Getur hollt mataræði farið út í öfgar?

0

Anna Þyrí Hálfdanardóttir BS-nemi í næringarfræði við Háskóla Íslands ritar:

Anna Þyrí Hálfdánardóttir
Anna Þyrí Hálfdanardóttir

Langflestir vita að holl og fjölbreytt fæða og regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir góða heilsu. Þó virðast sumir einstaklingar eiga í erfiðleikum með að finna jafnvægið sem felst í því að borða hollt að mestu en leyfa sér óhollustu af og til. En á sama tíma og offita er eitt helsta heilsufarsvandamál í heiminum og þá helst í löndum sem eru efnahagslega best sett, má einnig sjá hvernig samfélagsmiðlar og útlitsdýrkun hafa áhrif á fólk og margir finna fyrir pressu um að vera grannir og gera jafnvel óraunhæfar væntingar um ákjósanlega líkamsþyngd.

Sumir fá brenglaða sjálfsímynd og þróa með sér átröskunarsjúkdóma og má þar helst nefna lystarstol (anorexíu) og lotugræðgi (búlimíu). Einstaklingar með lystarstol svelta sig, léttast gríðarlega mikið og eru sífellt hræddir við að þyngjast og verða feitir (1). Einstaklingar með lotugræðgi taka svokölluð átköst þar sem mikið magn af mat er innbyrt hratt, oft hitaeiningaríkur matur, og svo eru uppköst framkölluð (2). Einnig  hafa sérfræðingar lagt til nýja átröskun sem fáir hafa heyrt um, enda tiltölulega stutt síðan fjallað var um hana fyrst, og nefnist hún orthorexia.

Greining

Orthorexia er skilgreind í orðabók sem þráhyggja fyrir réttu mataræði. Steven Bratman greindi fyrst frá einkennum þessarar tegundar af átröskun árið 1997 þegar hann birti grein í Yoga Journal (3, 4). Þetta erlenda heiti er myndað af orðliðunum „ortho‟, sem merkir „réttur‟ og „orexia‟ sem merkir „matarlyst‟. Ef til vill mætti nefna þessa röskun „hollusturöskun‟ á íslensku, því að helstu einkenni þessa ástands eru að einblína á hollustu hverrar fæðutegundar en gæta þess ekki að borða nægilega fjölbreytta fæðu þar sem helstu næringarefnin eru í réttum hlutföllum.

Hollusturöskun hefur ekki enn verið viðurkennd sem geðröskun og getur það stafað af því að einstaklingar með sjúkdóminn sýna hegðun sem minnir á aðrar geðraskanir sem flækir greiningu á sjúkdómnum. Deilt er um hvort hollusturöskun sé einstakur sjúkdómur eða í raun hluti af lystarstoli eða áráttu-þráhyggjuröskun. Ekki hefur verið fundin nógu góð aðferð til að greina ástandið ennþá en oftast er notast við spurningalista sem Bratman bjó til en er hann þó aðallega notaður til að skima fyrir einkennum (5). Þó má nefna að einkennin ein og sér eins og að skipuleggja máltíðir er vissulega í lagi, en þegar stór hluti dagsins fer í slíkar hugsanir þá getur það orðið að vandamáli.

Spurningalistinn lítur svona út:

  • Hugsar þú um mataræði þitt í meira en 3 tíma daglega?
  • Skipuleggur þú máltíðirnar þínar nokkra daga fram í tímann?
  • Er næringarinnihald máltíðarinnar mikilvægara en ánægjan við að borða hana?
  • Hafa lífsgæði þín minnkað samhliða því sem gæði mataræðis þíns hafa aukist?
  • Ertu orðin(n) strangari við þig en þú varst áður?
  • Eykst sjálfstraust þitt þegar þú borðar hollt?
  • Hefurðu útilokað mat sem þú naust áður eingöngu til þess að borða „réttan‟ mat?
  • Gerir mataræðið þitt það að verkum að það er erfitt að fara út að borða og finnst þér þú fjarlægjast fjölskyldu og vini?
  • Færðu samviskubit þegar þú ferð út af sporinu í mataræðinu?
  • Finnurðu fyrir friðsæld og algjörri stjórn þegar þú borðar hollt?

Ef viðkomandi svarar jákvætt við 4 til 5 af spurningunum er gott að hugsa aðeins sinn gang og reyna að slaka á í mataræðinu. Ef svarið er já við öllum spurningunum er það vísbending um þráhyggju um að borða hollan mat og gæti verið ástæða til að leita sérfræðiaðstoðar.

Hversu algengt er þetta ástand?

Spurningalistinn er ekki fullkominn og hefur verið gagnrýndur þar sem spurningarnar snúa bara að heilsusamlegu mataræði en skortir spurningar sem varða röskun í hversdagsleikanum, félagsfælni eða heilsuvandamál vegna mataræðis (5). Vegna þessa mælist algengi hollusturöskunar breytilegt, eða allt frá 6% upp í 89% milli landa og hópa. Þátttakendur í þessum rannsóknum koma oftast frá afmörkuðum samfélögum eins og háskólasvæðum, jafnvel einhverjum ákveðnum nemendahópum og hefur til að mynda algengi hollusturöskunar mælst há hjá ákveðnum hópum, svo sem næringarfræðinemendum, Ashtanga yoga iðkendum og næringarfræðingum. Algengi í þessum hópum hefur mælst 80-90%. En í stuttu máli eru engar áreiðanlegar niðurstöður um algengi hollusturöskunar og eins og áður sagði er það vegna þess að ekki er hægt að greina nógu vel með spurningunum hversu alvarlegt ástandið er. Þess vegna hafa Tomas M. Dunn og Steven Bratman lagt til nýjar spurningar til að greina ástandið sem lesa má um í yfirlitsgrein frá þeim sem var birt árið 2015 (5).

Orthorexia – einkenni

Einstaklingar með hollusturöskun (orthorexia) hugsa oft óeðlilega mikið um mat, eyða miklum tíma í að undirbúa máltíðirnar og eru helteknir af því að borða hollt. Þeir hugsa meira um gæði matarins en magn og ólíkt einstaklingum með lystarstol og lotugræðgi virðast þeir ekki vera að þessu til að léttast heldur er þetta meira spurning um að vera laus við óhreinindi eða mengun frá óhollum mat, þrá til að hámarka heilsu og eigin velferð (6). Uppruni fæðunnar er grandskoðaður, til dæmis hvort grænmeti hafi komist í snertingu við meindýraeitur, hvort mjólkurvörur hafi komið frá kúm sem hafa fengið hormón með fóðrinu og vinnsla fæðunnar er skoðuð, þ.e. hvort næringarefni hafi tapast við eldun. Þá er skoðað hvort aukefnum eins og rotvarnarefnum eða gervibragðefnum hafi verið bætt í fæðuna. Að lokum má nefna að pökkun matvælanna er einnig grandskoðuð, það er hvort að varan sé smituð af plastefnum úr umbúðum og hvort að merkingar sýni nógu miklar upplýsingar um vöruna svo hægt sé að dæma um gæði ákveðins innihaldsefnis. Gríðarlega miklum tíma er svo eytt í flokkun matarins, vigtun, mælingar og skipulagningu næstu máltíða (6).

Reynslusögur
Þó það hljómi ekki endilega illa, að einbeita sér að því að borða hollan og gæðamikinn mat, þá getur þetta leitt til ýmissa heilsufarslegra kvilla eins og næringarskorts ef gengið er of langt. Oft byrjar þetta með því að einstaklingur fer að taka til í mataræðinu, gerist grænmetisæta til dæmis eða byrjar á að taka út einn flokk matvæla vegna sjúkdóms eða meins sem einstaklingurinn þjáist af. Svo þróast mataræðið þannig að viðkomandi fer að taka út fleiri fæðuflokka og eru dæmi um að einstaklingar endi á því að borða einungis hrátt grænmeti og ferska ávexti. Yfirlitsgreiniin sem Thomas M. Dunn og Steven Bratman birtu, fjallar um nokkur slík tilfelli (5). Þar segir meðal annars frá ungri konu sem hafði tekið út alla fitu úr fæðinu þegar hún var 14 ára til að losna við bólur samkvæmt ráðleggingum frá næringarfræðingi. Tveimur árum síðar var hún orðin grænmetisæta sem borðaði egg og mjólkurvörur en 24 ára var hún orðin vegan-grænmetisæta og útilokaði egg og mjólkurvörur. Á þessum tímapunkti var hún orðin 27 kg, borðaði einungis hrátt grænmeti og hafði einangrað sig frá fjölskyldu og vinum. Hún var með líkamsþyngdarstuðul (BMI) uppá 10,7 kg/m2, komin með próteinskort og B12-vítamínskort. Hún sýndi engin hegðunarmynstur sem minntu á lystarstol og sjálfsímyndin var ekki brengluð. Hún borðaði svona vegna þess að hún trúði því að mismunandi tegundir próteina og næringarefna í sömu máltíðinni mynduðu eiturefni og að það ætti að forðast.

Í greininni er einnig fjallað um 30 ára karlmann sem þjáðist af vöðvakippum (tic disease) og borðaði eingöngu 3-4 skeiðar af brúnum hrísgrjónum og ferskt grænmeti í því skyni að reyna að læknast af sjúkdómnum. Eftir 3 mánuði á þessu fæði var hann orðinn rúmfastur og lá í 38 daga á spítala í meðferð við blóðsýringu (acidosis), lungnaþembu, loftbrjósti (pneumothorax) og blóðfrumnafæð (pancytopenia ).

Nokkuð algengt er að einstaklingar fái næringarskort í kjölfar orthorexiu og algengt er að konur sem eru með einkenni hollusturöskunar hætti á blæðingum en það getur leitt til ófrjósemi og beinþynningar (6). Það er einnig þekkt einkenni lystarstols að konur hætti á blæðingum (7).

Nokkrir bloggarar sem þjást af hollusturöskun hafa komið fram og sagt sína sögu fyrir fjölmörgum fylgjendum sínum og fengið misjöfn viðbrögð. Myndband um málefnið má sjá hér. Oft eru þetta ungar konur sem byrja að blogga um heilsusamlegan lífsstíl og eru þær oftar en ekki grænmetisætur sem með tímanum útiloka fleiri og fleiri fæðutegundir í daglegu mataræði og þróa þannig með sér alvarlegan næringarskort (8,9).

Lokaorð

Ljóst er að það þarf að rannsaka hollusturöskun frekar og finna ákjósanlega aðferð til að greina hana. Sífellt fleiri gerast grænmetisætur og virðist það vera ákveðinn áhættuþáttur fyrir að þróa einkennin með sér. Í nútímasamfélagi, þar sem mikil áhersla er lögð á að líta vel út og lifa heilbrigðu lífi til þess að forðast lífsstílstengda sjúkdóma, veltir maður fyrir sér hvort ekki séu margir í áhættu á að fá einkennin eða vera jafnvel með þau að einhverju leyti án þess að gera sér grein fyrir því. Þrátt fyrir að ekki sé til staðar viðurkenning fræðimanna á þessu fyrirbæri, þar sem þetta ástand skarast á við aðrar sjúkdómsgreiningar, er mikilvægt að fólk sé meðvitað um það að einblína um of á einstakar fæðutegundir (með hollustu að leiðarljósi) getur valdið því að líkaminn fær ekki öll næringarefnin sem hann þarfnast sem veldur skaða. Það er mikilvægt að borða holla fæðu en líka jafn mikilvægt að borða fjölbreytt. Svo má alls ekki gleyma að það er ekki heimsendir þótt við fáum okkur örlítið súkkulaði eða franskar af og til.

 

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.