Hlúa má betur að börnum flóttafólks á Íslandi

0

Á undanförnum árum hefur fjöldi barnafjölskyldna sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi aukist. Niðurstöður meistararannsóknar sem Helga Guðmundsdóttir vann í þróunarfræðum við Háskóla Íslands gefa til kynna að umbóta sé þörf við móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi í fylgd foreldra.

Helga Guðmundsdóttir
Helga Guðmundsdóttir

Helga tók viðtöl við 12 börn og 10 foreldra en markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á sálfélagslega líðan barna og foreldra  við komu til Íslands sem og reynslu og upplifun þeirra af móttökunni. Helga telur að bæta megi þjónustuna við börn m.a. með því að gefa þeim tækifæri á að tjá sig um málefni er þau varða, bjóða upp á barnvænni aðstöðu hjá þjónustuaðilum og hafa aðgengilegar upplýsingar um réttindi þeirra. Einnig er nauðsynlegt að gera börnunum kleift að lifa eins eðlilegu lífi og unnt er með því að veita þeim nauðsynleg úrræði sem gerir þeim mögulegt að vera börn umfram allt og þroskast á eðlilegan hátt.

“Foreldrar sem ákveða að flýja og leita alþjóðlegrar verndar gera það til þess að búa börnum sínum öruggari og betri framtíð” segir Helga “en þegar til Íslands er komið eru börnin nær ósýnileg í kerfinu. Þau fá sjaldan tækifæri til þess að tjá sig um málefni er þau varða hvort sem það snýr að fyrri reynslu eða hvernig þeim gengur að fóta sig í nýjum aðstæðum á Íslandi”

Umsóknarferlið um alþjóðlega vernd getur tekið langan tíma. Biðtíminn veldur miklu álagi á börnin og foreldrana, gegnsýrir hversdagslífið og áhyggjur af höfnun liggur þungt á fjölskyldumeðlimum. Mikilvægt er því vinna umsóknir barnafjölskyldna hratt og vel.

Börnin vilja umfram allt lifa sem eðlilegustu lífi, kynnast öðrum börnum og hafa eitthvað fyrir stafni enda eru þau venjuleg börn en í óvenjulegum aðstæðum. Þrátt fyrir að umsóknarferlið um alþjóðlega vernd geti tekið langan tíma þá stöðvast þroski barna ekki samræmi við þá bið. Nám og skólaganga, möguleikar til félagslegra tengsla og velferð fjölskyldunnar voru börnunum eftst í huga samkvæmt rannsókn Helgu. Þau börn sem þurftu að bíða í einhvern tíma eftir að komast í skóla sögðu þá bið afar erfiða. Aðgengi að tómstundum og möguleikar unglinga á þátttöku í sumarvinnu meðal jafningja voru taldir mikilvægir þættir en þar sem börnin fá ekki kennitölu á meðan á biðtímanum stendur geta möguleikar þeirra á að taka fullan þátt í slíkri iðju verið takmarkaðir.

Andleg líðan barna og foreldra er misjöfn en flestir nefndu vanlíðan af einhverju tagi svo sem þunglyndi, kvíða, aukinn grát, dofa, martraðir, svefnleysi og sjálfsvígshugsanir. Það er því ámælisvert að ekki fari fram markviss skimun á andlegri og sálfélagslegri líðan barna og foreldra sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Rannsókn Helgu sýndi að börnin höfðu nær aldrei verið spurð út í andlega/sálræna líðan sína.

Foreldrarnir glíma oft við margvíslegar áhyggjur, vanlíðan, félagslega einangrun, einmanaleika og aðgerðarleysi. Stuðningur við foreldra er mjög mikilvægur í þessu ferli þar sem þeir eru umönnunaraðilar og stuðningsnet barna sinna en þeir eru að takast á við breyttar, streituvaldandi og krefjandi aðstæður í nýju landi  sem og vinna úr fyrri áfallareynslu í mörgum tilfellum. Börnin eru mjög næm á líðan foreldra sinna og kom fram í rannsókninni hvernig sum barnanna reyndu á virkan hátt að bregðast við líðan foreldra sinna með því að veita þeim stuðning í margvíslegri mynd, s.s. sálrænan stuðning, og halda í jákvæðnina. Hlúa mætti betur að foreldrum í þessum sporum t.d. með því að veita þeim aukna möguleika á félagslegri virkni í nærsamfélaginu, draga úr aðgerðarleysi á meðan þeir bíða svars frá yfirvöldum og ekki síst að stytta biðtíma fjölskyldunnar eftir svari frá yfirvöldum eins og hægt er.

Þrátt fyrir að foreldrum finnist nokkur menningarmunur á milli heimalanda sinna og Íslands telja þeir það ekki hindra möguleika á góðu lífi í sátt og samlyndi við aðra í landinu. Þakklætið leynir sér ekki og er almenn ánægja með veitta þjónustu í umsóknarferlinu um alþjóðlega vernd en læra má af sögum þeirra og gera enn betur.

Ef fjölskyldurnar fá að lokum stöðu flóttamanns eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi tekur blákaldur raunveruleikinn við. Flestir eru sammála um að vel sé staðið að móttöku kvótaflóttamanna en það er hins vegar ekki raunin þegar flóttafólk sem kemur til landsins sem hælisleitendur á í hlut. Fjölskyldurnar þurfa að takast á við miklar og hraðar breytingar við umskiptin, þar sem við tekur allt annað kerfi en þær hafa búið við í umsóknarferlinu um alþjóðlega vernd. Fjölskyldurnar þurfa skyndilega að hafa frumkvæði á nýjum og framandi vettvangi og fóta sig sjálfar í tilverunni hér á Íslandi. Fæstir foreldrar hafa vinnu og tengslanet til þess að leita í og þekkja ekki hvernig kerfið virkar. Þetta getur verið mjög streituvaldandi ástand sem getur haft mikil áhrif á fjölskyldurnar, bæði foreldra og börn. Fjölskyldurnar þurfa betri aðstoð og stuðning og myndu án efa njóta góðs af stuðningsfjölskyldum, tengslaneti og aukinni aðstoð við að hefja lífið fyrir alvöru á á Íslandi eins og kvótaflóttafólki stendur til boða.

Mikilvæg er að taka vel á móti fjölskyldum sem leita alþjóðlegrar verndar hér á landi og er það allra hagur. Fyrst og fremst vegna mannúðar og virðingu við fjölskyldurnar sjálfar en einnig má líta til þess að fjölskyldurnar eru og verða mannauður Íslands fái þær dvalarleyfi. “Grunnurinn að heilbrigði og velferð er lagður í æsku og því er mikilvægt að búa börnunum góðar aðstæður og styðja við foreldrana í því að veita börnum sínum öryggi og umhyggjusamt uppeldi” segir Helga.

Fjallað var um rannsóknir Helgu á málþingi UNICEF á Íslandi í febrúar á þessu ári og lesa má fréttir af málþinginu hér og hér.

 

 

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.