Hræðsla við fæðingu hefur áhrif á sjálfa fæðinguna

0

Fæðingarótti einkennist af hræðslu við sársauka í fæðingu, ótta við að geta ekki fætt barn og ótta við foreldrahlutverkið.

Orsök fæðingarótta getur verið slæm fyrri reynsla í fæðingu en konur sem eru með undirliggjandi kvíða eða þunglyndi eru líklegri til að finna fyrir fæðingarótta.

Þær sem ekki hafa áður átt barn eru þó langlíklegastar til að vera hræddar við barnseignarferlið.

Fæðingarótti hefur áhrif á ákvarðanir sem konur taka á meðgöngu og í fæðingu, sérstaklega á ákvörðun þeirra um hvernig barn þeirra kemur í heiminn.

Konur með mikinn fæðingarótta eru líklegri til að fæða barn sitt með keisaraskurði (1, 2).

Rannsóknir hafa einnig sýnt að konur með mikinn fæðingarótta eru líklegri til að velja mænudeyfingu (3) og gangsetningu fæðingar (4). Einnig eru konur með fæðingarótta lengur að fæða barn sitt (5).

Um 4-15% kvenna eru með mikinn fæðingarótta, samkvæmt rannsókn sem gerð var í fimm löndum auk Íslands (6).

Fæðingarótti mældist mismikill milli landa, en 7-9% íslenskra kvenna eru með mikinn fæðingarótta.

Minnstur var fæðingarótti meðal kvenna sem voru að eignast sitt fyrsta barn í Belgíu og mestur í Eistlandi. Íslenskar konur sem höfðu áður eignast barn mældust með lægstan fæðingarótta.

Aukin vitundarvakning hefur orðið að undanförnu um mikilvægi þess að styðja við andlega heilsu á meðgöngu og konur sem finna fyrir ótta eru hvattar til að ræða við ljósmóður.

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.