Fær barnið þitt nægan tíma til að borða í skólanum?

0

Nýlega rannsókn á vegum Harvard School of Public Health sýndi fram á að nemendur sem fá innan við 20 mínútur til að borða hádegismatinn í skólanum borða mun minna en nemendur sem fengu lengri tíma til að matast.

Margir foreldrar, og kannski sérstaklega þeir sem hafa lítið á milli handanna, treysta á að skólamáltíðir veiti börnum sínum hádegismáltíð sem uppfylli alla næringarstaðla (sjá nánar Handbók fyrir skólamötuneyti).

Börn þurfa hlutfallslega meiri orku fyrir hvert kíló líkamsþyngdar borið saman við fullorðna þar sem þau eru að vaxa og því er þörfin fyrir að gefa börnum nægan tíma til að borða mikil.

Í umræddri rannsókn vildu rannsakendur kanna hvort lengd hádegismatartímans hefði áhrif á val nemenda á mat sem stóð til boða og hversu mikið þau borðuðu. Rannsóknin náði til yfir þúsund nemenda sem höfðu á bilinu 20-30 mínútur til að borða hádegismatinn í skólanum. Kannað var hvað nemendurnir völdu á diskinn og matarafgangar mældir í lok matartímans.

Það kom í ljós að nemendur sem höfðu um það bil 20 mínútur til að borða hádegismatinn sinn borðuðu 10-13% minna af matnum og völdu sér síður ávexti heldur en nemendur sem höfðu að minnsta kosti 25 mínútur til að borða. Einnig var mun meiri matarsóun hjá hópnum sem fékk styttri tíma.

Hafa þarf í huga að þó stundatafla gefi til kynna að matartíminn sé 20-30 mínútur þá getur það tekið tíma að koma sér inn í matasalinn, það getur verið löng biðröð eftir matnum og mikið áreiti vegna fjölda nemenda í matsal.

Allt þetta getur haft mikil áhrif á þann tíma sem börnin hafa til að borða, á það sérstaklega við yngri nemendurna. Til viðbótar við þetta þá skiptir það einnig máli hvort frímínútur séu beint á eftir hádegismatnum, en það getur haft þau áhrif að börnin flýti sér með matinn og gefi sér ekki tíma til að borða. Það er því mikilvægt að grunnskólarnir tryggi börnum að minnsta kosti 25 mínútur til að borða og skapi umhverfi þar sem börnin geta notið matarins í ró og næði.

Share.

Maríanna er lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum