Er barnapúður krabbameinsvaldandi?

0
Fjölskyldu konu í Bandaríkjunum voru dæmdar 72 milljónir bandaríkjadala í skaðabætur eftir að dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að hægt væri að rekja banamein hennar, krabbamein í eggjastokkum, til langvarandi notkunar á barnapúðri frá Johnson & Johnson. Talið var að efnið talkúm í barnapúðri hefði getað orsakað krabbameinið.
En hvað er talkúm og er það hættulegt?
Talkúm er steinefni samstett úr frumefnunum magnesíum + kísil + súrefni, sem við flest þekkjum. Margir taka inn magnesíum sem fæðubótarefni og kísill til inntöku var markaðssett hér á landi fyrir nokkru.
Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC) hefur flokkað talk sem mögulega krabbameinsvaldandi, þ.e. talk tilheyrir flokki 2B. Til samanburðar er næturvaktavinna í flokknum fyrir ofan og telst líklega krabbameinsvaldandi (flokkur 2A). Etanól í áfengi og formaldehýð í sígarettum og rafrettum tilheyra efsta flokknum sem þekktir krabbameinsvaldar (flokkur 1).

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum talkúms og krabbameins. Flestar rannsóknanna sýna misvísandi niðurstöður. Fáar svokallaðar tilfella-viðmiðarannsóknir hafa sýnt að konur sem nota púður á kynfæri sín geti mögulega verið í aukinni áhættu á að fá krabbamein í eggjastokka. Sambandið er veikt og gallinn við þessar rannsóknir er að þær eru oft bjagaðar, þ.e. ekki hægt að álykta um orsakasamband. Í þessum rannsóknum eru konum skipt í tvo hópa eftir hvort þær hafi greinst með eggjastokkakrabbamein eða ekki og síðan eiga þær að rifja upp hversu mikið púður þær hafa notað. Hér er mikil hætta á endurminningarbjögun hjá þeim konum sem greinst hafa með krabbamein því þær sem veikjast leita ósjálfrátt meira að einhverju í hegðun sinni eða umhverfi sem gæti hafa orsakað sjúkdóminn. Þær muna betur fortíðina en hinar sem ekki eru veikar.

Annarskonar rannsóknir hafa einnig verið gerðar á tengslum talkúms og eggjastokkakrabbameins. Það eru rannsóknir sem eru af betri gæðum og kallast framsýnar hóprannsóknir. Þá er skráð niður hvaða konur nota talkúm og fylgst með hvort þær fái eggjastokkakrabbamein. Þessar rannsóknir hafa ekki fundið neinar vísbendingar um að talkúm geti valdið eggjastokkakrabbameini.

Þrátt fyrir niðurstöu dómsins eru rannsóknirnar sem dómurinn byggir á (flokkun í 2B ) ekki af nægilega góðum gæðum og of fáar til að álykta um orsakasamband.

Hvernig getur talkúm valdið krabbameini?
Einnig er kenningin um hvernig talkúm veldur krabbameini er svolítið langsótt þó maður geti aldrei sagt aldrei – að það ferðist upp leggöngin, gegnum legið, eggjaleiðara og til eggjastokka.
Í þessu dæmi í Bandaríkjunum er ekki hægt að rekja orsök eggjastokkakrabbameinsins til talkúms með vísindalegum hætti en þó getum við heldur ekki útilokað það
Eigum við að hætta að nota barnapúður?
Grundvallarskilaboðin eru samt þessi: Það eru afar litlar vísbendingar um að talkúm púður sem notað er á kynfæri geti valdið eggjastokkakrabbameini. Hófleg notkun á barnapúðri ætti ekki að skaða neinn. Ef þú hefur áhyggjur af aukinni krabbameinsáhættu þá er hægt að fá svipaða vöru sem er gerð úr maíssterkju, sem ekki hefur verið tengt við aukna krabbameinsáhættu.

Vert að hafa í huga að krabbamein í eggjastokkum er ekki að aukast hér á landi heldur hefur tíðni þess þvert á móti lækkað jafnt og þétt síðastliðin tuttugu ár.

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."