Gæði matar umfram hitaeiningar

0

Nýlega birtist áhugavert viðtal við David S. Ludwig, sem er prófessor við næringarfræðideildina hjá Harvard, þar sem fjallað er um hvers vegna það sé betra að hugsa um gæði matvara í stað þess að einblína einungis á hitaeiningar þegar við kaupum í matinn. Það eru aðrir þættir sem skipta meira máli.

Hvað gerist ef við sveltum líkamann

Með því að borða minna og þar með fækka hitaeiningunum sem á endanum veldur þyngdartapi þá er ákveðin hætta á að þyngdartapið vari aðeins í skamman tíma.

Líkaminn bregst við sveltinu með ýmsum ráðum til að tryggja ákveðna aðlögun og til að hjálpa líkamanum að endast lengur í sveltinu.

 

Við hitaeiningaskerðingu gerist eftirfarandi:

  • Hungurtilfinning eykst
  • Það hægist á efnaskiptum
  • Við framleiðum meira af streituhormónum.

 

Aðeins lítill hluti fólks sem tapar þyngd með því að borða lítið viðheldur þyngdartapinu og það hefur ekkert að gera með viljastyrk – heldur er hér í gangi aðlögunarferli líkamans til að hjálpa okkur að lifa af.

Þáttur matvælaiðnararins

Ekki nóg með að líkaminn streitist gegn takmörkun á hitaeiningum heldur er framboðið mikið af matvörum sem innihalda lítið af trefjum en mikið af salti og/eða sykri og eru því ekki góð fyrir líkamann.

Dæmi: ef við borðum fínunnin kolvetni (sykrað gos, hvítt brauð, kex, kökur og sælgæti) þá fara þau hratt í gegnum meltingarveginn okkar og komast þar af leiðandi hratt útí blóðrásina. Líkaminn bregst við með því að seyta insúlíni sem kemur glúkósanum úr blóðinu og inn í frumur líkamans. Mikið magn af insúlíni í líkamanum eykur svo fitumyndun.

Ef við borðum fæðutegundir sem eru lítið eða ekkert unnar þá tekur meltingin lengri tíma og þar af leiðandi hækkar blóðsykurinn ekki eins hratt og minni líkur eru á fitumyndun í líkamanum.

Hvaða fæðutegundir eru góðar fyrir okkur?

Hér má sjá tillögur að daglegu fæði sem inniheldur góð kolvetni, prótein og fitu:

  • Borðum heila ávexti, grænmeti, belgjurtir og hóflega af heilkornavörum.
  • Pössum að fá nægilega mikið af próteini, líka úr plönturíkinu. Í ráðleggingum frá Embætti landlæknis er mælt með að borða fisk 2-3 sinnum í viku (þar af feitan fisk a.m.k. einu sinni í viku). Gott er að miða við að um það bil þriðjungur disksins í hverri máltíð sé próteingjafi (t.d. egg, kjöt, baunir eða fiskur).
  • Borðum fiturík matvæli eins og ólífuolíu, hnetur, smjör unnið úr hnetum og/eða möndlum og mjúkt viðbit. Einnig mætti nota hóflega af feitum mjólkurvörum eins og grískri jógúrt og sambærilegum hreinum mjólkurafurðum.

Ávinningur þess að borða lítið unnið matvæli (án viðbætts salts og sykurs)

Með því að borða reglulega ofangreindar fæðutegundir þá verður meira jafnvægi á blóðsykrinum og líkaminn þarf síður að bregðast við með háum insúlíntoppum. Einnig ættum við síður að finna fyrir hungurtilfinningu og efnaskipin haldast eðlileg (svo framarlega að við borðum líka reglulega yfir daginn).

Ef nýársheitið þitt snýr að heilsunni þá máttu gjarnan hafa þessar upplýsingar bakvið eyrað.

Tengt efni:

Mikið þyngdartap á stuttum tíma getur haft varanleg áhrif

Smoothie – kostir og gallar

Hvað ætti að vera daglega á þínum matseðli?

Kolvetni – gæði fram yfir magn

Hver eru aftur skilaboðin með kjötið?

Er próteinþörfin meiri ef maður hreyfir sig mikið?

Hvað er viðbættur sykur?

 

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.