Heilsa, mannréttindi og Zika veiran

0

Zika veiran sem berst með aedes aegypti moskító flugunni og getur valdið vansköpun á höfði fósturs hefur verið reglulega í fréttum á síðustu vikum. Heilbrigðisyfirvöld í Suður-Ameríku og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafa sameinast í yfirlýsingum um mikilvægi þess að vinna bug á veirunni.

Það hefur vakið athygli að konum, sem búa á ákveðnum svæðum, hefur verið ráðlagt að verða ekki ófrískar á meðan ekki er meira vitað um veiruna.

Alicia Ely Yamin, sérfræðingur í lögfræði og alþjóðaheilsu við Harvard háskólann bendir á að þessi ráðlegging sýni glögglega hversu lítinn skilning yfirvöld hafa á aðstæðum kvenna þar sem Zika veiran er líklegust til að finnast, en það eru svæði þar sem ríkir mikil fátækt.

Zika veiran er afleiðing fátæktar og skerts aðgengis að hreinu vatni. Moskítóflugan sem ber Zika veiruna fjölgar sér í vatni og hefur helst fundist á svæðum þar sem fólk hefur ekki aðgang að nútímavatnsleiðslum. Það safnar því vatni í fötur sem geta orðið gróðrarstíur fyrir moskító flugurnar.

Þegar konum er sagt að forðast meðgöngu er horft fram hjá þeirri mikilvægu staðreynd að í löndum þar sem Zika veiran virðist hafa tekið sér bólfestu búa konur við bág kjör.

Þær hafa hugsanlega ekki fengið kynfræðslu, hafa ekki aðgang að getnaðarvörnum og fóstureyðingum og í einhverjum tilfellum hafa þær ekkert raunverulegt val um hvort þær stundi kynlíf. Það er því alls ekki hægt að gera þá kröfu að þær beri ábyrgð á því hvort og hvenær þær verði ófrískar.

Alicia Ely Yamin gagnrýnir harkalega þá stefnu yfirvalda að setja ábyrgðina á konur sem búa við mikla mismunun, slaka félagslega stöðu, heilbrigðiskerfi í molum og takmarkandi lög varðandi getnaðarvarnir og fóstureyðingar.

Til þess að taka almennilega á hættunni sem Zika veiran ber með sér verður að taka tillit til þeirra aðstæðna sem konurnar búa við og bregðast við þeim takmörkunum sem bág félagsleg staða og kynjamisrétti óneitanlega fela í sér.

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.