Heilsueflandi grunnskóli – Holla valið verði auðvelda valið!

0

Oft hefur verið sagt að það þurfi heilt samfélag til að ala upp barn. Í því samhengi er mikilvægt að allir aðilar vinni saman að velferð barna. Foreldrar gegna auðvitað lykilhlutverki í að hlúa að velferð barna sinna en skólinn og  íþrótta- og tómstundafélög spila þar líka stórt hlutverk. Rannsóknir hafa sýnt að börnum sem hreyfa sig reglulega, fá hollan mat, hvílast nóg og líður almennt vel, gangi betur að afla sér þekkingar og tileinka sér færni á ýmsum sviðum (1) og eru ólíklegri til að stunda áhættuhegðun eins og að byrja ung að drekka áfengi, reykja og neyta annarra vímuefna (2).

Heilsueflandi grunnskóli er verkefni á vegum Embættis landlæknis sem hefur það markmið að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu nemenda í sínu starfi. Heilsan okkar ræddi við Ingibjörgu Guðmundsdóttur verkefnastjóra hjá Embætti landlæknis og fékk að vita meira um hugmyndafræði verkefnisins.

Í heilsueflandi skólum er lögð áhersla á að skapa aðstæður sem stuðla að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Skólar koma sér upp heildrænni og vel skipulagðri heilsustefnu þar sem horft er á allt skólasamfélagið í heild. Heilsueflandi grunnskóla er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í sínu starfi.“

Heilsueflandi grunnskóli snýst því ekki bara um það að borða hollt og hreyfa sig heldur er einnig rík áhersla lögð á tannheilsu, öryggi, geðrækt og lífsleikni og taka allir í skólasamfélaginu þátt í að móta stefnu hvers skóla, þar með talið nemendur, kennarar og foreldrar. Hver skóli setur sér mælanleg markmið og önnur viðmið til að meta hvernig framkvæmd aðgerða gengur og hver árangurinn er.

 Getur hvaða skóli sem er tekið þátt? Allir grunnskólar geta sótt um þátttöku. Rúmlega 70 skólar víðs vegar um landið eða ríflega 40% allra grunnskóla eru þátttakendur í Heilsueflandi grunnskóla og fjölgar þeim á ári hverju

Er eitthvað eftirlit af hálfu Embættis landlæknis? Embætti landlæknis er með aðgang að skráningarsvæði skólanna og getur fylgst með framþróun á því svæði. Embættið hefur stutt skóla sem hafa átt erfitt með fyrstu skrefin við að taka þau og veitt skólum frekari stuðning ef óskað hefur verið eftir því. Mikilvægt er að hver skóli geri heilsueflingarstarfið að sínu og sjái tækifærin sem felast í því.

Geta foreldrar sinnt einhverju eftirliti? Heilsueflandi grunnskóli gengur út frá heildrænni nálgun þar sem allt skólasamfélagið tekur þátt. Foreldrar eru mikilvægur hluti af skólasamfélaginu og ættu því að vera þátttakendur í heilsueflingarstarfi skólans og minna á sig í því samstarfi ef þörf þykir. Með virkri þátttöku og gegnsæu starfi ættu foreldrar sem og aðrir sem láta þessi mál sig varða að hafa góðar forsendur til að veita endurgjöf og aðhald.

Eru heilsueflandi grunnskólar eitthvað frábrugðnir öðrum grunnskólum og hefur það eitthvað verið skoðað hvort einhver munur sé á heilsu og líðan nemenda í Heilsueflandi grunnskóla borið saman við aðra skóla? 

Flestir ef ekki allir skólar huga að heilsueflingu í sínu starfi á einhvern hátt. Heilsueflandi grunnskóli býður skólum þann stuðning og verkfæri sem gera þeim auðveldara að halda markvisst utan um sitt heilsueflingarstarf og uppfylla skyldur sínar samanber grunnþáttinn Heilbrigði og velferð  í Aðalnámsskrá grunnskóla. Heilsueflandi grunnskóli er ekki tímabundið verkefni heldur langtímaáætlun sem felur í sér að skoða það sem er verið að gera gott í skólanum og finna leiðir til að bæta það sem þurfa þykir.Það eru margir aðilar m.a. í háskólasamfélaginu sem safna gögnum um heilsu og vellíðan barna og unglinga. Mikið af gögnum eru til sem hægt væri að skoða en það hefur ekki ennþá verið gert. Á næsta ári stendur til að skoða þann möguleika að embættið nýti þessi gögn.

Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri
Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri

Við þökkum Ingibjörg Guðmundsdóttur kærlega fyrir fyrir þessar upplýsingar og bendum á ítarefni á vef Embættis landlæknis.

 

 

Share.

Maríanna er lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum