Gosdrykkir með gervisætu minnka ekki líkur á þyngdaraukningu

0

Nýlega birti Plos Medicine grein sem fjallar um hvaða aðgerðir stjórnvöld ættu að fara í til að stemma stigu við hækkandi tíðni sjúkdóma eins og sykursýki týpu 2. Höfundar greinarinnar minna á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) sé búin að gefa út enduskoðaðar leiðbeiningar til stjórnvalda um hvernig minnka mætti sykurneyslu með því til dæmis að auka svigrúm til að setja reglur (s.s. sykurskatt) á sykraða gosdrykki. Leggja höfundar einnig áherslu á að gosdrykkir með gervisætu (artificially sweetened) hafi ekki sýnt sig að minnka líkur á þyngdaraukningu.

Er munur á sykruðum gosdrykkjum og gosdrykkjum með gervisætu?

Á vefsíðunni sykurmagn.is  sem er á vegum Embættis landlæknis má sjá að hálfur lítri af sykruðu gosi getur innihaldið allt að 30 sykurmola. Að drekka slíka drykki daglega getur því haft neikvæð áhrif á heilsuna okkar til lengri tíma litið og eru vísindamenn sammála um að regluleg neysla þessara drykkja geti leitt til þyngdaraukningar, þróunar sykursýki týpu 2 og tannskemmda.

Þó að gosdrykkir með gervisætu séu með sama lága sýrustigið og sykraðir gosdrykkir og því ekki æskilegir m.t.t. tannheilsu þá hafa flestir verið sammála um að slíkir drykkir séu þó skárri kostur en sykraðir gosdrykkir þar sem þeir innihaldi engan sykur.

En samkvæmt höfundum þessarar greinar þá er ekkert sem bendir til þess að gosdrykkir með gervisætu komi í veg fyrir þyngdaraukningu vegna þess að neysla þeirra örvi löngun eftir sætu bragði og geti því stuðlað að ofáti.

Þá kemur einnig fram að ekki séu til rannsóknir sem styðji að gosdrykkir með gervisætu verndi gegn þyngdaraukningu og að skortur sé á langtíma rannsóknum á heilsu tengt neyslu þessara drykkja.

Kallað er eftir óháðum aðilum til að gera slíkar rannsóknir og í millitíðinni er best að einbeita sér að því að drekka aðallega vatn og aðra drykkir með hagstætt sýrustig fyrir tennurnar, sjá veggspjald frá Embætti landlæknis yfir drykki sem henta best fyrir tennurnar.

Tengt efni:

Frétt hjá Foodnavigator um greinina

Gosdrykkir – hvað gerist í líkamanum?

 

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.