Allt sem þú þarft að vita um tannhvíttun

0
Hrönn Róbertsdóttir tannlæknir
Hrönn Róbertsdóttir, tannlæknir

Við brosum oftar þegar okkur líður vel og þegar við brosum sendum við boð til heilans sem eykur vellíðan og lækkar blóðþrýsting, jafnvel þó við brosum án þess að langa virkilega til að brosa. Bros er því mikilvægur þáttur heilsu okkar. Langflestum finnst bros einnig vera mikilvægt fyrir félagsleg samskipti og stór hópur telur að óaðlaðandi bros geti skemmt fyrir velgengni í lífinu. Stór þáttur í aðlaðandi brosi eru heilbrigðar tennur og því er skiljanlegt að fólk sækist eftir björtu og fallegu brosi sem endurspeglast í fjölda gylliboða um fallegri og hvítari tennur sem verið er að bjóða okkur.

Okkur lék á forvitni um hvort það sé einhver munur á þessum tannhvíttunarefnum sem í boði eru og geta allir fengið hvítar tennur. Geta þessi efni verið skaðleg? Við spurðum Hrönn Róbertsdóttur, tannlækni hjá Brosinu, út í tannhvíttun.

 

Ekkert eitt tannhvíttunarefni fyrir alla!  

Hrönn segir að allir geti fegið ljósari tennur en á mjög ólíkan hátt. “Við þurfum að átta okkur á því hvaðan liturinn á tönnunum kemur og hvaða meðferð kemur til með að skila árangri” segir hún.

Hér eru tennurnar of þunnar til að tannhvíttun gefi varanlegan árangur.
Hér voru tennur lýstar og lagaðar með skeljum, sem var talinn besti og varanlegasti árangurinn.

Tannhvíttun með virkum efnum virkar best á gular heilar tennur. Tennur sem eru glærar verða ekki hvítar og tannhvíttun virkar til dæmis ekki á fyllingar, postulín eða svar-bláar tennur sem litast hafa af silfurfyllingum eða eru með fastan lit í sprungum. Hér þarf aðrar leiðir til að ná fram ljósari tönnum.

Hvaðan kemur litur tanna?

Það sem ákvarðar lit tanna er annarsvegar litur tannbeins, fyllinga eða postulíns og hinsvergar yfirborðslitur tanna, þ.e. tannsteinn og önnur óhreinindi sem fallið hafa á tennur ásamt sliti.

  • Lífsstíll. Ýmiss matvæli og drykkir ásamt reykingum geta litað tennur.
    tannlitur
    Hér hefur brúnn litur fallið út á tennur.

    Dæmi: Te, kaffi, sterk krydd, reykingar, tóbak og ýmss önnur óhreinindi dekkja tennur með því að setjast á yfirborðið og gefa gulan eða brúnan lit og oft jafnvel svarta flekki.’

  • Erfðir. Sumir eru með dökkar tennur í grunninn, en þá er tannbeinið dekkra að lit.
  • Tannviðgerðir. Silfurfyllingar gefa dökkan lit sem og gamlar viðgerðir (postulín og plast).
  • Slit. Tennur sem eru slitnar litast hraðar en óslitnar, ef tannbein er orðið bert þá drekka tennurnar í sig lit úr matvælum. Tennur slitna með aldrinum en það er ýmislegt sem getur flýtt fyrir sliti s.s bakflæði, gnístur, of mikil og ákveðin tannburstun og dagleg neysla á sítrónuvatni.

 

Hvaða vörur er verið að selja og hvernig virka þær?

  1. Tannkrem með hvíttuarefnum og skol  lýsa tennur með því að vinna á yfirborðslitnum en virka ekki til hvítturnar á tannbeini. Hér verður maður að passa sig á því að vera ekki með tannkrem með grófum slípimassa heldur með u.þ.b. 0,1% vetnisperoxíði eða öðrum efum sem losa vetnisperoxíð sem virka efnið.

 Lengi vel hefur maður heyrt um tannhvíttun með matarsóta eða öðrum heimatilbúnum blöndum en hann er dæmi um grófan slípimassa sem ber að forðast, segir Hrönn Róbertsdóttir, tannlæknir.

 

Flest okkar hafa val um að halda tönnum út lífið ef við hugsum vel um þær. Því er mjög mikilvægt að vera ekki að slíta tönnunum að óþörfu með öllum þeim aukaverkunum sem því fylgir.

2. Tannhvítturnar efni (vetnisperoxíð eða karbamíðperoxíð) virka til hvíttunar á tannbeini auk þess að hvarfast við uppsafnaðan lit á yfirborði tanna og dýpri lit í tannbeini. Þetta er oxunarhvarf sem breytir uppbyggingu tannbeinsins með því að hafa áhrif á carbon hringina. Virka efnið er vetnisperoxíð eða önnur efni sem losa vetnisperoxíð, t.d. karbamíðperoxið (10% karbamíðperoxíð jafngildir 3,35% vetnisperoxíð). Nú er mælt er með 10-15% styrk af karbamíðperoxíð eða 3-6 % vetnisperoxíð til tannhvítturnar. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar lesið er á umbúðir ýmissa tannhvíttunarefna.

 

Getur tannhvíttun skaðað tennurnar? 

Tannhvíttun var uppgötvuð fyrir tilviljun af tannréttingasérfræðingi sem var að meðhöndla sjúklinga sína vegna tannholdsbólga. Hann notaði vægan styrka af vetnisperoxíði í skinnur en aukaverkunin af þeirri meðferð var tannhvíttun.

Síðar fóru menn að flýta fyrir hvíttuninni með því að auka styrkinn á efninu og bæta við hitagjöfum eins og ljósum og leiser. Afleiðingarnar voru þær að aukaverkanirnar jukust, tannhold brann, taugar tanna urðu ofurnæmar og glerungur varð veikari.

Tannhvíttun á mettíma með leiser eða hitagjöfum getur reynst skaðleg. Hluti af hvíta litnum sem fæst eftir þessar meðferðir er ofþornun tanna, þ.e tennurnar missa vatn og lýsast en dökkna fljótt aftur þegar þær fyllast af vatni aftur, segir Hrönn.

 

Sjúklingar með mjög slitnar tennur og bert tannbein eru líklegri til að fá aukaverkanir, sem og ungir einstaklingar.

Algengasta aukaverkun tannhvíttunar er tannkul og eykst það með auknum styrk efnanna.

 Ef lýsingarferlið gengur of langt þá verða tennur glærar og brothættar, sem getur leitt til varanlegs skaða. Þess vegna er svo mikilvægt að lýsa tennur undir eftirliti tannlæknis.

 

Í dag ætti að lýsa tennur með efnum sem hafa vægan styrk af vetnisperoxíði, alls ekki meira en 3-6%, með flúori í og öðrum uppbyggilegum efnum fyrir tennur og glerunginn. Jafnframt er mikilvægt að forðast sterk efni og hitagjafa.

Sömuleiðis er mikilvægt að tryggja að tennur og munnhol sé heilbrigt áður en tennurnar eru hvíttaðar. Ekki má lýsa tennur sem eru með skemmdir eða ónýtar fyllingar

 

Hvað dugar tannhvíttun lengi?

Það fer eftir stöðu tanna við upphaf tannhvíttunar. Heilar tennur verða sjaldnast jafndökkar aftur. Algengast er það þurfi að skerpa á litnum á tveggja til þriggja ára fresti.

tannslit
Hér eru tennur slitnar og bestur árangur fæst með tannhvíttun og tannlituðum fyllingum.

Lýsing á slitnum tönnum er öllu erfiðari og dökkna þær miklu hraðar því tannbeinið drekkur í sig litinn ef það er bert. Slit tanna þarf að laga með tannlituðum fyllingum til að hægt sé að viðhalda ljósum lit og koma í veg fyrir frekari litun í framtíðinni.

 

hvernig er þá öruggast að fá bjart og fallegt bros?

Með því að fá álit hjá tannlækni á því hvaða leið hentar þér. Ef þú ert í þeim hópi þar sem tannhvíttunar efni skila árangri skaltu gera það undir eftirliti og passa styrk efnisins.

Fallegar hvítar tennur eru ekki nóg einar og sér heldur þurfum við að viðhalda heilbrigðu tannholdi til að tennurnar eldist og endist vel.

Almenn tannhreinsun hjá tannlækni þar sem yfirborð tanna og róta þeirra er hreinsað er lykillinn að heilbrigðum tönnum og margfaldar líkurnar á að tennurnar endist út lífið. Beintap, meðal annars vegna hirðuleysi tanna, er orðið algengasta ástæða tannmissis hjá Íslendingum, segir Hrönn.

 

Hreinsunin bætir ekki einungis útlit og lýsir tennur, heldur er einnig nauðsynleg til að viðhalda heilbrigði tanna og tannholds. Oft er þessi hreinsun nóg til að viðhalda fallegum og hvítum tönnum.

 

Samantekt

  • Varast skal tannhvíttun með sterkum efnum eða hitagjöfum.
  • Varast skal tannhvíttunarvörur sem valda sliti og byggja á grófum slípimassa. Þessar vörur lýsa tennur tímabundið með því að hreinsa yfirborðslit á mekaískan hátt en valda sliti til lengdar.
  • Það getur verið peningasóun að reyna að hvítta tennur með tannhvíttunar efnum sem fyrirfram er hægt að sjá að skilar ekki árangri.
  • Afar mikilvægt er að tannhvíttun sé gerð í samráði við tannlækni og aldrei nema að undangenginni skoðun tanna, því skaðinn sem getur orðið á tönnum er ekki aftur tekin.

 

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."