Erlendar rannsóknir hafa sýnt aukna sjálfsvígstíðni í kjölfar efnahagsþrenginga. Ný íslensk rannsókn birtist í vikunni í European Journal of Public Health sem fjallar um möguleg áhrif efnahagshrunsins á sjálfsvígstilraunir og sjálfsskaða á Íslandi. Efnahagshrunið á Íslandi var einstakt á heimsvísu, einkum vegna umfangs þess og hraða atburðarásarinnar. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort tíðni komu á Landspítalann vegna sjálfsvígstilrauna og sjálfsskaða á fjögurra ára tímabili eftir efnahagshrunið (2009-2012) hefði aukist miðað við árin á undan (2002-2008).
Í ljós kom að fjöldi koma hafði ekki aukist og nýjum komum í raun fækkað á tímabilinu eftir hrun samanborið við fyrir hrun. Athygli er vakin á því að á meðan fjöldi koma kvenna hélst nokkuð svipaður fyrir allt rannsóknartímabilið (2002-2012), þá mátti sjá aukningu á komum karla á fyrra tímabilinu (2002-2008), sem náði hápunkti rétt fyrir efnahagshrun, í hápunkti góðærisins. Eftir efnhagshrunið fækkaði svo marktækt komum karla, og mátti tengja þessa sveiflu við efnahaginn, þannig að fyrir hvert prósentustig sem atvinnuleysi jókst, þá fækkaði komum karla á Landspítalann af völdum sjálfsvígstilrauna og sjálfsskaða.
Niðurstöðurnar gefa til kynna að hraðar þjóðfélagsbreytingar og streita sem geta fylgt efnahagssveiflum geti haft neikvæð áhrif á sálræna líðan, sérstaklega hjá körlum.
Höfundar greinarinnar voru: Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Ullakarin Nyber, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, Brynjólfur Mogensen, Páll Matthíasson, Sigrún Helga Lund, Unnur Anna Valdimarsdóttir og Arna Hauksdóttir.