Er kominn tími til að breyta áherslum í næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki?

0

Óla Kallý Magnúsdóttir, næringarfræðingur á Landspítala ritar:

Óla Kallý Magnúsdóttir
Óla Kallý Magnúsdóttir

Fimmtudaginn 7.apríl sl. var Alþjóðadagur heilbrigðis sem að þessu sinni var tileinkaður sykursýki. Þennan dag á Íslandi hittust 130 læknar, næringarfræðingar, hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem sinna einstaklingum með sykursýki af tegund 2 til að ræða næringarmeðferð þessa hóps. Þetta er í fyrsta skipti hérlendis sem svo margir heilbrigðisstarfsmenn hafa komið saman til að ræða næringarmeðferð við sykursýki og sýnir  greinilega áhugann og þörfina á umræðu um þessi mál.

Undanfarin misseri hefur hópur næringarfræðinga á Næringarstofu Landspítala og Rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala, unnið að endurskoðun leiðbeininga um næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki af tegund 2 ætluðum heilbrigðisstarfsmönnum. Leiðbeiningar höfðu ekki verið endurnýjaðar frá árinu 2009 en þessi nýju drög að leiðbeiningum eru mun ítarlegri en áður og aukin áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða næringarmeðferð. Vinnustofan 7.apríl fór fram í húsarkynnum Háskóla Íslands og meginmarkmið hennar var að ræða þessi nýju drög að leiðbeiningum um næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki af tegund 2 og fyrirkomulag næringarmeðferðar þess hóps á Ísland.

Hopvinna (2)_opt

Umræður voru í smærri hópum og voru niðurstöður hópanna nánast einróma. Flestir voru sammála um  nauðsyn þess að leggja áherslu á næringarmeðferð í meðferð einstaklinga með sykursýki af tegund 2 sem byggir á vísindalega viðurkenndum rannsóknum. Einnig að mikilvægt sé að uppfæra ráðleggingar reglulega í takt við niðurstöður nýrra rannsókna. Það var  einnig samdóma álit þeirra lækna og hjúkrunarfræðinga sem sóttu vinnustofuna að það sárvantar aðgengi að næringarfræðingum á heilsugæslunni. Mikið og gott starf á sér stað á heilsugæslum landsins en sárafáir einstaklingar með sykursýki af tegund 2 hitta næringarfræðing fyrr en inn á spítala er komið. Þverfagleg teymisvinna heilbrigðisstétta er lykilatriði í meðferðum langvinnra sjúkdóma á borð við sykursýki af tegund 2. Í framhaldi af þessari vinnustofu mun faghópurinn sem unnið hefur drögin leggja lokahönd á leiðbeiningarnar og þær sendar í opið umsagnarferli.

90% þeirra sem eru með sykursýki eru með sykursýki af tegund 2. Sykursýki er krónískur sjúkdómur þar sem annað hvort líkaminn býr ekki til nóg af insúlíni eða þar sem líkaminn getur ekki notað insúlínið sem hann framleiðir. Insúlín er hormón sem stýrir styrk blóðsykurs í líkamanum.

Hvað býr í framtíðinni? 

Í takt við aukningu á algengi sykursýki á heimsvísu og alvarleika sjúkdómsins er mikil gróska í rannsóknum á næringarmeðferð fyrir einstaklinga með sykursýki. Næringarfræði er ung vísindagrein og þekking í faginu hefur aukist verulega á síðastliðnum árum. Nýlegar rannsóknir benda til þess að unnt sé að beita nokkrum mismunandi aðferðum í næringarmeðferð við sykursýki af tegund 2 og áhersla á einstaklingsmiðaða næringarmeðferð (personalised nutrition) fer vaxandi. Með aukinni þekkingu er líklegt að betur verði hægt að skilja á milli hópa sem þurfa mismunandi úrræði og að næringarmeðferð geti orðið enn betur sniðin að hverjum einstaklingi s.s. með tilliti til erfða, þarmaflóru o.fl. Við ættum því að verða margs vísari á næstu árum en enn vitum við ekki nóg svo hægt sé að nýta slíkt í meðferð. Þessi gróska í rannsóknum á næringu hefur leitt til fjörugra umræðna, sem er af hinu góða en einnig misræmis í skilaboðum meðferðaraðila. Það er mjög mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn leiðbeini um mataræði á samræmdan hátt og fylgi bestu þekkingu og þeim opinberu leiðbeiningum sem í gildi eru á hverjum tíma.

Heilsugæslan þarf á næringarfræðingum að halda – mikilvægt að efla teymisvinnu

Eins og staðan er í dag þá er enginn næringarfræðingur starfandi á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins né á Suðurlandi og einungis þrír næringarfræðingar eru í hlutastöðu á heilsugæslum landsbyggðarinnar. Næringarmeðferð er hornsteinn meðferðar einstaklinga með sykursýki af tegund 2. Sykursýki er alvarlegt og ört stækkandi heilbrigðisvandamál og fylgikvillar hennar eru margir, dýrir og alvarlegir. Fastlega má gera ráð fyrir því að um 10% Íslendinga séu með sykursýki og níu af hverjum tíu þeirra eru með sykursýki af tegund 2. Enn fleiri eru með forstig sykursýki. Það er því ljóst að aðkoma næringarfræðinga í þverfaglegu samstarfi á heilsugæslum landsins er mjög mikilvægt og þörf á aðgerðum hið fyrsta. Samræmdar opinberar leiðbeiningar um næringarmeðferð til einstaklinga með sykursýki af tegund 2 er grundvöllur að slíku samstarfi heilbrigðisstarfsfólks.

Heimildir

  1. Svärd DE (ed.). Kost vid diabetes – en vägledning till hälso- och sjukvården. Socialstyrelsen, 2011.
  2. Statens beredning för medicinsk utvärdering (SBU). Mat vid diabetes. En systematisk litteraturöversikt. SBU, 2010.
  3. American Diabetes Association. Standards of Medical Care in Diabetes 2016. Diabetes care. 2016;39(1).
  4. The Royal Australian College of General Practitioners and Diabetes Australia. General practice management of type 2 diabetes 2014–15, 2014
  5. National Institute for Health and Care Excellence (NICE). Type 2 diabetes: National clinical guideline for management in primary and secondary care (update). NG28 NICE; 2015.
  6. Zeevi D, Korem T, Zmora N, Israeli D, Rothschild D, Weinberger A, et al. Personalized Nutrition by Prediction of Glycemic Responses. Cell. 2015;163(5):1079-94.
Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.