Ertu með húðflúr að innan?

0

Íslenskir læknar lýsa áhyggjum yfir húðflúri og segja litarefnið mögulega geta valdið krabbameini en sannað er að liturinn ferðast úr húð í eitla. Dýraprófanir gefa sterklega til kynna að húðflúr veldur krabbameini þó ekkert sé sannað enn í mönnum. Læknar segja húðflúrslitaða eitla geta tafið fyrir krabbameinsgreiningu. 

Það er ævilöng skuldbinding að fá sér húðflúr. Myndin sem þú velur þér mun vara á húðinni út ævina og betra að vanda valið og hugsa sig vel um.

Margir hafa farið flatt á því að láta húðflúra á sig nafnið á ástinni sinni stórum stöfum sem gæti verið vandræðalegt þegar þú gengur síðan niður kirkjugólfið með allt annarri manneskju síðar meir.

Enn aðrir hafa lent í því að húðflúrið misheppnast eða myndin fer úr tísku. Kannski er ekkert smart að vera á elliheimilinu með mynd af uppáhalds poppstjörninni sem er þá öllum gleymd og grafin. En það er önnur saga. Að fleiri þáttum er að huga.

Liturinn sem notaður er sest í eitla fólks og telja læknar það varhugavert. Rannsóknir á þessu eru enn á frumstigi og ekki er sannað að húðflúrslitirnir valdi skaða.

Íslenskir læknar hafa engu að síður áhyggjur, sérstaklega í ljósi þess að húðflúr er í tísku og nýtur vaxandi vinsælda hérlendis sem víða erlendis. Einnig er fólk að fá sér mun stærri húðflúr í dag en áður sem þekja þá stærri hluta húðar.

Eitlar svartir af húðflúrslit

Til þess að fá slíka ævilanga mynd á sig þarf að nota sérstakan lit sem sprautaður er inn í húðina. Læknar hafa í auknum mæli verið að sjá þennan lit í eitlum fólks og telja þá oft fyrst að eitlarnir séu sýktir af krabbameini. 

Helena_opt
Helena Sveinsdóttir lýtalæknir

Helena Sveinsdóttir, lýtalæknir í Svíþjóð, segir að hún rekist æ oftar á svarta eitla. „Við gerum alls kyns aðgerðir, þar sem þó er stærst eftirspurn eftir brjóstastækkun. Hjá okkur er skurðurinn oftast lagður í holhönd þar sem holhandareitlar liggja.

Ég tók eftir því í byrjun að það skein í dökka eitla,“ segir hún. Helena vann áður á brjóstakrabbameinsskurðdeild á sjúkrahúsinu í Lundi þar sem hún sá m.a. um sjúklinga með sortuæxli. „Mín hugsun var þess vegna í fyrstu að útiloka meinvörp frá sortuæxli og sendi ég eitla úr nokkrum konum í smásjárskoðun,“ segir hún en eitlarnir reyndust vera lausir við krabbamein en með tattúveringslit í.

Ég tók eftir því í byrjun að það skein í dökka eitla.

Þó að ekkert hafi sannast um skaðsemi litarefnisins finnst læknum einkennilegt að sjá að litarefnið virðist ferðast frá húðinni og setjast í líffæri og segja þeir að ekki sé útilokað að þau séu skaðleg. 

tattu_oxl_opt
Húðflúr á baki og hægri öxl konu

„Liturinn virðist ferðast frá tattúveruðum svæðum og í næstu eitlastöð,“ segir Helena og bætir við að hún hafi með tímanum lært að sjá muninn á lit og sortuæxli. Helena segist einnig hafa séð litaða eitla í nárum þegar hún gerir svuntuaðgerðir.

mjogsvartureitill_opt
Eitill úr holhönd konunnar

Helena hefur tekið eftir aukningu í húðflúrum undanfarin ár. „Tattúvering er orðin ótrúlega algeng hjá öllu fólki og ég myndi skjóta á að 80-90% af kúnnunum okkar sé með tattú einhvers staðar og flestir á mörgum stöðum og stórar myndir. Þetta er ótrúlega algengt hér í Svíþjóð og mér hefur frekar fundist það aukast,“ segir hún.

Varasamar hliðar

Lára G. Sigurðardóttir, læknir hjá Krabbameinsfélaginu hefur kynnt sér ferlið við húðflúrið og útskýrir. „Við húðflúrun er litarefni sprautað með nál í átfrumur leðurhúðarinnar. Tvennskonar litarefni eru notuð við húðflúrun. Annar flokkurinn eru kolefni (carbon black) sem eru svört að lit og finnast í svörtum húðflúrum.

Kolefni myndast til dæmis þegar kjötbein er brennt yfir eldi og því fræðilegur möguleiki að maður hljóti húðflúr ef maður stingur sig á slíku beini.

Hinum flokknum tilheyra svokölluð azo og pólýsýklísk litarefni sem húðflúrarar nota og geta með þeim náð fram nær öllum litum litrófsins,“ segir hún.

Lára segir að það séu varasamar hliðar á húðflúrun. Engin einföld leið er til að fjarlægja húðflúr og því skiptir máli að skoða kosti og galla húðflúra áður en haldið er af stað til húðflúrarans en einnig er hætta á smiti ýmis konar.

„Húðflúrun fylgir smithætta, bæði staðbundin bakteríusýking og veirusmit, eins og lifrarbólguveira og HIV, geta borist milli manna með nálum ef ekki er gætt ítrasta hreinlætis. Einstaka ofnæmisviðbrögðum hefur einnig verið lýst og þá helst vegna rauða litarefnisins,“ segir Lára.

Langtímaáhrif á huldu

Húðflúr dofnar með tímanum og einhvern tíma var uppi sú kenning að það sé vegna upplitunar í sól. Lára efast um þessa kenningu. „En er það virkilega svo, hvað verður um litarefnin? Tilraunir á dýrum sýna að um þriðjungur litarefnisins hverfur úr húðinni á nokkrum vikum eftir húðflúrun. Minnstu eindirnar í litarefnunum leysast upp og flytjast með sogæðunum í eitla sem eru næst húðflúrinu. Hvort þessi efni ferðist áfram um líkamann er ekki vitað því enn sem komið er eru engar rannsóknir sem hafa sýnt hvort litarefnin ferðist víðar en til eitla. Sömuleiðis er enn ekki vitað hvaða áhrif litarefnin hafa til langs tíma en ljóst er að þau sitja eftir í líkamanum,“ segir hún.

Ranglega greint sem krabbi

Lára segir að undanfarin ár hafa skurðlæknar sagt frá tilfellum þar sem þeir hafa fjarlægt svarta eitla sem þeir töldu vera krabbameinsmeinvörp. Stundum eru vissulega krabbameinsfrumur í slíkum eitlum en nú er að verða algengara að í þeim finnist húðflúrlitarefni.

„Þessir svörtu eitlar geta tafið fyrir krabbameinsgreiningu og leitt til þess að meira af vef er fjarlægt í skurðaðgerð en annars hefði þurft,“ segir Lára. „

Tökum dæmi. Nokkrum tilfellum hefur verið lýst í tengslum við aðgerðir vegna krabbameins í brjósti. Í brjóstakrabbameinsaðgerð er æxlið fjarlægt ásamt varðeitlum, þ.e. eitlar sem sogæðar frá meininu liggja til. Til þess að finna varðeitil er litarefni sprautað í æxlið og þá flæðir liturinn í varðeitilinn. Ef konan hefur húðflúr á handlegg eða baker líklegt að eitlar í holhönd hennar séu litaðir af álíka litarefni. Við skurðaðgerðina getur læknirinn því ekki séð hvaða eitill er raunverulega varðeitill. Hann getur einnig talið að um víðtæk meinvörp sé að ræða og því fjarlægt meira af eitlum en í raun þyrfti að gera. Skurðlæknirinn getur þannig túlkað lituðu eitlana sem meinvörp og fjarlægt fleiri eitla í holhönd en nauðsynlegt hefði verið,“ segir hún.

svuntuadgerd_opt
Hér sést í svartan eitil í svuntuaðgerð

„Tilfellum hefur verið lýst þar sem ungt fólk í uppvinnslu vegna staðbundins krabbameins í leghálsi og eistum var talið vera með útbreidd meinvörp. Þegar nánar var að gáð kom í ljós að litarefnin frá eitlunum gáfu sama merki og meinvörp. Þetta getur valið áhyggjum og tafið fyrir réttri greiningu hjá þeim aðilum sem gangast undir slíkar rannsóknir,“ segir Lára. 

svartureitill_opt
Svarti eitillinn frá svuntuaðgerðinni

Að hafa litarefni í eitlum er ekki eðlilegt og burt séð frá skaðsemi sem það kann að valda getur það varla verið eftirsóknarvert útskýrir Lára.

„Það er að minnsta kosti ekkert heilbrigt við það að vera með eitla fulla af litarefni. Eitlarnir eru hluti af ónæmiskerfi okkar og hjálpa okkur við ýmsar varnir gegn sýkingum o.fl. Út frá því er heilbrigðast að vera með sem hreinasta eitla.

Það er líklega ekki komin nægilega mikil reynsla á það að vita hvort þessi litarefni valdi einhverjum skaða. Því er mikilvægt að átta sig á að litarefnin eru ekki einungis í húðinni heldur finnast inn í líkamanum,“ segir Lára.

Veldur krabbameini í dýrum

Lára segir að „carbon black“ sem hefur verið notað til að gefa svartan lit í húðflúrum er mögulega krabbameinsvaldandi efni samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO).

Áreiðanlegar vísbendingar liggja fyrir um krabbameinsvaldandi áhrif þess frá dýrarannsóknum en hins vegar eru ekki nægilegar vísbendingar um skaðsemi þess hjá mönnum.

„Helstu rannsóknirnar hjá mönnum koma úr iðnaði þar sem unnið er með carbon black en 90% kemur úr gúmmíiðnaðinum. Ég hef ekki séð neinar rannsóknir um hvort tíðni krabbameina hjá þeim sem hafa látið húðflúra sig sé önnur en almennt gengur og gerist,“ segir hún og bætir við. „Mikilvægt er að hafa í huga að verið er að sprauta mögulega krabbameinsvaldandi efni í húðina,“ segir Lára.

Umfjöllunin birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 11.október og er tekin saman af Ásdísi Ásgeirsdóttur blaðamanni.

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."