Er verið að blekkja okkur með fullyrðingum um virkni fæðubótarefna?

0

Mörg fæðubótarefni eru merkt með texta sem segir að varan hafi tiltekin áhrif á heilsu þeirra einstaklinga sem nota vöruna. Slíkur texti kallast heilsufullyrðing (health claim) og gildir reglugerð um notkun slíkra fullyrðinga til að vernda almenning gegn staðhæfingum sem eiga ekki við rök að styðjast, sjá nánar á vefsíðu Matvælastofnunar.

Reglur sem koma í veg fyrir að fyrirtæki selji vörur sínar á fölskum forsendum eru mikilvægar og eins er mikilvægt að allir sem kaupa fæðubótarefni hafi aðgang að upplýsingum um tilteknar heilsufullyrðingar frá óháðum aðila sem hefur engra hagsmuna að gæta.

Leyfi fyrir heilsufullyrðingum

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) er eina stofnunin í Evrópu sem má meta sannleikshæfni heilsufullyrðinga fyrir vörur seldar á evrópska efnahagssvæðinu, sem Ísland tilheyrir. Þessi stofnun hefur aðgang að fjölda sérfræðinga í næringarfræði, eiturefnafræði o.s.frv. sem meta hverja umsókn gaumgæfilega. Fyrirtæki sem sækja um leyfi til notkunar á tiltekinni heilsufullyrðingu þurfa að geta vísað í rannsóknir sem styðja fullyrðinguna  um virkni efnisins í fæðubótarefninu. Hægt er að skoða samþykktar og ósamþykktar fullyrðingar í gagnagrunni hjá EFSA.

Í dag hafa einungis þrjár fullyrðingar verið leyfðar af EFSA um prótein og engar fullyrðingar hafa staðist skoðun varðandi gagnsemi þess að taka sérstaklega inn einstakar amínósýrur (sem eru byggingareiningar próteina).

Dæmi um heilsufullyrðingu sem stenst ekki miðað við stöðu þekkingar í dag er að amínósýran glútamín ein og sér hafi gagnleg áhrif á ýmsa líkamsstarfsemi eins og endurheimt vöðva eftir æfingar.

Annað dæmi um heilsufullyrðingu sem stenst ekki skoðun er að amínósýran beta-alanine hafi þau áhrif að íþróttafólk endist lengur áður en að örmögnun kemur við æfingar.

Leyfilegar heilsufullyrðingar fyrir prótein eru eftirfarandi:

  • Prótein stuðlar að vexti vöðvamassa (Protein contributes to a growth in muscle mass).
  • Prótein stuðlar að viðhaldi vöðvamassa (Protein contributes to the maintenance of muscle mass).
  • Prótein stuðlar að viðhaldi eðlilegra beina (Protein contributes to the maintenance of normal bones)

Einungis má nota þessar fullyrðingar þegar matvæli, þar með talið fæðubótarefni innihalda nægjanlegt magn próteina, en til að geta talist  sem próteingjafi þarf að minnsta kosti 12% af heildarorku vörunnar að koma frá próteinum.

Gott er að hafa  í huga að oft er mjög háum skömmtum af vítamínum og steinefnum bætt við próteinduft og amínósýruduft (t.d. í pre-workout drykki). Sýnt hefur verið fram á að háir skammtar af vítamínum og steinefnum geta í versta falli haft skaðleg áhrif á líkamann. Dæmi um skaðleg áhrif er taugaskaði af völdum mikils B6-vítamíns og of hár kalkstyrkur í blóði af völdum mikils D-vítamíns sem þar af leiðandi hefur óæskileg áhrif á hjartað, nýrun og æðakerfið.

Á vefsíðu Embættis landlæknis má sjá gildi fyrir efri mörk á neyslu ýmissa vítamína og steinefna. Skynsamlegt væri fyrir þá einstaklinga sem taka fæðubótarefni að skoða magn vítamína og steinefna í þeim vörum sem þeir nota og bera það saman við gildin fyrir efri örugg neyslumörk hjá Embætti landlæknis.

Skoðum vel merkingar á vörum sem við notum og ef þær standast ekki skoðun má tilkynna þær til Heilbrigðiseftirlitsins sem tilheyrir svæðinu þar sem varan er keypt eða til Matvælastofnunar.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.