Fjöldi viðburða í Hreyfiviku

0

Hreyfivika á vegum UMFÍ er í fullum gangi núna og er síðasti dagurinn sunnudaginn 27. september. Þetta er í fjórða sinn sem hreyfivikan fer fram hér á landi, en hún er hluti af stóru lýðheilsuverkefni sem fram fer um alla Evrópu ár hvert.

Hugsunin með verkefninu er að hvetja alla, unga sem aldna til aukinnar hreyfingar og er langtímamarkmiðið til 2020 að fá 100 milljónir fleiri Evrópubúa til að stunda reglulega hreyfingu af einhverju tagi.

sabina
Sabína St. Halldórsdóttir

Sabína St. Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ og verkefnastjóri verkefnisins segir það ganga svakalega vel: „Hér á Íslandi eru hátt í 500 viðburðir skráðir sem stuðla að aukinni hreyfingu, um 50 þéttbýlisstaðir eru skráðir til leiks. Við erum í topp 10 í Evrópu.“

Sem dæmi um viðburði þá komu sveitafélögin Norðurþing og Fjallabyggð af stað sundkeppni og buðu öðrum sveitafélögum að taka þátt. „Nú taka yfir 30 sveitafélög þátt í sundkeppninni, sem virkar þannig að einstaklingar skrá niður fjölda syntra ferða sem er deilt með fjölda íbúa. Það er hörð samkeppni“

Fleiri heilsueflandi samfélög taka þátt í verkefninu, en til dæmis hefur fellaganga verið gengin daglega í Mosfellsbæ. Á morgun, föstudag 25.september, verður meðal annars boðið upp á hádegis dans-fitness í Hafnarhúsinu í Reykjavík. Fleiri viðburði má finna á íslenskri vefsíðu Hreyfivikunnar.

Hverjir mega taka þátt?

Allir! Sabína segir verkefnið vera í miklum blóma og viðburðirnir allt frá A til Ö ; á vegum vinnustaða, skóla, íþróttafélaga, einstaklinga eða stofnana.   „Fólk bara mætir á staðinn, frítt í alla viðburði og allir velkomnir!“

 

Á síðu hreyfingarinnar má einnig finna fróðlegt og áhugavert myndband um verkefnið.

Share.

Hildur er sjúkraþjálfari, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum. Hún starfaði sem Hreyfistjóri við ráðleggingar í Hreyfiseðlum hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðis.