Grillum rétt

0

Þó fátt sé skemmtilegra en að grilla góðan mat og njóta í góðra vina hópi, þá er mikilvægt fyrir heilsu okkar að grilla rétt.

Það sem skiptir mestu máli er að gæta þess að brenna ekki kjötið sem er verið að grilla en við það myndast efni (fjölhringja sambönd) sem geta verið krabbameinsvaldandi.

Hér má sjá ráðleggingar til að koma í veg fyrir að kjötið brenni:

  • Grillum ekki yfir opnum eldi eða logandi kolum
  • Snúum kjötinu reglulega á grillinu
  • Hægt er að byrja eða klára eldunina í ofni (ef vill)
  • Notið álpappír eða álbakka en þannig lekur síður fita/marinering niður, sem veldur loga í grillinu

Ef kjötið brennur, þá er er góð regla að skera burtu brennda hlutann.

Pössum líka að borða ekki hrátt kjöt

Það er afar mikilvægt að gegnumsteikja hamborgara og alifuglakjöt til að minnka líkur á matarsýkingum.

Undantekningin eru kjötstykki og kjötvöðvar sem ekki þarf að gegnumsteikja. Hér eru bakteríur sem geta valdið sýkingu einungis á yfirborðinu og drepast strax við hitun.

Hvað er æskilegt að borða mikið af kjöti?

Í nýlegum ráðlegginum frá Embætti landlæknis er mælt með því að borða ekki meira en 500 grömm af rauðu kjöti á viku til að minnka líkur á krabbameini í ristli.

Það er því tilvalið að leggja ríka áherslu á meðlætið og borða vel af grænmeti með hverri máltíð en einnig að borða oftar fisk, ljóst kjöt og grænmetisrétti í staðinn fyrir rautt kjöt.

Mundu þetta

Tekið saman þá er gott að hafa í huga að:

  • Forðast að brenna grillkjötið
  • Borða hvorki hráan hamborgara né hrátt fuglakjöt
  • Nota mikið af grænmeti  (hvort sem er grillað eða ferskt) með hverri máltíð

En umfram allt, njótum sumarsins.

Heimildir:

National Cancer Institut – Chemicals in Meat Cooked at High Temperatures and Cancer Risk

Matvælastofnun – Góð ráð við grillið

 

 

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.