Hugmyndir að jólagjöfum sem gera meira en að gleðja

0

Ertu enn að klóra þér í hausnum yfir jólagjöfunum? – hér færðu nokkrar hugmyndir

Jólagjafir þurfa ekki að vera dýrar og upplifun með okkar nánustu er meira virði en heimsins flottustu gjafir. En okkur langar líklega flestum að gleðja okkar nánustu með einhverju sem bætir kryddi í lífið og sýna þannig að við hugsum hlýlega til þeirra.  Af því tilefni hafa pistlahöfundar Heilsunnar okkar sett saman stuttan lista með tillögum að jólagjöfum til að hjálpa þeim sem eru ennþá að velta fyrir sér gjöfum fyrir sína nánustu.

Okkar óskalisti

  • Fæðutegundir sem eru góðar fyrir heilsuna, til dæmis gæða jómfrúarolía og/eða edik á salatið. Heimagert múslí með litlu magni af sykri, dökkt súkkulaði og gæða te eða kaffi eru einnig gjafir sem kitla bragðlaukana.
  • Skrefamælir eða úr sem telur skrefin þín – hann þarf ekki að vera hátækni og mæla púls og þess háttar. Það er nóg að mælirinn telji skrefin, en miðað er við að við göngum 10 þúsund skref á dag. Einnig væri hægt að gefa 10 skipta sundkort. Með þessum gjöfum hjálparðu viðkomandi að auka markvisst hreyfingu sína á nýja árinu

Öll hreyfing telur og það eru margar leiðir til að fylgjast með árangrinum. Fjöldi snjallsímaforrita (appa) eru á markaðinum, til dæmis Endomondo og Zombies, sem mæla magn hreyfingar. Gott markmið getur til dæmis verið að ná 10.000 skrefum eða 30 mínútum yfir daginn. Allt umfram það er líka gott mál.

Black sneakers with heart on white

  • Við hugum að umhverfinu með því að setja fjölnota vöru í jólapakkann eins og vatnsflösku úr gleri, ferðamál fyrir kaffi eða te eða margnota poka fyrir innkaupaferðir.
  • Inneignarnóta að samverustund er gjöf sem hittir alltaf í mark. Sem dæmi getur viðkomandi útbúið inneignarnótu að ýmis konar samveru með barni eða vini eins og að fara í sund saman, fjöruferð, fjallgöngu eða menningarferð t.d. á Kjarvalsstaði.
  • Gjafakort í leikhús eða bíó þar sem gefandinn kemur jafnvel með.
  • Svefngríma til að styðja við góðan nætursvefn sem er svo mikilvægur fyrir heilsuna okkar
  • Borðspil sem fær fjölskylduna til að hlægja, hafa gaman og eiga notalega samverustund.
  • Góð bók sem hvetur til gæðastunda með sjálfum sér.
  • Vekjaraklukku með dagsljósalampa sem líkir eftir sólarupprás áður en hún hringir er hjálpleg til losna undan skammdegisdepurðinni.
  • Hlý húfa, ullarsokkar og vettlingar fyrir kuldann. Það er auðveldara að drífa sig út í fallega veðrið þegar maður er vel búinn.
  • Gönguskór sem ná upp fyrir ökkla eru mikilvægir í útivistina og sérstaklega fjallgöngur. Einnig er mun skemmtilegra ganga á góðum skóm.

Gleðileg jól!

Share.

Heilsan okkar er samfélag vísinda og sérfræðiþekkingar. Við leggjum áherslu á að birta eingöngu efni sem byggt er á gagnreyndri þekkingu.