Eldra fólk sem stundar hreyfingu með þéttari heilavef

0

Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á mikilvægi hreyfingar fyrir heilsuna. Sem dæmi hafa þeir sem stunda hreyfingu reynst vera með betri vitsmunagetu og ólíklegri til að greinast með heilabilun og Alzheimer sjúkdóm.

Nýleg rannsókn sem byggir á gögnum úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sýndi að eldra fólk sem hreyfir sig lítið eða er í mikilli kyrrsetu mældist með rýrari heila.

Þeir sem eru með skerta vitsmunagetu eru oft með rýrari heila. Heilinn rýrnar með aldrinum en það virðist vera hægt að hægja á þessari rýrnun með því að stunda reglubundna hreyfingu.

Rannsóknin byggir á gögnum frá 352 einstaklingum, þar sem magn gráa- og hvíta efnis heilans var metið tvisvar sinnum með fimm ára millibili og hreyfing mæld með hreyfimælum við seinna matið.

Rannsóknin rennir enn styrkari stoðum undir þá þekkingu að hreyfing hefur jákvæð og verndandi áhrif á heilann og getur minnkað líkur á sjúkdómum sem tengjast vitsmunagetu.

 

Hvað er hæfileg hreyfing?

Samkvæmt  ráðleggingum Landlæknisembættisins er mælt með að eldra fólk stundi miðlungserfiða hreyfingu í að minnsta kosti 30 mínútur daglega. Þeim tíma sem varið er í hreyfingu má skipta í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.

Dæmi um miðlungserfiða hreyfingu:

  • Röskleg ganga, hraði um 5-7 km/klst á sléttu undirlagi, inni eða úti.
  • Iðkun ýmissa íþrótta eins og sund eða golf.
  • Heimilsverk sem krefjast töluverðrar áreynslu, t.d. skúringar eða þrif.
  • Garðvinna og mokstur á léttum snjó.

Dæmi um erfiða hreyfingu:

  • Hlaup.
  • Garðvinna, t.d. sláttur með handsláttuvél.
  • Mokstur á þungum snjó.
  • Iðkun íþrótta þar sem árangur eða keppni er höfð í huga, t.d. knattspyrna, skíðaganga ofl.

Sjá nánar í bæklingi útgefnum af Landlæknisembættinu, Ráðleggingar um hreyfinguog umfjöllun um hreyfiseðla.

Nanna Ýr Arnardóttir doktorsnemi í Heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands er fyrsti höfundur að vísindagreininni sem greinir frá ofangreindum niðurstöðum.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.