Er rauðvín grennandi?

0

Í frétt sem birtist á RÚV 22. júní var talað um að rauðvín geti verið grennandi. Í fréttinni kemur fram að efnið resveratról geti breytt fitu í ,,góða fitu” sem brennir kaloríum og á þann hátt verið grennandi. Þetta kemur einnig fram á vef The Independent. Með fréttinni er verið að vísa í rannsókn sem var birt í International Journal of Obesity.

Varasamt er að tengja rauðvínsdrykkju við niðurstöður rannsóknarinnar sem vitnað er í.

Höfundar rannsóknarinnar álykta að neysla á ávöxtum og berjum geti haft grennandi áhrif en minnast ekki á rauðvín í þessu samhengi. Þvert á móti benda þeir á að resveratról síist burt í vinnsluferli á rauðvíni.

Því finnst minna af resveratróli í rauðvíni en vínberjum.

Resveratról hefur talsvert verið rannsakað hjá mönnum. Þó svo að mýs virðist geta nýtt sér resveratról til að grennast þá á það sama ekki við um menn.

Líkaminn breytir því að mestu leyti áður en það berst í blóðrásina og getur ekki nýtt sér það óbreytt nema að mjög litlu magni.

Því eru engar vísbendingar um að maðurinn geti nýtt sér þetta virka efni til fitubrennslu á sama hátt og mýs.

Þannig er ekkert sem styður það að aukin rauðvínsdrykkja geti gagnast í þeim tilgangi að grenna sig.

Auk þess sem rauðvín er mjög hitaeiningaríkt sem getur stuðlað að þyngdaraukningu inniheldur það krabbameinsvaldandi efni.

Allt áfengi, þar á meðal rauðvín, er áhættuþáttur fyrir krabbamein í höfði og hálsi, vélinda, lifur, brjóstum og ristli.

Flestir ávextir innihalda pólýfenól sem er samheiti yfir resveratról og önnur efni sem hafa svipaða virkni. Því er hægt að fá ríkulegt magn af slíkum efnum með því að borða vel af ávöxtum og grænmeti.

Þar að auki innihalda vínber, bláber og hindber mun meira magn af resveratróli en rauðvín.

Það er því ekkert sem styður það að rauðvín geti haft grennandi áhrif.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26.júní 2015.

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."