Eftir hvers kyns áfall er mikilvægt að við hugum vel að sjálfum okkur. Erfitt getur verið að bera einn þá byrði sem áfallinu fylgir og þá er gott að geta leitað til þeirra sem við treystum best. Sumir eiga erfitt með að segja sínum nánustu frá áfallinu og þá er gott að geta leitað til fagaðila.
Í kjölfar alvarlegs áfalls er eðlilegt að upplifa einkenni áfallastreitu. Í sumum tilvikum hverfa einkennin á fyrstu vikunum eftir áfallið en stundum vara þau lengur og ágerast jafnvel með tímanum. Þá er mikilvægt að leita sér aðstoðar fagaðila.
Áfallastreita einkennist af endurupplifun atburðarins (t.d. í formi martraða eða endurtekna minninga); forðun frá hugsunum og tilfinningum sem tengjast áfallinu og því í umhverfinu sem tengist áfallinu; neikvæðar breytingar á hugarfari og líðan (t.d. minni áhugi eða þátttaka í mikilvægum athöfnum, eða að upplifa sig fjarlægan eða aftengdan öðrum); og aukin örvun (t.d. pirringur, svefntruflanir og einbeitingarerfiðleikar).
Langtíma rannsóknir hafa sýnt að ef að einkenni áfallastreitu eru enn til staðar nokkrum mánuðum eftir áfallið, þá hverfa þau sjaldnast án sérhæfðrar meðferðar.
Áfallastreitueinkenni geta varað í mörg ár og jafnvel áratugi eftir að áfallið átti sér stað. Það er þó aldrei of seint að leita sér hjálpar. Sérhæfð meðferð við áfallastreitu getur borið mjög góðan árangur jafnvel þó að langur tími sé liðinn frá áfallinu.
Algengt er að þeir sem upplifa einkenni áfallastreitu finni einnig fyrir einkennum þunglyndis, kvíða og svefnvanda. Fólk sem er með áfallastreituröskun er því líklegra en aðrir til að leita sér heilbrigðisþjónustu vegna ofangreindra vandamála. Það er því mikilvægt að hafa í huga að stundum er áfallastreita rót þeirra vandamála. Rannsóknir hafa sýnt að hugræn atferlismeðferð hefur borið góðan árangur við meðferð á áfallstreitu.
Nánari upplýsingar: