Gefa fæðingar sem sýndar eru í sjónvarpi góða mynd af raunveruleikanum?

0

Í sjónvarpi eru fæðingar oft hraðar og dramatískar. Konan missir gjarnan vatnið með miklum látum í matvörubúð og á sjúkrahúsinu er konan sýnd í aðstæðum þar sem hún er með heilt herbergi af starfsfólki spítalans stumrandi yfir sér sem segir henni með látum hvernig hún eigi að fæða barnið sitt. Stundum heyrum við reyndar svona sögur í raunveruleikanum en þær eru afar sjaldgæfar því flestar fæðingar ganga mjög hægt fyrir sig .

Það tekur líkama konunnar tíma að undirbúa fæðingu og algengast er að fæðing taki um 12-24 tíma. Það gefst því venjulega nægur tími til að keyra í rólegheitum á þann stað sem barninu er ætlað að fæðast.

En raunveruleikinn er ekki gott sjónvarpsefni og sjónvarpsþættir sýna því oftast öfgarnar í fæðingum. Mjög hraðar fæðingar, fæðingar með miklum inngripum eða jafnvel fæðingar þar sem konur eru einar síns liðs.

Þar sem þessar öfgar endurspegla ekki raunveruleikann hjá flestum konum þá eru slíkir sjónvarpsþættir ekki góð leið til að afla sér upplýsinga um hvernig raunverulegar fæðingar fara fram.

En hvað með fæðingar í raunveruleikaþáttum?

Um tvær af hverjum þremur konum í Bandaríkjunum segjast undirbúa sig fyrir fæðingu barns með því að horfa á “raunveruleikaþætti” um fæðingar svo sem A baby story og Birthday. Flestar telja þær að þættirnir gefi góða mynd af því sem framundan er og sé góður undirbúningur fyrir fæðingu en ein af hverjum þremur konum segir jafnframt þættina fylla hana kvíða.

Þegar efni raunveruleikaþáttana er skoðað gaumgæfilega sést að þættirnir gefa í raun alls ekki góða mynd af því sem framundan er. Raunveruleikaþættirnir byggja, eins og annað sjónvarpsefni, frekar á öfgum heldur en raunverulegum aðstæðum eða gagnreyndri þekkingu um fæðingarhjálp. Jafnframt er lítil fjölbreytni í slíkum raunveruleikaþáttum en konurnar sem eru sýndar eru yfirleitt hvítar, grannar konur um þrítugt.

Skilaboðin sem slíkir þættir senda oft eru að líkami konunnar geti ekki eignast barn og að tæknin leysi alltaf vandamálið. Þessi skilaboð eru beinlínis röng.

Á Íslandi eignast til dæmis langflestar konur (85%) börn sín um leggöng og meira en helmingur kvenna án þess að nota utanbastsdeyfingu (e. epidural). Þar að auki leggja ljósmæður og læknar áherslu á rólegt umhverfi og stuðning í fæðingu.

Þrátt fyrir að margir átti sig á því að kvikmyndir gefi ekki góða mynd af raunveruleikanum þá getur verið erfitt að greina almennilega á milli áður en maður hefur sjálfur eignast sitt fyrsta barn. Það er því mikilvægt að minna sig á að horfa á sjónvarpsþætti með gagnrýnum augum og jafnvel ræða við ljósmóður um atriði sem þú ert að velta fyrir þér. Spyrja til dæmis “hvernig væri líklegt að þetta atriði myndi líta út í raunveruleikanum?” Að sama skapi má hvetja heilbrigðisstarfsfólk til að spyrja konur hvaða sjónvarpsþætti þær hafa verið að horfa – og hvort konurnar séu með einhverjar spurningar um atriði í þáttunum.

Nokkrar myndir hafa verið framleiddar sem mótvægi við einsleitar og öfgakenndar fæðingarmyndir sem sýndar eru í raunveruleikaþáttum og kvikmyndum, og má þar nefna sem dæmi Organic Birth: The best kept secret.

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.