Hamlandi viðhorf til eigin mataræðis

0

Í dag birtist grein í Læknablaðinu sem fjallar um hamlandi viðhorf til eigin mataræðis meðal Íslendinga (úrtakið var um 5500 þátttakendur).

Þátttakendur sem tóku þátt í rannsókn á vegum Embætti landlæknis (Heilsa og líðan) svöruðu fimm spurningum um viðhorf til eigin mataræðis og ef þeir svöruðu að minnsta kosti þremur þeirra á neikvæðan hátt þá voru þeir metnir með hamlandi fæðuviðhorf (unhealthy eating attitude).

Algengast var að þátttakendur sem voru með hamlandi viðhorf til eigin mataræðis sögðust:

  • fá samviskubit eftir að hafa borðað sætindi
  • þurfa að hafa stjórn á því hvað borðað er
  • vera ósáttir við eigin matarvenjur

Í ofangreindri rannsókn kom í ljós að tíðni hamlandi fæðuviðhorfs var 17% í rannsóknarhópnum, en greinilegur kynbundinn munur sást þegar niðurstöður voru greindar sérstaklega eftir kyni þar sem tvisvar sinnum fleiri konur reyndust vera með hamlandi fæðuviðhorf en karlar (22% á móti 11%).

Þrátt fyrir að þetta neikvæða viðhorf hafi verið algengara meðal kvenna þá voru sömu hópar hjá báðum kynjum að sýna hæstu tíðnina. Þannig var hamlandi fæðuviðhorf algengast hjá fólki á aldrinum 18 til 29 ára, meðal þeirra sem voru ósáttir við eigin líkamsþyngd og meðal þeirra sem eru skilgreindir í offitu samkvæmt líkamsþyngdarstuðli.

Þetta er í fyrsta sinn sem rannsókn af þessu tagi er gerð á Íslandi og var um að ræða meistaraverkefni Ólafar Drafnar Sigurbjörnsdóttur við Rannsóknastofu í næringarfræði og Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.

Lokaorðin í greininni eru eftirfarandi:

Stór hópur fólks, einkum ungs fólks, upplifir hamlandi viðhorf til eigin mataræðis, og á þar með erfiðara með að njóta þeirrar ánægju sem góður matur getur veitt. Þessar niðurstöður ættu að vekja okkur til umhugsunar um mótsagnakenndar áherslur samfélagsins um útlit og neyslu og að hvaða leyti hægt sé að sporna við slíkum áherslum. Mikilvægt er að skólar og heilsugæsla leggi sitt af mörkum og hvetji til umburðarlyndis gagnvart holdafari.“

 

Sjá einnig:

Skaðleg áhrif fitufordóma

Getur hollt mataræði farið útí öfgar?

Varhugavert þyngdartap

Er úrelt að meta heilsu eftir líkamsþyngdarstuðlinum?

Hvernig kem ég í veg fyrir ofát?

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.