Hvað ætti að vera daglega á þínum matseðli?

0

Ráðlagt er að allir borði 500 grömm af ávöxtum og grænmeti daglega þar sem rannsóknir sýna að með svona mikilli neyslu er hægt að draga úr líkum á ýmsum sjúkdómum svo sem hjarta-og æðasjúkdómum, sykursýki týpu 2 og ýmsum gerðum af krabbameinum.

Nýlega voru birtar niðurstöður úr stórri bandarískri rannsókn í Plos Medicine þar sem safnað hafði verið saman niðurstöðum þriggja rannsókna um samband milli fæðutegunda úr jurtaríkinu við líkamsþyngdarbreytingu yfir 24 ára tímabil. Þessi rannsókn sýndi að mikil ávaxta- og grænmetisneysla hafði þau áhrif að einstaklingar voru síður að þyngjast yfir langt tímabil og jafnvel að grennast lítillega.

Þegar þetta samband var skoðað nánar mátti sjá að ekki allar tegundir ávaxta og grænmetis sýndu jákvæð áhrif á líkamsþyngdina. Þyngdartap var mest hjá þeim sem borðuðu reglulega ber af öllum gerðum, epli, perur, avókadó, rúsínur og greipaldin. Fleiri fæðutegundir sýndi þessi  áhrif en það voru aðallega grænmetistegundir sem innihalda lítið af sterkju eins og blómkál, spergilkál, rósakál, hvítkál, dökkgrænt blaðgrænmeti og gulrætur. Einnig var neysla á soja og sojavörum verndandi gegn þyngdaraukningu.

Helstu fæðutegundir úr jurtaríkinu sem virtust valda þyngdaraukningu ef neytt í miklu mæli voru kartöflur (þar með talið sætar kartöflur), ertur og maís.

Samkvæmt höfundum rannsóknarinnar er æskilegt að flestir einstaklingar reyni eins og kostur er að halda sér í sömu þyngd og forðast miklar sveiflur í líkamsþyngd. Að borða mikið af ávöxtum og grænmeti virðist geta hjálpað einstaklingum að halda sér í svipaðri líkamsþyngd yfir langt tímabil og jafnvel grennast. Þá gefur þessi rannsókn vísbendingu um að takmarka mætti sterkjuríkt grænmeti í daglegu fæði eins og kartöflur.

salmonTil að auka magn ávaxta og grænmetis í fæðinu má hafa í huga að reyna að hafa alltaf ávöxt og/eða grænmeti með í hverri máltíð og einnig að grípa í slíkar fæðutegundir á milli mála.

Mataræði Íslendinga var síðast skoðað á tímabilinu 2010 og 2011 og þá kom í ljós að flestir borða of lítið af ávöxtum og grænmeti. Það er því til mikils að vinna að borða ríflega af ávöxtum og grænmeti og best er að fá þá í heilu lagi en ekki sem safa.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.