Af hverju borðum við stundum meira en við höldum?

0

Skammtastærðir ýmissa matvæla hafa stækkað svo um munar síðustu árin og eru taldar vera ein af ástæðum þess að við borðum meira en við þurfum og gerum okkur grein fyrir.

Önnur ytri áhrif eins og stærð matardiska og glasa, birtan í kringum okkur, sjónvarpið, útvarpið og samræður við matarborðið hafa einnig gríðarleg áhrif á það magn sem fer inn fyrir varir okkar.

Framleiðendur hafa í auknum mæli stækkað skammta sína og fá neytendur til að halda að þeir séu að fá meira fyrir peninginn. Jú, vissulega erum við að fá meiri mat á mögulega hagstæðara verði, en gleymum ekki að hitaeiningafjöldinn eykst í takt við það.

En borðum við þá ekki bara jafnmikið af matnum og ef við hefðum keypt minni skammt og eigum afganginn þar til seinna? Vissulega á það við einhverja, en rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á hið gagnstæða.

Hér eru nokkur dæmi um hvernig umhverfið hefur áhrif á hve mikið við borðum:

  1. Þeir sem borða súpu úr skál sem tæmist aldrei borða 73% meira af súpunni en þeir sem borða úr venjulegri skál en meta sig jafnsadda (1).
  1. Þeir sem fá sér stóran poka af poppi í bíó borða um það bil 35 – 45% meira en þeir sem fá lítinn poka, jafnvel þó poppið sé orðið gamalt og bragðvont (2).
  1. Við skömmtum okkur mun meira af mat á stóra diska/skálar heldur en minni. Jafnvel næringarfræðingar skammta sér 31% meira af ís fái þeir stóra skál borið saman við þá sem fá litla skál (3).
  1. Við hellum um það bil 20-30% meira í stutt og breið glös heldur en há og mjó glös þrátt fyrir að glösin taki jafnmikið, en við teljum okkur vera að hella jafnmiklu í glösin (4).
  1. Ef við hlustum á útvarp eða horfum á sjónvarp á meðan við borðum þá borðum við 15% meira en ef við borðum í hljóðlátu umhverfi (5).
  1. Ef súkkulaðimolarnir sem vinnufélaginn keypti í fríhöfninni eru á skrifborðinu hjá okkur þá borðum við um það bil 6 fleiri mola en ef þeir væru í skál á kaffistofunni (6).

Með því að vera meðvitaður um þessa litlu hluti eins og að borða í ró og næði, nota minni diska og skálar og hafa sætindin í ákveðinni fjarlægð frá okkur þá getum við haft veruleg áhrif á það magn sem borðum án þess þó að gera róttækar breytingar.

Það getur verið fyrsta skrefið í átt að heilbrigðara matarmynstri. Verum með athyglina í lagi þegar við borðum og hlustum á líkamann.

 

Share.

Maríanna er lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum