Elín Rós Jónasdóttir íþróttafræðingur og nemi í sjúkraþjálfun ritar:
![Elín Rós](https://heilsanokkar.is/wp-content/uploads/2017/02/elinros_opt-300x300.jpg)
Mikilvægi hreyfingar er flestum kunnug. Hreyfing getur komið í veg fyrir ýmsa lífstílssjúkdóma og stuðlað að bættri heilsu og lengra lífi. Hreyfing hefur einnig þann kost að geta bætt útlit og eru margir sem tengja hreyfingu eingöngu við það. Góð heilsa er hins vegar skilgreind sem líkamlegt, andleg og félagslegt heilbrigði, sem sýnir að líkamlegi þátturinn er bara hluti af púsluspilinu (1). Líkaminn virkar best sem ein heild þegar allir hlutar hans starfa saman, og því er andlegi þátturinn ekki síður mikilvægur en sá líkamlegi.
Geðsjúkdómar
Samkvæmt rannsókn frá 2009 er algengi geðraskana á höfuðborgasvæðinu 20%. Af þeim sem glíma við geðröskun eru 42% sem glíma við tvær eða fleiri (2). Þunglyndi er algengasta form geðraskana og kvíði er næst algengastur (1). Það er alltaf að verða meiri og meiri vakning í samfélaginu um andlega sjúkdóma og ber þar helst að nefna #égerekkitabú herferðin sem fór fram árið 2015 en hún opnaði augu margra um geðsjúkdóma. Meðferðarúrræði þessara sjúkdóma eru þó frekar einhæf og mættu þau koma inn á fleiri þætti. Ekki má gleyma mikilvægi heilbrigðis lífstíls og þeirra jákvæðu áhrifa sem hreyfing hefur á andlega heilsu einstaklings.
Hreyfing sem meðferð
Þar sem algengi geðraskana er frekar hátt er ljóst að þörf er á úrræðum fyrir þennan hóp. Algengustu meðferðarúrræðin við geðröskunum eins og kvíða og þunglyndi eru lyfja- og eða atferlismeðferðir. Lyfjameðferð er sú allra algengasta hér á landi en árið 2013 var lyfjakostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna tauga og geðlyfja um 3 milljarðar króna sem jafnfram vegur hlutfallslega þyngst í heildarkostnaði vegna lyfja á Íslandi (3). Þetta form meðferða er því mjög kostnaðarsamt auk þess sem oft fylgja aukaverkarnir af tauga- og geðlyfjanotkun sem geta haft áhrif á lífsgæði þeirra sem þau nota.
En er möguleiki að minnka kostnaðinn á einhvern hátt? Hvernig væri það mögulegt? Jú, með reglubundinni hreyfingu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að reglubundin hreyfing getur dregið verulega úr þunglyndi og kvíða, þá sérstaklega ef stunduð er þolþjálfun (4). Langtímarannsóknir sýna einnig fram á minni einkenni þunglyndis og annarra geðraskana hjá einstaklingum sem stunda reglubundna og skipulagða hreyfingu (5).
Ein ástæða fyrir að hreyfing hefur jákvæð áhrif á einstaklinga sem glíma við geðraskanir er að við áreynslu eykst seyti ýmissa hormóna. Þessi hormón veita ákveðna sælutilfinningu og fólk getur upplifað vellíðan. Einnig hefur félagsleg samvera áhrif, fólk fær jákvæða upplifun af hreyfingunni og sjálfstraust þeirra eflist þegar þeim finnst þeir geta áorkað einhverju (6).
Blumenthal o.fl. báru sama lyfjameðferð og hreyfimeðferð og komust að þeirri niðurstöðu að hreyfing og lyfjameðferð virka jafn vel á miðlungsalvarlegt þunglyndi. Munurinn var þó sá að lyfin byrja fyrr að virka en hreyfingin. Hreyfingin hafði það þó framyfir lyfin að þeir sem hreyfðu sig reglulega voru líklegri til að halda einkennum niðri lengur en þeir sem tóku lyf (7).
Öll hreyfing er af hinu góða
Öll hreyfing er holl og góð bæði fyrir líkama og sál. Til þess að hreyfimeðferð virki sem best fyrir fólk með þunglyndi eða kvíða er gott að hafa fagaðila sem sér um þjálfunina, utanumhald og uppbyggingu æfinga. Tegund, uppsetning og ákefð æfinga skiptir máli til þess að ná fram sem bestum árangri. Einnig er mikilvægt að hafa þjálfara til að viðhalda áhugahvöt með hvatningu og stuðningi. Rannsóknir hafa sýnt að þolþjálfun amk. þrisvar í viku í 30 mínútur í senn þar sem 60-80% af hámarkspúlsi er náð skili góðum árangri. Auknar líkur eru á brottfalli sé ákefðin of mikil eða of lítil (8).
Hreyfing þarf heldur ekki að kosta neitt. Ef einstaklingur ákveður að gera þetta sjálfur án þjálfara er gott að finna sér æfingafélaga. Góðir göngutúrar, hjólatúrar og hlaup eru dæmi um hreyfingu sem er hægt að gera hvar og hvenær sem er.
Sund er einnig ódýr hreyfing. Aðalatriðið er að hreyfa sig reglulega og finna eitthvað sem hentar hverjum og einum til að viðhalda áhuga og ánægju.
Hreyfing kemur þó ekki í stað hefðbundinnar meðferðar, sér í lagi ekki ef geðröskunin er á alvarlegu stigi, en hafa má í huga að hreyfing er frábær viðbót og af hinu góða í bataferlinu.
Heimildaskrá
- Physical activity and health. (2012). Illinois: Human Kinetics.
2. Eiríkur Líndal, Jón G. Stefánsson. (2009). Algengi geðraskana á Stór – Reykjavíkursvæðinu. Læknablaðið, 95, bls 559-563
3. Lyfjakostnaður sjúkratrygginga. 2013. Sjúkratryggingar Íslands
Sótt af : http://www.sjukra.is/media/skyrslur/Arsskyrsla-2013.pfd.
4. Zs chucke, E., Gaudlitz, K., & Strohle, A. (2013). Exercise and physical activity inmental disorders: clinical and experimental evidence. J Prev Med Public Health, 46 Suppl 1, S12-21. doi:10.3961/jpmph.2013.46.S.S12
5. Harris, A. H., Cronkite, R., & Moos, R. (2006). Physical activity, exercise coping, and depression in a 10-year cohort study of depressed patients. J Affect Disord, 93(1-3),79-85. doi:10.1016/j.jad.2006.02.013
6. Kenney, W. L., Wilmore, J. H., & Costill, D. L. (2012). Physiology of sport and exercise (5th ed.). Illinois: Human Kinetics.
7. Blumenthal, J. A., Sherwood, A., Rogers, S. D., Babyak, M. A., Doraiswamy, P. M., Watkins, L., Hinderliter, A. (2007). Understanding prognostic benefits of exercise and antidepressant therapy for persons with depression and heart disease: the UPBEAT study–rationale, design, and methodological issues. Clin Trials, 4(5), 548-559. doi: 10.1177/1740774507083388
8. Perraton, L. G., Kumar, S., & Machotka, Z. (2010). Exercise parameters in the treatment of clinical depression: a systematic review of randomized controlled trials. J Eval Clin Pract, 16(3), 597-604. doi: 10.1111/j.1365-2753.2009.01188.x