Ertu kyrrsetumanneskja og er eitthvað við því að gera?

0

Við höfum tvær fréttir að færa fólki sem situr mikið. Eina góða og eina slæma. Byrjum á þeirri slæmu, sem einhver ykkar hafa líklega heyrt áður. Því miður flokkumst við sem sitjum daglangt sem kyrrsetufólk þrátt fyrir að hreyfa okkur í 30-60 mínútur á dag, t.d. í ræktinni.

Góða fréttin er sú að við getum gert ýmislegt til að minnka kyrrsetuáhrifin og hér eru nokkur dæmi:

  1. Taka stiga í stað lyftu. Stiginn styrkir og eykur þol.
  2. Standa við skrifborð. Vinnuveitandinn þarf þá að hafa fjárfesta í skrifborði sem hægt er að hækka og lækka. Í Bandaríkjunum eru menn búnir að taka þetta enn lengra og eru með göngubretti eða hjól tengt við skrifborðið.
  3. Fara út í göngutúr á meðan fundað er. Þá njótum við einnig góðs af dagsbirtunni því hún er góð fyrir svefninn okkar og framleiðslu á svefnhormóninu melatóníni.
  4. Nota snjallsímaforrit til að fá á klukkutíma fresti áminningu með leiðbeiningum um skrifborðsæfingar. Dæmi um sniðug snjallsímaforrit eru Sidekick sem hannað er að Tryggva Þorgeirssyni og félögum og á námskeiði í Harvard um daginn mæltu kennararnir með forritum eins og DeskWorkout og Seven.
  5. Ganga eða hjóla út í búð. Ef maður vinnur mikið inni við þá lærir maður að meta hve gott er að fá ferskt loft í lungun og koma inn með veðurbarðar kinnar.
  6. Húsverkin telja, t.d. bóna bílinn, ryksuga, þurrka af og garðrækt fá alveg nýja merkingu. Maður fær ekki einungis snyrtilegra heimili heldur hraustara hjarta og allt hitt.

Það eru þessi litlu hlutir sem hjálpa okkur að bæta minnið, styrkja bein, hjarta og fleiri líffæri, láta okkur líða betur andlega og líkamlega ásamt því að hægja á öldrun.

Fyrir utan allan þennan jákvæða ávinning var nýlega birt rannsókn í tímaritinu JAMA þar sem fram kemur að fólk sem hreyfir sig reglulega í frítíma var í minni hættu á að fá krabbamein í 13 líffærum.

Hvaða hreyfingu fékkst þú í dag?

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."