Ekki bíða of lengi

0

Það er orðið algengara að konur eignist börn síðar á lífsleiðinni og þá er að ýmsu að huga eins og minnkandi frjósemi.

Frjósemi kvenna er háð eggjastokkunum. Stúlka byrjar að hafa egglos þegar hún fer í kynþroska og hefur blæðingar en það getur verið óreglulegt til að byrja með. Egglos verða oftast í miðjum tíðahring og við hvert egglos er konan frjó sem þýðir að getnaður getur átt sér stað.

Sumar konur frá verk eða seiðing um neðanverðan kvið og geta fundið fyrir breytingum á útferð í tengslum við egglos.

Ef þú ert ekki viss hvort þú hafir reglulegt egglos þá gildir það oftast að ef þú ert með reglulegar blæðingar, á bilinu 26-32 dagar, þá ertu líklegast með reglulegt egglos.

Eggin hrörna með tímanum

Ýmislegt getur haft áhrif á gæði eggjanna eins og aldur og umhverfi, bæði á fósturskeiði og eftir fæðingu. Konur fæðast með öll sín egg í eggjastokkunum öfugt við karlmenn sem framleiða sáðfrumur jafnóðum. Með tímanum fækkar eggjunum stöðugt frá fæðingu m.a. vegna hrörnunar. Gróflega áætlað eru um það bil 400.000 egg í eggjastokkunum við fæðingu en við kynþroska eru þau orðin um 40.000.

Með hækkandi aldri verða eggin fyrir skemmdum (m.a. á erfðaefni) sem veldur minnkaðri frjósemi og aukinni tíðni fósturláta, sem og aukinni tíðni litningagalla hjá barni. Þessar breytingar byrja að koma fram fljótlega eftir þrítugt en fara stigvaxandi með tímanum. Upp úr 35 ára aldri eykst hrörnunin hraðar en áður og í kringum fertugt er frjósemi konu almennt orðin lítil. Þennan mun hafa konur fundið sem eru að reyna að verða þungaðar á fertugsaldri. Það tók kannski stuttan tíma að verða þunguð 25 ára en eftir 35 ára aldur getur það tekið mun lengri tíma.

Þegar konan fer svo í tíðahvörf þá hættir hún að hafa egglos og engin eggbú þroskast lengur í eggjastokkunum.

Flestar konur byrja á tíðhvörfum 45–55 ára. Tæknilega séð er konan frjó svo lengi sem egglos verður en gæði eggjanna takmarka frjósemina. Þó það sé einstaklingsbundið hvenær tíðahvörf byrja eru gæði eggjanna sambærileg hjá konum á sama aldri.

En hvað með karlmenn?

Þrátt fyrir að sáðfrumur verði til jafnóðum hjá körlum þá eru grunnfrumurnar sem þær eru framleiddar úr alltaf til staðar í eistunum og verða líka fyrir áhrifum aldurs og umhverfis.

Að eignast barn á fimmtugs- og sextugsaldri

Hugmyndir kvenna um frjósemi er gjarnan lituð af samfélagsmiðlum sem hampað hafa konum sem eru að eiga börn á fimmtugs- og jafnvel sextugsaldri. Í þeirri umfjöllun kemur sjaldnast fram að þær konur hafa gjarnan fengið hjálp til að ná þungun, oft með gjafaeggi.

Seinkun barneigna hér og í löndunum í kringum okkur færir okkar nýjar áskoranir. Konur eru „ungar lengur“, virkari í atvinnulífi, mennta sig lengur og velja kannski frekar að vera einhleypar. Þegar þær byrja að huga að barneignum þá getur það verið of seint.

 

Lítið hefur verið fjallað um áhrifum aldurs á gæði kynfrumna, bæði í kynfræðslu og almennri fræðslu um æxlun, heldur hefur áherslan fyrst og fremst verið á notkun getnaðarvarna og um kynsjúkdóma. Það þarf að fjalla um þessi mál til jafns á við annað tengt kynfræðslu í skólum sem og í almennri umfjöllun til að konur og pör hafi raunhæfar væntingar og geti undirbúið sig betur.

Þegar á heildina er litið er ekki gott að bíða of lengi með barneignir.

 

 

Share.

Ragnhildur er sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Hún starfar hjá Livio Reykjavík við frjósemismeðferðir og er einnig með almenna móttöku vegna kvensjúkdóma.