Lengi hefur verið vitað að sykraðir gosdrykkir eru ekki góðir fyrir heilsu okkar. Oft blandast inní þá umræðu að gosdrykkir sem eru án sykurs en innihalda í staðinn sætuefni, séu jafn slæmir fyrir heilsu okkar eða jafnvel verri en sykraðir gosdrykkir.
Af hverju eru sykraðir gosdrykkir svona slæmir?
Það eru nokkrar ástæður fyrir því en sú fyrsta er mikið magn sykurs á fljótandi formi. Í einni dós af sykruðu gosi eru um 17 sykurmolar og í hálfum lítra eru um 25 sykurmolar.
1. Dagleg neysla sykraðra gosdrykkja leiðir til þyngdaraukningar og fitusöfnunar í lifrinni (1).
Þegar fólk er komið yfir kjörþyngd þá breytast efnaskiptin þannig að mikil neysla gosdrykkja hefur áhrif á lifrina með þeim hætti að í henni safnast fyrir aukin fita sem getur leitt til fitulifur. Fitulifur er undanfari ýmissa sjúkdóma s.s. sykursýki og hjarta-og æðasjúkdóma og getur á endanum valdið skorpulifur (2, 3). Nýleg rannsókn sem gerð var á rúmlega 2.500 körlum og konum sýndi að þeir sem drekka sykraða drykki daglega eru í 55% meiri áhættu á að vera með fitulifur borið saman við þá sem drekka aldrei sykraða drykki (4).
2. Margir gosdrykkir (kóladrykkir) og orkudrykkir, innihalda koffín, sem er örvandi efni og ekki æskilegt fyrir börn og unglinga.
Orkudrykkir innihalda oft á tíðum mjög mikið magn af bæði sykri og koffíni. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum koffíns og getur neysla þess valdið ýmsum breytingum á hegðun þeirra, s.s. svefnerfiðleikum, óróleika, pirringi og kvíða. Þess má líka geta að koffín er ávanabindandi efni og því ekki æskilegt að börn og unglingar venjist neyslu drykkja sem innihalda koffín. Sjá nánari upplýsingar um koffín hér.
3. Gosdrykkir eru með lágt sýrustig.
Lágt sýrustig og mikill sykur er slæm blanda fyrir tennur, sjá nánar hér.
4. Gosdrykkir hafa áhrif á hegðun ungra barna.
Nýleg rannsókn á tæplega 3000 fimm ára börnum sýndi að börn sem drukku gos á hverjum degi voru árásargjarnari en þau sem drukku ekkert gos. Þau börn sem drukku 4 skammta eða meira á dag voru einnig með minni athygli (5). Ekki var aðgreint á milli sykurlausra og sykraðra gosdrykkja í þessari rannsókn.
Tekið saman þá hafa sykraðir gosdrykkir slæm áhrif á þyngd, efnaskipti, tennur og svefn. Þá geta bæði sykraðir og ósykraðir gosdrykkir valdið hegðunarerfiðleikum hjá börnum.
Hafa sykurlausir gosdrykkir jafnslæm áhrif og þeir sykruðu?
Rannsóknir sýna að sykurlausir drykkir virðast ekki auka áhættuna á fitulifur (4, 6) en ekki má gleyma að margir þeirra innihalda koffín sem er ekki æskilegt fyrir börn né unglinga. Einnig eru sykurlausir drykkir með mjög lágt sýrustig eins og sykraðir gosdrykkir. Ennfremur, hefur stór dönsk rannsókn sýnt fram á að barnshafandi konur ættu að láta sykurlausa drykki eiga sig vegna aukinnar áhættu á fyrirburafæðingum (7).
Notum gosdrykki í miklu hófi eða bara sleppum þeim og munum að þessir drykkir eiga ekkert erindi til barna. Vatn er ávallt besti kosturinn til að slökkva þorsta.
Fyrir áhugasama þá má líka lesa þennan pistil um viðbættan sykur.