Sítrónuvatn flýtir fyrir “öldrun” tanna

0
Hrönn Róbertsdóttir

Reglulega berast fréttir af því hve sítrónuvatn er hollt fyrir okkur. Að það besta fyrir heilsuna sé að drekka volgt sítrónuvatn fyrst á morgnana. En það eru oftast tvær hliðar á öllum málum. Tannlæknar hafa tekið eftir versnandi tannheilsu og aukinni glerungseyðingu, sérstaklega meðal heilbrigðs fólks á aldrinum 35 til 55 ára sem drekkur sítrónuvatn að staðaldri. Við spurðum Hrönn Róbertsdóttur tannlækni hjá Brosið, sem sérhæfir sig meðal annars í útlitstannlækningum, út í áhrif sítrónuvatns á tennur.

Er sítrónuvatn hollt fyrir tennur?

Nei, sítrónuvatn og þá sítrónusýran er sérlega ætandi og eyðandi fyrir tennurnar. Sýran leysir upp glerunginn og veikir hann. Með langvarandi notkun getur hann horfið með öllu og kemur ekki aftur.

Hér er glerungurinn horfinn og tannbeinið farið að eyðast

Hvað er glerungseyðing?

Glerugseyðing er margþættur sjúkdómur en um er að ræða efnafræðilega upplausn tanna þar sem stærsti hluti tanna og munnhols er baðaður upp úr lágu sýrustigi.

 

Hvaða áhrif getur sítrónuvatn haft á tennur til langs tíma?

Íslendingar eru að eldast og því þurfa tennurnar að endast lengur. Glerugseyðing, slit og almenn öldrun tanna skiptir því verulega miklu máli. Það er ekkert betra en eigin tennur og þurfum við að vera meðvituð um hvað slítur og eyðir tönnunum.

Sítrónusýra leysir upp glerunginn og hér skipta neysluvenjur öllu máli því langvarandi drykkja sítrónuvatns hefur slæm áhrif. Glerungurinn hverfur með tímanum og tannbeinið kemur í ljós, tennur verða viðkvæmari fyrir ytra áreiti s.s hita, kulda, tannskemmdum og ýmiskonar lit þ.e. tennur eldast miklu fyrr.

Það er ekkert betra en eigin tennur og þurfum við að vera meðvituð um hvað slítur og eyðir tönnunum. Sítrónusýra leysir upp glerunginn og hér skipta neysluvenjur öllu máli því langvarandi drykkja sítrónuvatns hefur slæm áhrif.

 

Hvernig er hægt að minnka skaðleg áhrif sítrónuvatns fyrir tennur? 

Að nota rör hjálpar og allt sem minnkar tímann sem tennurnar eru baðaðar upp úr sýrunni, til dæmis kalt sítrónuvatn í stað heits því efnahvarfið verður virkara í hita. Eins er gott að skola með hreinu vatni á eftir og alls ekki skal bursta tennur strax eftir sítrónuvatnsdrykkjuna því þá er ysta lag glerungsins enn viðkvæmt og auðvelt er að auka enn frekar slitið.

Þó að þetta hjálpi þá kemur það ekki að öllu í veg fyrir eyðinguna. Mesta hættan liggur í því að endurtaka sýrubaðið á hverjum degi í langan tíma.

Ef maður hugsar um sýrustigið eitt og sér, þá eru ekki margir sem gætu hugsað sér að byrja alla daga á því að drekka kók en sýrustig þess er ekki ósvipað sítrónuvatni.

 

Mælir þú þá með að fólk drekki ekki sítrónuvatn?

Sítróna og sítrónuvatn er hollt og gott í hófi eins og svo margt annað en sem tannlæknir verð ég að vara fólk við daglegri neyslu sítrónuvatns þar sem skaðinn á tönnunum verður ekki aftur tekinn.

Glerungseyðing

Við erum með mismunandi munnvatn sem er misfljótt að hlutleysa sýru svo hér á það við eins og í mörgu öðru að við erum misviðkvæm, þannig að áhrifin geta verið mismikil milli fólks.

 

Drekkur þú sítrónuvatn?

Nei ekki að staðaldri en nota sítrónu mikið í matargerð og drykki með öðrum mat sem vinnur á móti sýrustiginu.

…en sem tannlæknir verð ég að vara fólk við daglegri neyslu sítrónuvatns þar sem skaðinn á tönnunum verður ekki aftur tekinn.

 

Hvaða matur gefur okkur fallegar og sterkar tennur? 

Hér er búið að gera við glerungseyðingu

Matarvenjur skipta meira máli en maturinn sjálfur. Ekki vera sífellt að narta því í hvert skiptið sem við borðum þá lækkar sýrustigið í munninum. Takmarka gosdrykki, súra drykki og sykur. Nota mjúkan tannbursta og fínkorna tannkrem til að vinna á móti sliti tanna. Velja sér tannkrem eða munnskol með flúori.


Eitthvað að lokum?

Langvarandi notkun á flúori gerir tennur sýruþolnari en endurkalkar ekki glerunginn í glerungseyðingu af völdum sítrónuvatns. Flúor getur minnkað áhættuna á tannskemmdum sem eru oft fylgifiskur mikillar glerungseyðingar. Einnig er nauðsynlegt að mæta reglulega til tannlæknis svo hægt sé að koma auga á glerungseyðingu á byrjunarstigi og bregðast við henni.

Forvarnir eru samt alltaf besta meðferðin og því er mikilvægt að vera meðvitaður um hvað flýtir fyrir sliti og öldrun tanna.

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."