Heilsa aldraðra – mikilvægi næringar

0

Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands ritar:

img_3888_opt
Ólöf Guðný Geirsdóttir

Vannæring er alvarlegt ástand sem hefur áhrif á alla starfsemi líkamans hjá öllum aldurshópum. Vannæring meðal aldraðra er því miður nokkuð algeng og er ekki eðlilegt ferli öldrunar. Því er mikilvægt að vita hvaða afleiðingar vannæring getur valdið, hvað getur valdið vannæringu hjá öldruðum, þekkja einkennin og koma í veg fyrir vannæringu. Að koma í veg fyrir vannæringu ástvina er ekki aðeins hlutverk heilbrigðiskerfisins heldur líka okkar aðstandenda og einstaklingsins sjálfs því vannæring er alvarlegt ástand sem erfitt er að snúa ofan af.

Vannæring er þegar okkur skortir orku- og næringarefni þannig að líkaminn getur ekki endurnýjað sig, sem þýðir að t.d vefir líkamans gróa seint, ónæmiskerfi líkamans er ekki eins virkt til að berjast gegn sýkingum, vöðvar líkamans rýrna og lélegt næringarástand getur valdið bæði andlegri og líkamlegri vanlíðan.

Afleiðingar vannæringar

 • Ónæmiskerfi líkamans er vanvirkt sem veldur auknum líkum á sýkingum
 • Sár gróa seint eða illa
 • Vöðvar líkamans rýrna sem getur valdið óstöðugleika og fallhættu
 • Depurð, kvíði og sinnuleysi
 • Hægðartregða og meltingaróþægindi þegar matur er borðaður
 • Lystarleysi og frekari vannæringu

Orsakir vannæringar

Orsakir vannæringar hjá öldruðum eru oft margslungnar þar sem fléttast oft saman veikindi, félagslegar aðstæður og viðhorf einstaklingsins bæði hvað varðar að eldast og þiggja aðstoð.

 • Veikindi eða heilsufarslegar áhyggjur valda oft lystarleysi. Orkukræfir sjúkdómar eins og hjartabilun, lungnasjúkdómar o.fl. valda því að einstaklingurinn þarf meiri næringu en margir reikna með en á sama tíma valda þessir sjúkdómar og meðferð oftast miklu lystarleysi. Einstaklingar með vitræna skerðingu gleyma oft að borða og drekka.
 • Mikil innivera og lítil líkamleg hreyfing dregur úr matarlyst.
 • Hreyfihamlanir ýmiskonar geta gert einstaklingum erfitt fyrir að versla inn, bæði hvað varðar að fara og velja sér matvörur en einnig líka að nálgast matinn inn á heimilinu sjálfu.
 • Lélegar tennur, munnþurrkur, kyngingarerfiðleikar eða tap á bragðskyni getur valdið lystarleysi.
 • Sérfæði t.d. að taka út salt, sykur, fitu eða annað getur einnig dregið úr matarlyst.
 • Depurð og einmannaleiki dregur oft úr löngun til að elda og jafnvel að borða. Að elda fyrir einn virðist oft ekki vera fyrirhafnarinnar virði og því getur mataræðið orðið einhæft og næringar lítið.
 • Mörg lyf valda lystarleysi, þurrum munni eða meltingaróþægindum sem draga úr löngun til matar.
 • Áfengisnotkun dregur verulega úr matarlyst.
 • Slæmur fjárhagur getur valdið því að það er ekki hægt að kaupa inn næringarþéttan eða nægilegt magn af mat sem veldur fæðuskorti. Takmarkað fjármagn er oft tengt háum lyfjakostnaði og útgjöldum vegna læknisfræðilegrar meðferðar.

Einkenni vannæringar

Ekkert eitt atriði getur greint hvort einstaklingur sé vannærður eða í áhættu að verða vannærður. Því er mikilvægt að fylgjast með mörgum atriðum sem ættu að kveikja á að einstaklingur gæti verið í áhættu að vera vannærður.

 • Ef máltíðum fer fækkandi eða matarskammtar eru orðnir litlir þarf að fylgjast vel með hvort þetta sé tímabundið ástand í tengslum við veikindi eða tilfallandi vanlíðan. Ef svo er mikilvægt að hvetja einstaklinginn til að passa vel upp á mat og vökva. Ef lítil fæðuneysla er viðvarandi þarf að passa upp að allir drykkir og matur sé orku- og næringarþéttur og miða við 4-6 máltíðir á dag.
 • Þyngdartap hjá öldruðum er yfirleitt ekki jákvætt vegna þess að við þyngdartap tapar aldraður einstaklingur meira af vöðvavef en fituvef sem getur dregið úr hreyfigetu. Vöðvarýrnun er orðið veruleg þegar föt eru „orðin of stór“ t.d. yfir axlir, hálsmál, upphandleggi eða fótleggi þótt mittismál hafi lítið sem ekkert breyst.
 • Ef sár myndast á nuddsvæðum eins og setbeinum, fótum, olnbogum eða við herðablöð getur verið um vannæringu að ræða. Einnig ef sár gróa seint eða sýking er algeng.
 • Hægðatregða og meltingarvandamál í tengslum við að borða geta verið vísbending um að meltingin sé hæg og ekki í stakk búin að sinna sínu hlutverki vegna vannæringar.
 • Depurð, kvíði eða almennt sinnuleysi getur verið einkenni vannæringar.
 • Með því að þekkja aukaverkanir lyfja eins og lystarleysi, er hægt með ýmsum leiðum eins og að tryggja reglulegar máltíðir með orku- og næringarþéttum mat og drykk að koma í veg fyrir vannæringu.

Hvað er hægt að gera ef grunur er um vannæringu?

Mikilvægt er að grípa strax inn ef grunur um vannæringu því bið eftir því að ástandið lagist, hjálpar engum. Hægt er að gera marga einfalda en mikilvæga hluti til að bæta næringarástand.

 • Ef grunur vaknar um vannæringu eða að ástvinur sé ekki að nærast nægjanlega er mikilvægt að hafa samband við heimilislækni, eða þann heilbrigðisstarfsmann sem er í mestum tengslum við einstaklinginn. Oft er hægt að breyta lyfjum, breyta sérfæði eða fá orku- og næringarþétt fæði sem hentar betur einstaklingnum.
 • Tryggið heita máltíð a.m.k einu sinni á dag, helst tvisvar á dag. Leggið áhersluna á að borða próteinin (kjöt, fiskur, mjólk, linsur eða baunir) sem eru í máltíðinni.
 • Eigið tilbúnar litlar máltíðir til að nota sem millimál. Notið full feitar mjólkur vörur, olíur, smjör, feita osta, hnetusmjör, kæfur, pestó á brauð. Próteinríkar vörur eins og skyr, próteindrykki, egg eða eggjakökur henta vel á milli mála. Næringardrykkir sem eru orku- og næringarþéttir er hægt að fá og ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt greiðir Sjúkratryggingar Íslands hlut í þeim drykkjum samkvæmt beiðni frá lækni.

 • Mikilvægt er að matur sé til og að allur matur sé á því formi að hægt sé að njóta hans. Matvörur þurfa að vera þannig að auðvelt sé að opna þær t.d mjólk, safa, eða annað. Áferð fæðunnar sé þannig að það sé auðvelt að tyggja og kyngja fæðunni.
 • Að borða saman með ástvinum er oft ánægjulegt og gefur margt annað en góða næringu, getur t.d dregið úr einmannaleika og kvíða.
 • Hreyfing og ferskt loft getur aukið matarlyst
 • Aðstoð við innkaup eru mikilvæg. Ef keypt er fyrir ástvin þá er mikilvægt að passa upp á fjölbreytt innkaup til að reyna að koma í veg fyrir leiða á matvælum.
 • Hægt er að panta heimsendan mat frá ýmsum stöðum, skoðið hvað er í boði og hvernig þjónusta er í boði varðandi heimsendingar, sérfæði eða annað sem þarf.

Matur og drykkur er okkur lífsnauðsynlegur, því getur vannæring dregið úr heilbrigði, líkamlegri getu og lífsgæðum. Vannæring er flókinn og fjölþættur vandi sem við öll þurfum að hjálpast að til að koma í veg fyrir.

Upplýsingar fengnar frá heimasíðu Mayo Clinic (sóttar 29.12.2016)

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.