af melatóníni með heilu glasi af vatni fyrir svefn til að sofa betur.

Þessi pistill var unninn í samvinnu við Láru Sigurðardóttir, lækni og lýðheilsufræðing.

Ítarefni um áfengi

Éduc’alcool – ALCOHOL HANGOVER

Vísindavefurinn – Hvað er áfengiseitrun?

Harvard School of Public Health – Alcohol: Balancing Risk and Benefits

Er rauðvín grennandi?

 

 

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.