Bambusbollar – ekki er allt sem sýnist

0

Ég elska gott kaffi. Mér finnst frábært að taka með mér ilmandi kaffi þegar ég legg af stað út í umferðina á leið til vinnu á morgnanna. Ekki spillir fyrir að njóta þess úr umbúðum sem höfða til fegurðarskynsins. Sum kaffihús  veita manni líka afslátt á kaffi ef maður kemur með sitt eigið kaffimál. Það þykir mér æðislegt. Þetta hefur leitt til þess að ég hef mikinn áhuga á fallegum ferðabollum. Maðurinn minn gerir oft grín að mér varðandi það, enda átti ég orðið þrjá bolla og ég hef keypt nokkra fallega bolla fyrir vini og ættingja sem gjafir.

Það eru til margar gerðir af fallegum kaffimálum, ýmist úr gleri, málmi, bambus eða plasti. Ég á bolla úr gleri og bambus. Mér fannst bollar úr bambus ágætir en glerið er best að mínu mati. Ég notaði þó bambusmálin til jafns á við glerið enda hélt ég að þeir væru „vistvænni“ en t.d. plastmálin. Þar til nýlega. Þá lærði ég að ef til vill er betra að nota eitthvað annað en bambus. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að bollar úr bambus seyta skaðlegum efnum út í heita vökva. Bambusbollar eru mótaðir úr fínmöluðum bambus og límdir saman með efni sem heitir melamín kvoða (e. „melamine resin“). Melamín kvoða er plastefni sem mynduð er úr melamíni og aldehýði og er notuð til að móta vörur, sem lím og í ýmiskonar húðun. Melamín er talið geta valdið skaða á þvagblöðru og nýrum en aldehýð er ertandi og getur jafnvel valdið krabbameini ef því er andað að sér.

Í meðfylgjandi frétt má sjá að þessi rannsókn var gerð á 12 mismunandi tegundum af bambusbollum og meira en helmingur þeirra losaði melamín og aldehýð út í heita vökva. Því oftar sem bollinn var notaður því meira af efninu var seytt út í heitan vökvann. Og það sem meira er, það er ekki hægt að endurvinna bollana. Núna hef ég ekki lengur lyst á að nota bambusbollana mína. En ég vil ekki henda þeim. Kannski að ég noti þá bara undir blýanta og liti.

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.