Af hverju fæ ég verki í brjóstin?

0

Verkir og óþægindi í brjóstum er tiltölulega algengt vandamál sem konur þurfa stundum að læra að lifa með.

Brjóstkirtillinn er líffæri sem verður fyrir áhrifum frá kvenhormónum og breytist í gegnum lífið. Flestar konur þekkja brjóstaspennu sem kemur fyrir blæðingar og þær sem hafa gengið með barn kannast við óþægindi í brjóstum á meðgöngunni.

Konur eru útsettar fyrir fjölmörgum hormónasveiflum í gegnum lífið, allt frá kynþroska og fram yfir tíðahvörf og allt hefur það áhrif á brjóstin.

Allt sem hefur áhrif á kynhormón svo sem pillan getur líka haft áhrif á brjóstin.

Tíðahvörf geta staðið yfir í mörg ár og geta þá komið fram einkenni frá brjóstum vegna ójafnvægis í kvenhormónum. Það getur lýst sér sem eymsli, brjóstin geta stækkað eða rýrnað en nánar verður fjallað um tíðahvörf seinna.

Margar konur verða hræddar ef þær fá verki í brjóstin en það er langoftast út af lífeðlisfræðilega eðlilegum orsökum, það er hormónunum okkar.

Það sem gerist er að mjólkurkirtillinn verður fyrir örvun og tútnar út sem getur valdið þrýstingi og óþægindum. Þá er líka auðveldara að finna fyrir kirtlunum við þreifingu. Þess vegna er mælt með því að konur þreifi brjóstin í fyrstu vikunni eftir blæðingar, þar sem þá er minnst erting. Nánar er farið í sjálfskoðun brjósta í öðrum pistli.

Það er mjög sjaldgæft að krabbamein í brjóstum komi fram sem verkir, oftar eru það einkennalausir hnútar sem geta þá fundist við þreifingu.

Önnur algeng orsök fyrir verkjum sem gætu túlkast sem að kæmu frá brjóstum eru stoðkerfisverkir. Það geta komið stingir og verkir frá stóru vöðvunum og festunum sem liggja í bakinu, síðunni og í kringum öxlina.

Millirifjagigt er orð sem hefur verið notað yfir verki sem koma frá litlu vöðvunum sem liggja milli rifbeinanna í brjóstkassanum og geta þeir verkir legið undir brjóstinu. Þetta geta verið mjög sárir verkir.

Það sem getur hjálpað manni að greina þá er að þessir verkir koma frekar við líkamsbeitingu og hreyfingu t.d. andardrátt. Þessir verkir liggja upp í öxlina, út í handlegginn, aftur í bakið og fram á brjóstkassann. Þessir verkir geta líkst verkjum frá hjarta en oft er hægt að skilja á milli við samtal og skoðun. Ef að þú ert með verki sem þú þekkir ekki eða ert smeyk við þá skaltu ræða það við lækninn þinn.

Share.

Ragnhildur er sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Hún starfar hjá Livio Reykjavík við frjósemismeðferðir og er einnig með almenna móttöku vegna kvensjúkdóma.