Er hreyfiseðill eitthvað fyrir þig?

0

Hvað er hreyfiseðill?

Hreyfiseðill er úrræði sem læknir skrifar upp á á sama hátt eins og um lyfseðil væri að ræða- nema skrifað er upp á ástundun hreyfingar í stað inntöku lyfja, þó hreyfingin geti einnig verið hluti af meðferð þar sem lyf koma við sögu. Algengast er að læknir skrifi upp á hreyfiseðil vegna ákveðinna sjúkdóma eða sjúkdómseinkenna þar sem rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að hreyfing sé æskilegur og jafnvel bráðnauðsynlegur hluti af meðferð. Sem dæmi þá hefur ástundun hreyfingar sýnt góðan árangur við þunglyndi, kvíða, hjartasjúkdómum, háþrýstingi, verkjum, o.fl (1).

Running shoes in snow

Á undanförnum árum hefur innleiðing Hreyfiseðils sem meðferðarform hjá heilbrigðisstofnunum á Íslandi átt sér (2, 3). Þetta er gert að sænskri fyrirmynd, en úrræðið hefur reynst vel og náð töluverðri útbreiðslu í Svíþjóð.

Jafnvel þó þekkingin sé til staðar þá vitum við flest hve erfitt það getur verið að koma sér af stað í hreyfingu, eða viðhalda henni. Það getur orðið enn erfiðara þegar ýmiss konar sjúkdómseinkenni svo sem depurð eða verkir stöðva löngunina. Með hreyfiseðlinum ávísar læknir á viðtal til hreyfistjóra, sem vinna nú á nánast öllum heilsugæslustöðvum landsins. Í viðtalinu, sem að jafnaði er um klukkustund að lengd, fer hreyfistjórinn í gegnum heilsufarssögu, hreyfivenjur, sjúkdómseinkenni og áhugahvöt einstaklings – það er hversu tilbúinn hann er til að breyta hreyfivenjum sínum og á hvaða hátt megi hjálpa honum við það. Í samráði við skjólstæðing er farið yfir markmið að hreyfiástundun, með tilliti til áhugasviðs og ráðlegginga um magn og ákefð hreyfingar í samræmi við einkenni og sjúkdóm skjólstæðings (4).

Í sameiningu er sett upp hreyfiáætlun, gjarnan til þriggja eða sex mánaða.  Á þeim tíma skráir skjólstæðingur niður alla hreyfingu sem hann stundar og hreyfistjórinn veitir aðhald og hvatningu á tímabilinu með tölvupóstsamskiptum og símtölum. Að loknu hreyfiseðilstímabili fær læknir senda skýrslu um framgang hreyfingarinnar og er algengt að skjólstæðingur eigi þá pantaðan tíma hjá lækni, til dæmis til að meta árangur út frá heilsufarsmælingum sem hann framkvæmir (t.d. mæla blóðþrýsting, fá blóðprufur) eða fara yfir næstu markmið í samráði við  skjólstæðing og hreyfistjóra

Fyrir hverja er hreyfiseðill?

Hreyfiseðill getur hentað öllum sem hafa ákveðinn sjúkdóm, byrjanda sjúkdómseinkenni eða vilja vinna að því að koma í veg fyrir þróun einkennanna. Getur þetta átt við um:

  • Þunglyndi, kvíða og  depurð
  • Hækkaðan blóðþrýsting og háþrýsting
  • Hækkaðar blóðfitur, hækkaðan blóðsykur og sykursýki
  • Langvinna verki, gigt, síþreytu
  • Ofþyngd, offitu, efnaskiptasjúkdóma
  • Beinþynningu
  • Hjarta- og lungnasjúkdóma

Hvað kostar hreyfiseðill?

Skjólstæðingur greiðir komugjald í viðtalinu við hreyfistjórann. Notkun á hreyfiseðli veitir ekki fjárhagslegan stuðning við hreyfiúrræði eins og aðgang að líkamsræktarstöð. Flestir fá ráðleggingu um að  stunda hreyfingu sem er ódýr eða kostar ekkert, eins og sund, sundleikfimi og göngur.

Regluleg hreyfing getur haft umtalsverð áhrif á heilsu og líðan þína og hreyfiseðill getur hjálpað þér að ná markmiðum varðandi hreyfingu sem hentar þér.

 Hvernig get ég nýtt þetta úrræði?

Ef þú telur að hreyfiseðill henti þér og hvetji þig áfram til að ná betur tökum á heilsunni getur þú leitað til heimilislæknis á næstu heilsugæslustöð / heilbrigðisstofnun. Það er sama á hvaða getustigi við erum eða reynslu við höfum af hreyfingu – það er aldrei of seint að byrja. Hreyfistjórar eru sjúkraþjálfarar sem hafa umfangsmikla þekkingu á því hvernig hreyfing nýtist sem meðferð við sjúkdómseinkennum, hvernig skuli auka álag hægt og rólega eða bregðast við ef einkenni versna í samráði við aðra heilbrigsstarfsmenn heilsugæslustöðvanna.

Gangi þér vel!

Share.

Hildur er sjúkraþjálfari, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum. Hún starfaði sem Hreyfistjóri við ráðleggingar í Hreyfiseðlum hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðis.