Afhverju ætti ég að endurvinna?

0

Ég er mikið að velta fyrir mér endurvinnslu heimilisúrgangs þessa dagana. Þá velti ég fyrir mér spurningum eins og: Afhverju ætti ég að flokka úrganginn minn? Hvernig geri ég það? Er það ekki of mikið vesen þegar ég bý í blokk? Hvað er í boði fyrir mig í þessum málum? Eftir að hafa velt þessum atriðum fyrir mér tók ég loksins ákvörðun um að flokka ruslið á heimilinu mínu.

En ruslið sem fellur til heima hjá okkur er ekki bara úrgangur. Mikið af þessu er hágæða hráefni sem hægt er að nýta áfram.

Þetta getur t.d. verið plastbakkinn undan kjöthakkinu, krassblöð barnanna, fréttablöðin, áldósin utanaf baununum, glerkrukkan og ýmislegt annað.

Fólk veigrar sér oft við að flokka heimilissorpið og eru eftirfarandi ástæður mjög algengar:

  1. Það er svo mikið vesen að flokka.
  2. Ég er ekki með nóg pláss heima hjá mér til að flokka.
  3. Ef ég fengi greitt fyrir að flokka (eins og flöskur/dósir) þá myndi ég gera það.
  4. Það hefur engin áhrif að flokka, þannig að afhverju ætti ég að gera það?
  5. Það er svo erfitt að flokka og átta sig á hvað fer í hvern flokk.

Þetta eru allt góðar og gildar vangaveltur, en eru þær réttlætanlegar þegar við lítum á heildarmyndina? Hvað er það sem við „græðum“ á því að endurvinna úrganginn sem fellur til heima hjá okkur? Hér fyrir neðan má sjá nokkur rök fyrir því að flokka heimilisúrganginn.

dreamstime_m_6950646_opt

Endurvinnsla sparar orkunotkun í heiminum. Framleiðendur þurfa ekki að framleiða (eða láta framleiða fyrir sig) hráefni eins og plast, ál og gler til að geta búið til nýja vöru. Þannig erum við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og erum ekki að ganga eins hratt á auðlindir jarðar. En hlýnun jarðar af völdum þessara efna er eitt helsta umhverfisvandamál heimsins í dag og með því að draga úr þessari losun þá minnkar einnig framleiðslukostnaður vörunnar sem ætti að skila sér til neytandans að lokum.

Endurvinnsla minnkar úrgang sem er urðaður. Hvað verður um óflokkaðan úrgang? Jú, óflokkaður heimilisúrgangur telst til sorps og er því farið með það sem slíkt. Því er safnað saman og það er urðað á urðunarstöðum – því er safnað saman í einn stóran ruslahaug og þar er það geymt og helst gleymt. Það að minnka úrganginn sem lendir á urðunarstöðum hefur jákvæðar afleiðingar. Þar má nefna:

  • Minna land verður notað undir úrgang
  • Minna af eiturefnum (s.s. blý og aðrir þungmálmar, arsenik, PVC og fl.) leka úr úrganginum og út í berglögin, umhverfið og hafið
  • Minni losun gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðunum á sér stað
  • Minni lyktar og sjónmengun af völdum urðunarstaða er til staðar

Að auki  má nefna að það tekur úrganginn allt upp í þúsundir ára að brotna alveg niður á urðunarstöðum.

Vörur sem búnar eru til úr endurunnu hráefni betri fyrir umhverfið. Við framleiðslu á þeim er yfirleitt notað minna vatn, minni orka og við framleiðsluna verður til minni mengun en ef varan væri ekki framleidd úr endurunnu hráefni.

PET-plast (polyethylene terephthalate) er í flestum drykkjarvöruumbúðum og getur verið endurunnið í margar ólíkar vörur, ekki bara í flöskur. Meirihluti PETs er endurunninn í þræði sem síðan eru notaðir í framleiðslu á flísvörum s.s. teppum, fötum og umbúðum.

Pappír/Pappi er einnig fluttur til Svíþjóðar þar sem það er endurnýtt í nýjar umbúðir, salernis- og dagblaðapappír.

Málmar eru flokkaðir vélrænt úr heimilisúrgangi og notaðir í aðrar málmvörur. Aðeins þarf 5% af orkunni sem notuð er við frumvinnslu áls til endurvinnslu þess.  Við að endurvinna eina áldós sparast orka sem jafngildir orkuþörf sjónvarps í þrjár klukkustundir.

Gler er mjög dýrmætt hráefni þar sem að það er 100% endurvinnanlegt og því hægt að nýta það aftur og aftur án þess að það tapi gæðum. Það er t.d. malað og nýtt sem fyllingarefni m.a. undir stofnbrautir, til jarðfyllingar og fleira.

Lífrænn úrgangur er notaður innanlands ýmist til gasframleiðslu (metan) sem er t.d. notað sem eldsneyti á suma bíla eða til moltuframleiðslu.

Í næsta pistli mun ég fara betur yfir hvað skal flokka og t.d. hvort að kaffipokarnir séu í raun ál eða plast, hvort að djúsfernur eigi að fara með í pappír/pappa, hvað á að gera við ál og sýna nokkur dæmi. Þennan pistil má nú nálgast hér.

Endilega fylgist með því.

 

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.