Vistvæn innkaup – Heilræði 3 (kaup á umhverfismerktum vörum)

0

Nú höldum við áfam með að nefna nokkur heilræði varðandi vistvæn innkaup. Hér má nálgast heilræði 1 og heilræði 2.

Þriðja heilræðið sem ég vil nefna eru kaup á umhverfismerktum vörum. Til er fjöldinn allur af vistvænum merkjum og oft er erfitt að átta sig á þeim öllum.

Þó eru nokkur merki sem eru einna áreiðanlegust og talin í hæsta gæðaflokki umhverfismerkja. Þar má nefna Svaninn, Evrópublómið, Bláa engillinn, Bra miljöval og Green Seal.

Þessar valfrjálsu merkingar eru með viðmið sem þróuð eru af sérfræðingum og taka mið af lífsferli varanna, allt frá öflun hráefnis til framleiðslu og neyslu og að lokum förgunar („frá vöggu til grafar“). Þannig stuðla merkin að því að takmarka umhverfisáhrif. Þetta er gert meðal annars til þess að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda (sem og annarra mengunarefna) við framleiðslu, takmarka vatnsnotkun og nota betri hráefni.

Einnig eru til merki sem stuðla að sanngirni í viðskiptum og má þar nefna Fairtrade. Bændur og vinnumenn í þeim löndum sem varan er framleidd fá ekki alltaf sanngjarnan hlut fyrir sína vinnu, en Fairtrade merkið segir okkur að framleiðendur og verslunarmenn fari eftir kröfum merkisins um sanngirni, gegnsæi og virðingu í alþjóðlegum viðskiptum.

Til er fjöldinn allur af umhverfismerkjum og skiljanlegt að það valdi okkur ruglingi. Ef þú vilt nýta þetta heilræði í vistvænum innkaupum, þá er gott ráð að byrja á því að muna eftir þessum sex merkjum sem ég taldi upp og læra að þekkja myndir þeirra. Skrefið þarf ekki að vera stórt en hver vara sem ber eitt af ofangreindum umhverfismerkjum er betri en sambærileg vara án umhverfismerkis. Hvert lítið skref í átt að vistvænum innkaupum skiptir máli og hefur jákvæð áhrif á umhverfið.

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.