Á að taka pilluhlé?

0

Á að taka pilluhlé, það er, að hvíla sig á pillunni?

Svarið er nei, ekki nema þú ætlir að verða þunguð eða sért að skipta í aðra getnaðarvörn.

Það hefur lengi gengið kvenna á milli að það þurfi að hvíla sig á pillunni og að það sé slæmt að vera stanslaust á getnaðarvarnartöflum. Það er ekki rétt.

Pillan veldur ekki ófrjósemi og eyðileggur ekki tíðahringinn. Það hafa ófáar þunganir orðið til vegna pillupásu sem ekki þarf að taka.

Eins getur óregluleg taka pillunnar valdið blæðingartruflunum. Ef það blæðir þó svo að þú takir pilluna skaltu klára spjaldið og fara svo á blæðingar. Ef það gerist endurtekið þá skaltu ræða það við lækni.

Stundum koma ekki blæðingar á milli spjalda og hafa þá sumar hætt töku pillunnar. Þess þarf ekki. Ef þungunarpróf er neikvætt þá á að taka pilluna áfram.

Pillan tekur í rauninni yfir tíðahringinn þinn og þess vegna getur hún hjálpað ef miklar blæðingar eða túrverkir trufla þig. Þá er bara kostur ef það blæðir lítið eða ekkert.

Ef þér líður illa á þeirri getnaðarvörn sem þú notar skaltu ræða það við lækninn þinn til að finna lausn sem hentar þér. Það er að sjálfsögðu hægt að vera með aukaverkanir af getnaðarvarnapillunni og hún hentar ekki öllum.

Rætt verður um kosti og galla pillunnar í öðrum pistli.

Share.

Ragnhildur er sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Hún starfar hjá Livio Reykjavík við frjósemismeðferðir og er einnig með almenna móttöku vegna kvensjúkdóma.