Ertu í barneignahugleiðingum?

0

Þá er að ýmsu að huga og gott er að ræða við lækni eða ljósmóður í þeim hugleiðingum.

Talið er að minnsta kosti helmingur þungana verði án þess að þær hafi verið skipulagðar, einhverjar eru skipulagðar „óvart“ og svo þær sem eru ákveðnar fyrirfram. Vegna þess hve margar þunganir eru óskipulagðar hefur sumstaðar verið mælt með því að konur á barneignaraldri taki 0,4 milligrömm af fólínsýru/fólati að staðaldri.

Fólínsýran getur fyrirbyggt ákveðna tegund af fósturgöllum, klofin hrygg og afbrigði skyld því.

Til þess að fólínsýran geri gagn þarf konan helst að vera með eðlilegt magn af henni fyrir þungunina og á fyrstu vikunum eftir þungun. Oft kemur þungun þó ekki í ljós fyrr en við 5-6 vikur og er þá konunni ráðlagt að taka fólínsýru. Það veitir ekki sömu vernd en því fyrr því betra samkvæmt ráðleggingum Landlæknis.

Þær konur sem eru með eftirfarandi heilsufarsvandamál ættu að taka meira en tífalt magn af fólinsýru (5 mg):

  • Klofinn hrygg.
  • Fæðingargalli í fjölskyldunni.
  • Taka flogaveikilyf.
  • Sykursýki.
  • Offita.

Ef þú ert að taka einhver lyf er mælt með því að tala við lækni áður en þungun er skipulögð. Sum lyf er óhætt að nota áfram en öðrum þarf að breyta.

Það á til dæmis við um sum blóðþrýstingslyf, flogaveikilyf, geðlyf, giktarlyf og fleiri.

Einnig er mikilvægt að konur sem eru með einhverja sjúkdóma (líkamlega eða geðræna) ræði við lækni fyrir þungun. Þetta á til dæmis við um konur með sykursýki. Með því að vera með góða sykurstjórnun fyrir meðgöngu má minnka líkur á fósturgöllum og öðrum fylgikvillum.

Offita er skaðleg bæði móður og barni og því miður vaxandi vandamál.

Offita er skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull yfir 30 kg/m2 og ofþyngd sem 25- 30 kg/m2. Ef þú ert of þung er allt þyngdartap fyrir meðgönguna til góðs. Offita getur líka truflað tíðahringinn og þannig minnkað frjósemi. Sjá pistil um offitu á meðgöngu.

Það sama gildir um konur sem eru of grannar.

Ef þú reykir þarftu að hætta strax. Áhrif reykinga á frjósemi, meðgöngu, fæðingu og barn eru mikið rannsökuð. Í stuttu máli eru reykingar, beinar og óbeinar, hættulegar barninu á öllum stigum, fyrir utan það að vera öllum óhollt.

Því meira magn sem reykt er því verri eru afleiðingarnar og sjást jákvæð áhrif þess að hætta eða minnka reykingar á öllum stigum meðgöngu. Hægt er að fá sérhæfða hjálp til reykleysis á meðgöngu.

Áfengi er skaðlegt á öllum stigum meðgöngu og þótt því sé slegið fram í kæruleysi að einn og einn drykkur sé í lagi þá hafa komið fram vísbendingar um að svo sé ekki. Jafnvel lítið magn geti verið skaðlegt.

Er því best að sleppa því alveg. Einnig eru vísbendingar um að betra sé að sleppa áfengi áður en þungun verður. Áfengi getur meðal annars valdið fósturláti, fósturskaða (Fetal alcohol syndrome) og fyrirburafæðingu.

Nú er það stundum þannig að kona hefur neytt áfengis á fyrstu vikunum áður en hún veit að hún er þunguð. Betra er að hafa sleppt því en ef þetta er á fyrstu fjórum vikunum ( það er 2 vikum frá getnaði) þá er líklegt að fóstrið hafi ekki orðið fyrir miklum áhrifum þar sem blóðrásartenging við móðurina er ekki komin á.

Ekki verður farið sérstaklega í fíkniefnaneyslu hér en rétt að benda á að fíkniefni geta verið fóstri stórhættuleg.

Ef það vakna einhverjar spurningar ekki hika við að fá ráðgjöf hjá lækni eða ljósmóður.

Sjá nánari upplýsingar um fólasín hér.

Share.

Ragnhildur er sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Hún starfar hjá Livio Reykjavík við frjósemismeðferðir og er einnig með almenna móttöku vegna kvensjúkdóma.