Á að hætta að taka D-vítamín eða lýsi á sumrin?

0

Ég fæ reglulega þessa spurningu af því að flestir vita að líkaminn getur búið til D-vítamín ef sólin skín á húðina okkar. Á sólríkum dögum er nóg að vera í 10-15 mínútur í sólinni ef maður er léttklæddur, til að fá nóg af D-vítamíni fyrir daginn. Hér á landi er hinsvegar ekki hægt að treysta á þessa leið til að  fá ráðlagðan skammt af D-vítamíni.

D-vítamín er af skornum skammti í mat en er helst að finna í fiskilifur, lýsi, lúðu, lax, síld (og öðrum feitum fisktegundum), eggjum og D-vítamínbættum vörum eins og viðbiti, jurtamjólk og kúamjólk.

Ráðlagður dagskammtur (RDS) af D-vítamíni er 15 míkrógrömm (600 IU) á dag fyrir fólk á aldrinum 10 til 70 ára. Einstaklingar yngri en 10 ára þurfa 10 míkrógrömm (400 IU) á dag og þeir sem eru eldri en 70 ára þurfa 20 míkrógrömm (800 IU) á dag. Það er í góðu lagi að fá sól á húðina og taka  inn D-vítamín því engin hætta er á að fá of mikið magn af D-vítamíni í líkamann svo framarlega sem við höldum okkur í kringum ráðlagðan dagskammt.

Pills_woman

Við getum EINUNGIS fengið of mikið af D-vítamíni með fæðubótarefnum, eins og lýsi og vítamíntöflum, og þá aðeins ef tekið er inn meira magn en ráðlagt er á umbúðum EÐA ef verið er að nota vítamintöflur sem innihalda margfaldan ráðlagðan dagskammt af D-vítamíni.

Ef tekið er inn of mikið D-vítamín er hætta á að styrkur kalks í blóði verði of hár með tilheyrandi aukaverkunum eins og einkennum frá meltingarvegi (ógleði, niðurgangur) og aukinni hættu á brothættum beinum, nýrnasteinum og neikvæðum áhrifum á hjarta- og heilastarfsemina (1, 2). Efri mörk öruggrar neyslu eru miðuð við 100 µg á dag fyrir fullorðna sem samsvarar 4.000 IU.

Vegna þess að við erum með fremur stutt sumur hér á Íslandi er ekki mælt með því að hætta að taka D-vítamín yfir sumartímann, hvort sem um er að ræða lýsi (u.þ.b. matskeið á dag), lýsisperlur (sjá leiðbeiningar á umbúðum) eða á töfluformi. Njótum því sólarinnar þegar kostur gefst án þess að hafa áhyggjur og pössum uppá að fá D-vítamín daglega með inntöku fæðubótarefna (lýsi, lýsisperlur eða á töfluformi).

Ítarefni:

Ekki vera steiktur í sólinni

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.