Eru tengsl milli mataræðis og brjóstakrabbameins?

0

Álfheiður Haraldsdóttir, doktorsnemi við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, ritar:

Krabbamein í brjóstum er algengasta krabbameinið meðal kvenna á heimsvísu og á Íslandi greinast tæplega 200 konur árlega (1). Þekktustu áhættuþættir fyrir brjóstakrabbamein tengjast erfðum, ungum aldri við upphaf blæðinga, að vera komin yfir þrítugt við fæðingu fyrsta barns, fjölda barna, að hafa barn sitt ekki á brjósti, notkun tíðahvarfahormóna, ofþyngd, hreyfingarleysi sem og áfengisneysla (2).

Hvaða fæðutegundir og næringarefni tengjast brjóstakrabbameini?

Álfheiður Haraldsdóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum
Álfheiður Haraldsdóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum

Rannsóknir á innflytjendum hafa sýnt fram á að tíðni brjóstakrabbameins er hærri hjá annarri kynslóð innflytjenda en þeirri fyrstu (3). Því er talið að  mataræði, sérstaklega fyrr á ævinni, geti spilað mikilvægt hlutverk í þróun brjóstakrabbameins. Þrátt fyrir fjölda rannsókna á tengslum mataræðis og brjóstakrabbameins, hefur ekki fengist einhlít niðurstaða á því hvaða fæðutegundir geta aukið eða dregið úr áhættu á brjóstakrabbameini.

Í niðurstöðum nýlegrar yfirlitsgreinar um samband mataræðis við brjóstakrabbamein eru þó nokkur atriði sem vert er að draga fram (4). Þar má fyrst nefna að neysla á  rauðu kjöti, sem eldað er við hátt hitatig, geti aukið áhættu á brjóstakrabbameini. Eins virðist D-vítamín skortur vera tengdur við aukna áhættu á að greinast með brjóstakrabbamein, auk þess sem skorturinn getur flýtt fyrir áframhaldandi þróun sjúkdómsins (5). Ráðlagður dagsskammtur fyrir D-vítmín er 15 míkrógrömm sem samsvarar 600 alþjóðlegum einingum (6). Í áðurnefndri yfirlitsgrein kemur einnig fram að mikil neysla á ávöxtum, grænmeti og trefjum getur haft verndandi áhrif gegn brjóstakrabbameini. Neysla á omega 3 fitusýrum dregur einnig mögulega úr áhættunni. Höfundar greinarinnar ítreka að frekari rannsókna sé þó þörf áður en hægt sé að fullyrða með meiri vissu um málefnið.

Skiptir mataræði á unglinsárunum máli fyrir krabbameinsáhættuna síðar meir?

Kenningar eru uppi um að mataræði á vissum æviskeiðum sé einnig mikilvægt varðandi þróun brjóstakrabbameins, en nú er í gangi doktorsverkefni hjá Álfheiði við Háskóla Íslands sem hefur það að markmiði að kanna samband mataræðis í æsku og áhættu á brjóstakrabbameini síðar á ævinni. Fáar rannsóknir hafa skoðað þennan tíma ævinnar en helstu niðurstöður á mataræði unglinga hafa sýnt að mikil neysla á rauðu kjöti geti aukið áhættuna á brjóstakrabbameini (7) á meðan að mikil trefjaneysla (meira en 15 grömm á dag) getur minnkar þessa áhættu (8).

Hollt og fjölbreytt mataræði á öllum æviskeiðum, í samræmi við ráðleggingar Embættis landlæknis, ásamt reglubundinni hreyfingu og hófsamri neyslu áfengis eru því hugsanlega mikilvægir hlekkir í forvörnum gegn brjóstakrabbameini.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.