Ert þú að farast úr karlmennsku?

0

Almennt bregðast karlar seinna en konur við einkennum sem stafa af krabbameinum og þar af leiðandi oft á tíðum með lengra gengið mein við greiningu. Almennt gildir að því lengri tími sem líður frá því að krabbamein myndast og þar til það greinist, því minni líkur eru á lækningu.

Marsmánuður er helgaður karlmönnum og krabbameini undir árvekniátakinu Mottumars sem nú er haldinn í sjöunda sinn. Tilgangurinn með Mottumars er að fá karla til að vera vakandi fyrir einkennum og þekkja helstu einkenni krabbameina.

Frá því að átakið hófst hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu fyrir krabbameini hjá körlum. Karlmenn eru nú opnari fyrir því að leita til heilbrigðisstarfsólk með ýmis heilsufarstengd vandamál. Í könnun sem Krabbameinsfélagið lét gera kemur fram að í dag hafa fleiri karlar yfir fimmtugt en konurlátið leita að ristilkrabbameini hjá sér.

Ár hvert greinast um 750 karlar á Íslandi með krabbamein og nú eru á lífi um 5.800 karlar sem hafa greinst með krabbamein. Um þriðji hver karl fær krabbamein á lífsleiðinni og um tíunda hvert krabbamein skýrist af arfgengum þáttum. Lífshorfur hafa batnað mikið undanfarin ár hjá þeim sem greinast. Fyrir 40 árum síðan lifðu um 26% karla með krabbamein í fimm ár eða lengur en í dag geta um 66% karla með krabbamein vænst þess að lifa svo lengi.

Oft hefur verið sagt að krabbamein sé fjölskyldusjúkdómur því þegar einn veikist þá tekur öll fjölskyldan þátt í ferlinu.

Krabbameinsfélagið hefur það markmið að vinna að forvörnum gegn sjúkdómnum og greina hann snemma, helst þegar hann er enn á læknanlegu stigi. Einnig veitir félagið sjúklingum og aðstandendum þeirra stuðning til að takast á við breyttar aðstæður.

 

Í átakinu í ár er lögð áhersla á að þekkja einkenni blöðruhálskirtilskrabbameins og af því tilefni hefur verið gert fræðslumyndband ásamt því að þvagfæraskurðlæknar svara 12 mikilvægum spurningum um sjúkdómin. Þú getur stutt við átakið með ýmsum hætti, eins og að gerast velunnari, heita á keppanda eða versla í vefverslun félagsins.

Ert þú nokkuð að farast úr karlmennsku? Lærðu að þekkja einkennin. Það er ekkert mál. Tök þátt í átakinu með því að klæðast einhverju karlmannslegu á mottudeginum föstudaginn 11.mars.

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."