Að eiga eða upplifa: Hvaðan kemur hamingjan?

0

Á að eyða pening í verslunarmiðstöð um helgina eða nota peninginn í upplifun? Hvað segja vísindin okkur um hvort veitir okkur meiri hamingju?

Rannsóknir sýna að sækist maður eftir meiri hamingju þá ætti maður að eyða peningnum í upplifun frekar en dót eða dauða hluti. Sálfræðingar segja að flestir aðlagast nýjum kaupum á 6-8 vikum og allt að 3 mánuðum og þá er hamingjan tengd hlutnum farin. Upplifun, á annað borð, heldur áfram að gefa af sér hamingju í gegnum minningarnar löngu eftir að atburðurinn átti sér stað.

Rannsókn var gerð á 154 einstaklingum (1) sem svöruðu spurningum um hvað þau hefðu eytt peningunum í til að gera sér glaðan dag síðustu þrjá mánuði. Niðurstöðurnar voru þær að flestir urðu almennt hamingjusamari með það sem þeir eyddu peningunum í án tilliti til hver hluturinn eða upplifunin var. Þau sem sögðust hafa eytt í upplifun sýndu meiri ánægju bæði á þeim tíma sem kaupin fóru fram og eftir að upplifuninni lauk.

Og það sem meira var er að upplifunin jók ekki einungis hamingju þeirra sem eyddu í upplifun heldur einnig hjá þeim sem voru í félagsskapnum með þeim.

Með því að eyða í upplifun höfum við þannig ekki einungis jákvæð áhrif á okkar eigin vellíðan heldur einnig jákvæð áhrif líf þeirra sem standa okkur næst. Svipuð áhrif hafa verið sýnd í fleiri rannsóknum (2).

En af hverju veitir upplifun meiri hamingju sem endist lengur?

Nokkrar skýringar hafa verið lagðar fram:

  • Þegar við upplifum eitthvað nýtt þá erum við oftast í félagsskap með öðrum og tilfinningin um að tilheyra öðrum, verða nánari vinum eða ættingja veitir okkur gleði. Upplifun uppfyllir þannig þörf okkar fyrir félagslegum tengslum sem er einn grunnþáttur heilsu.
  • Við upplifun kemur fram sterk tilfinning hjá okkur þar sem við finnum fyrir lífskrafti. Það að finnast maður vera á lífi eykst á meðan upplifun stendur og einnig í endurminningum. Eins fín og þér finnst nýja tölvan þín að þá mun hún ekki láta þér finnast þú vera fullur af lífi, fylltur lífsþrótti.
  • Þegar við eyðum tíma okkar í upplifun þá erum við minna að bera okkur saman við aðra en þegar við eyðum í hluti. Ef athygli okkar er á hlutum en ekki upplifun þá truflar það okkur líklega meira ef vinur okkar á flottara sjónvarp eða græjur, heldur en ef að hann hafi farið í hellaferð í fríinu sínu en við í fjallgöngu.
  • Upplifun býr til öflugar og dýrmætar minningar sem við getum ekki hugsað okkur að skipta út fyrir neitt.

Það að upplifun auki hamingju á ekki einungis við um einstaklinginn heldur samfélagið í heild sinni. Við þurfum að halda áfram að byggja hjólreiðastíga, göngustíga ásamt því að bæta aðgang að náttúrunni til að gera upplifun auðveldari. Þá munum við í leiðinni uppskera hamingjusamara samfélag.

Það kostar vissulega meiri orku og tilstand að skipuleggja upplifun en bruna í verslunarleiðangur en líklega er það þess virði. Auk þess þarf upplifun ekki að kosta neitt og hamingjan þannig séð ókeypis!

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."