Bílþvottur og umhverfið

0
holmfridur
Hólmfríður Þorsteinsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur og sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun

Þónokkuð hefur verið rætt um bílþvott undanfarið og hvort það sé slæmt fyrri umhverfið að þvo bílana okkar á okkar eigin bílaplani. Hólmfríður Þorsteinsdóttir og Páll Kolka Jónsson sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun segja okkur aðeins frá þvotti bíla og afhverju við ættum frekar að þvo þá á bílaþvottastöð.

Getur bílþvottur verið skaðlegur umhverfinu?

Menga ég umhverfið ef ég þvæ bílinn á planinu heima hjá mér? Get ég gert eitthvað til að minnka umhverfisáhrifin þegar ég þvæ bílinn? Svarið er já.

Páll Kolka Jónsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun
Páll Kolka Jónsson, jarðvegsfræðingur og sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun

Við akstur þá festist ýmiskonar ryk við bílinn og hann verður rykugur. Meirihlutinn er skaðlítið ryk en þungmálmar og þrávirk lífræn efni festast einnig utaná bílinn.

En hvaðan koma þessi efni? Jú, frá bílunum sjálfum. Til að mynda kemur kopar frá bremsuborðum og þrávirk lífræn efni úr hjólbörðum. Efnin sem við notum til að þrífa og bóna bílinn eru líka mjög mismunandi. Þau geta innihaldið mjög þrávirk lífræn efni, efni sem eru krabbameinsvaldandi, hormónaraskandi og hættuleg vatnadýrum. Einnig er nokkuð um að nanóefni séu notuð, sérstaklega í bón, en þau geta haft mjög ófyrirséðar afleiðingar þegar þau fara út í náttúruna.

Besta ráðið til að draga úr skaðlegum umhverfisáhrifum bílþvotta er að þvo bílinn á þvottastöð eða þvottaplani með starfsleyfi.

Þá fer skolvatnið ekki með ofanvatninu í læki og tjarnir sem eru nálægt heimili okkar. Á þvottastöðum og þvottaplönum sem eru með starfsleyfi eru sandskiljur og jafnvel olíu/efnaskiljur í niðurföllunum og innihaldi þeirra er fargað reglulega sem spilliefnum.

Hvað varðar efnanotkun við þvottinn, þá er gott að spyrja sig: þarf ég að nota sápu í hvert skipti sem ég þvæ bílinn? Og þarf ég svona mikið magn af bóni? Ef það er nauðsynlegt að nota efni þá er mikilvægt að leita eftir umhverfisvottuðum efnum eins oft og hægt er. Ef þú finnur ekki slík efni, ekki hika við að spyrja í verslunum.

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.