Fyrirhuguð 60-70% fækkun kennslustunda í líkamsrækt hjá framhaldsskólanemum

0

Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta og heilsufræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands ritar:

Erlingur Jóhannsson, prófessor
Erlingur Jóhannsson, prófessor

Í kjölfar styttingu framhaldsskólans í þrjú ár hefur Mennta- og menningarmálaráðuneytið lagt til róttækar breytingar á skipulagi og umfangi  námsgreina í nýrri aðalnámskrá framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að umfang flestra námsgreina muni minnka um 15 til 20 prósent í kjölfar styttingar námstímans. Frá þessu er þó sú undantekning að umfang námsgreinarinnar „Íþróttir, líkams- og heilsurækt“  minnkar um  60 til 70 prósent. Framhaldsskólaeiningar í námsgreininni „Íþróttir, líkams- og heilsurækt“ voru átta  í gamla kerfinu og síðar þrettán einingar þegar annað einingakerfi var tekið í notkun árið 2008. Í þessum tillögum er lagt til að einingar í „Íþróttir, líkams- og heilsurækt“ verði að lágmarki fjórar og að hámarki sex.

Í fjögurra ára framhaldsskólakerfinu fengu nemendur að jafnaði tvær kennslustundir á viku í námsgreininni „Íþróttir, líkams- og heilsurækt“ í átta annir. Í nýjum tillögum ráðuneytisins er lagt til að framhaldsskólarnir geti skipulagt þessar sex einingar í námsgreininni þannig að nemendur fái eina kennslustund á viku í sex annir. Kennslustundum fækkar enn frekar  í námsgreininni ef skólastjórnendur velja að hafa  fjórar námseiningar í „Íþróttir, líkams- og heilsurækt“. Framhaldsskólarnir geta sem sagt með þessu fyrirkomulag haft alla kennslu í „Íþróttir, líkams- og heilsurækt“ á þremur eða fjórum önnum.

Norðmenn vilja fjölga tímum í líkams- og heilsurækt

Í þessu samhengi er forvitnilegt að skoða hvernig þessum hlutum er háttað í nágrannalöndum okkar. Í Noregi hefur framhaldsskólanám í marga áratugi verið þriggja ára nám og í aðalnámskrá framhaldsskóla þar kemur skýrt fram að lögbundið sé að nemendur fái tvær kennslustundir á viku öll þrjú árin í framhaldsskóla. Mennta- og heilbrigðisyfirvöld í Noregi hafa einnig lýst því yfir að þau vilji fjölga kennslustundum í námsgreininni „Íþróttir, líkams- og heilsurækt“ á komandi árum. Þessi afstaða er mjög skiljanleg þar sem tveir tímar í heilsurækt á viku fyrir þennan aldurshóp verður að teljast algjört lágmark út frá lýðheilsu sjónarmiðum, en samkvæmt alþjóðaráðleggingum og ráðleggingum Embættis landlæknis er lagt til framhaldsskólanemar hreyfi sig að minnsta kosti í 60 mín á hverjum degi.

Í mótsögn við heilbrigði og velferð

Það verður teljast mjög óráðlegt og í raun óskiljanlegt að Mennta- og menningarálaráðuneytið leggi til að fækka kenndum stundum í þessari námsgrein umfram aðrar greinar í kjölfar styttingar náms á framhaldsskólastigi. Sérstaklega í ljósi þess að umræddar breytingar eru í hrópandi andstöðu við þá þróun sem boðuð hefur verið í menntamálum undanfarin ár þar sem heilbrigði og velferð eru mikilvægar stoðir. Í þessu samhengi  er skólakerfið mikilvægur vettvangur til að fylgja eftir þessum markmiðum og stuðla að jákvæðari þróun.

Í mótsögn við niðurstöður rannsókna

Þessar tillögur eru einnig mjög á skjön við niðurstöður rannsókna á heilsu, hreyfihegðun og velferð íslenskra framhaldsskólanema. Í nýlegri íslenskri rannsókn sem framkvæmd var árið 2011 af vísindamönnum og framhaldssnemum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands var þróun og breytingar á hreyfivirkni íslenskra ungmenna skoðuð á átta ára tímabili. Í rannsókninni var hreyfing 9 ára barna og 15 ára unglinga fyrst skoðuð 2003 og sömu einstaklingar voru svo mældir aftur þegar yngri hópurinn var 17 ára og sá eldri 23 ára.

Á þessu átta ára tímabili minnkaði hreyfing beggja aldurshópa um 55 til 60%, en þess má geta að hreyfing beggja árganga minnaði bæði um helgar og á virkum dögum. Þessar rannsóknar niðurstöður eru mjög sambærilegar við aðrar alþjóðarannsóknir sem sýna að hreyfivirkni ungmenna minnkar um u.þ.b. 7% á hverju aldursári. Samfara breyttu hreyfi- og hegðunarmynstri versnar líkamlegt þrek og kyrrseta ungmenna eykst umtalsvert.

Í þessu sambandi má einnig nefna að samkvæmt nýlegri yfirlitsgrein frá 2015 kemur fram að eingöngu fimmta hvert ungmenni í Evrópu á framhaldsskóla aldri uppfyllir ráðleggingar um daglega hreyfingu. Niðurstöður rannsókna gefa tilefni til þess að auka, frekar en að draga úr, tækifærum framhaldsskólanema til hreyfingar og heilsuræktar.

Að lokum skora ég á menntamálaráðherra og samstarfsfólk hans í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu að endurskoða þessar tillögur og setja fram nýjar sem byggja á þeim veruleika sem ungt fólk lifir við í nútíma þjóðfélagi. Sennilega er enn mikilvægara nú en áður að standa vörð um heilsu og velferð íslenskra ungmenna.

Þessi pistill hefur áður birst þann 30. nóvember 2015 á visi.is

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.