Það er ríkt í hefð okkar að umbuna með veislum og öðrum kræsingum þegar ákveðnum áföngum er náð. Það er bæði jákvætt og uppbyggilegt fyrir fjölskyldur að skapa sér venjur við slíkar aðstæður, t.d. að baka saman, skella sér í ísbíltúr eða fara á veitingastað. En of mikið að slíkri umbun er varasöm samkvæmt nýlegri rannsókn (1).
Í rannsókninni kom fram að foreldrar barna yngri en 2.5 árs eru líklegri til að gefa börnum sínum snarl til að umbuna fyrir hegðun, í samanburði við foreldra barna á aldrinum 6-12 ára sem gáfu frekar börnum sínum snarl við hungurþörf.
Snarl getur verið af hinu góða eins og þegar um er að ræða gulrætur, epli, banana o.s.frv. en því miður sýna rannsóknir að algengt er að fólk gefi börnum sínum snarl sem er hitaeiningaríkt og næringarsnautt (2) eins og kex, snakk eða nammi.
Vert er að hafa í huga að hrós, bros og faðmlag er með bestu umbunum sem foreldrar geta veitt barni sínu.
Jafnframt var sýnt fram á að foreldrar sem gáfu börnum sínum snarl sem umbun fyrir hegðun voru ólíklegri til að gefa börnum sínum næringaríkan mat. Sýnt hefur verið fram á að í þeim tilfellum sem snarl er notað sem umbun fyrir hegðun koma allt að 40% af hitaeiningum sem barnið fær frá sykruðum drykkjum (3). Það að umbuna með snarli getur þannig leitt til offitu og annarra vandamála tengdum næringu.
Foreldrar hafa mikil áhrif á matarvenjur barna sinna og því er mikilvægt, eins og með allar okkar venjur, að kenna börnum hófsemi þegar kemur að snarli sem samanstendur af nammi og annarri hitaeiningaríkri og næringasnauðri fæðu.
Með því að velja hollt snarl og nota snarl nær eingöngu í þeim tilgangi að svara hungurþörf eða til að tryggja ákveðna næringarþörf kennum við börnunum okkar heilbrigðar matarvenjur.
Mikilvægt er að muna að þegar snarl er notað til að umbuna fyrir hegðun styrkist sú hegðun hjá barninu. Það er því hætta á að barnið haldi áfram að verðlauna sig með snarli þegar það eldist og þeirri hegðun er ekki auðvelt að snúa við. Hrós, bros og faðmlag er með bestu umbunum sem foreldrar geta veitt barni sínu og geta auðveldlega komið í staðinn fyrir snarl.
Að lokum er gott að minna sig á að ung börn þurfa næringaríkt fæði og reglu á máltíðum. Til að komast hjá því að grípa í óhollan mat, getur verið gott að skipuleggja máltíðir og millimál fyrirfram.
Hægt er að kynna sér nánar þá grunnþætti sem tryggja fjölbreytt og næringarríkt fæði hjá börnum hér.