Á að þvo hendur með sótthreinsandi sápu?

0

Bakteríudrepandi efnum (e. anti-bacterial) er í auknum mæli bætt í handsápur, tannkrem og snyrtivörur þrátt fyrir að efnin geta haft skaðleg áhrif á heilsu okkar og umhverfi.

Þótt það virðist kannski í fyrstu góð hugmynd að eyða bakteríum af höndum okkar, þá gleymum við því stundum að ekki eru allar bakteríur slæmar. Í raun eru margar bakteríur mikilvægar heilsu okkar, og sem dæmi eru hjálplegar bakteríur á húðinni mikilvægar fyrir varnarkerfi líkamans.

Bakteríudrepandi sápur gera þó engan greinarmun á hjálplegum og skaðlegum bakteríum og eyða þeim öllum. Notkun sótthreinsandi efna við handþvott getur því mögulega gert meira ógagn en gagn.

Hér eru nokkrar ástæður sem útskýra af hverju við ættum minnka notkun á sápu með bakteríudrepandi efnum og nota frekar venjulega handsápu.

  1. Reglulegur handþvottur með sápu besta vörnin gegn sýkingum

Þó bakteríudrepandi sápa þjóni tvímælalaust mikilvægu hlutverki inni á spítölum, eru engar sannanir fyrir því að hún sé betri en venjuleg handsápa og vatn til að sporna gegn veikindum utan sjúkrastofnanna (1). Góður og reglulegur handþvottur er áhrifarík leið til að viðhalda góðri heilsu þar sem hann getur minnkað verulega magn bæði baktería og veira úr umhverfinu af höndum okkar.

  • Á vefsíðu Embættis Landlæknis má finna góðar leiðbeiningar um hvernig best er að þvo hendur.
  • Á vefsíðu The Centers for Disease Control and Prevention má finna vísindaleg rök fyrir hvernig er best að þvo hendur.
  1. Ofnotkun sótthreinsandi sápu eykur líkurnar á þolnum bakteríustofnum

Mikil notkun sótthreinsiefna sem og sýklalyfja stuðlar að vexti þolinna bakteríustofna. Þolnir bakteríustofnar eru nú þegar mikið vandamál á sjúkrastofnunum þar sem sífellt erfiðara er að ráða við bakteríurnar. Því eru læknar nú að draga markvisst úr notkun sýklalyfja, bændur að minnka notkun sýklalyfja við búskap og fólki er nú ráðlagt að minnka notkun bakteríudrepandi efna á heimilum.

  1. Algengasta virka efnið í bakteríudrepandi sápum (e. Triclosan) gæti haft skaðleg áhrif á líkamsstarfsemi

Triclosan er algengt efni í bakteríudrepandi sápum, tannkremi og snyrtivörum sem getur haft áhrif á stjórnun skjaldkirtilshormóna í dýrum (2). Ef sömu áhrifa gætir í mönnum, þá getur efnið haft áhrif á ýmsa líkamsstarfsemi svo sem frjósemi og offitu. Rannsóknir gefa til kynna að börn sem eru í mikilli snertinu við triclosan séu líklegri til að vera með ýmis konar ofnæmi (4).

  1. Sótthreinsandi efni geta haft skaðleg áhrif á umhverfið

Þegar við notum sótthreinsandi efni með virka efninu triclosan, þá fer efnið einnig út í umhverfið þar sem það getur meðal annars haft áhrif á ljóstillífun plantna (3).

Þar sem efni sem notuð eru í bakteríudrepandi sápum geta mögulega haft skaðlegar afleiðingar er best að halda sig við einfalda sápu og vatn þegar hendur eru þvegnar.

Þegar velja á góðar handsápur er því best að forðast sápur merktar með orðum eins og “antibacterial” á umbúðum eða þar sem efnið “triclosan” kemur fram í innihaldslýsingu.

 

 

 

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.