5 leiðir í átt að sjálfbærari neysluvenjum

0

Hvað er átt við með sjálfbærni

Með hugtakinu sjálfbærni er átt við að þörfum nútímans er mætt út frá hnattrænum, umhverfisvænum og félagslegum þáttum án þess að gengið sé á auðlindir náttúrunar. Með öðrum orðum þá er átt við alla þá mannlegu starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum (1).

Hvaða máli skiptir sjálfbærni fyrir mig?

Íbúum jarðarinnar fjölgar hratt og því er spáð að eftir 25 ár verði þeir yfir 9 milljarðar. Til allur þessi mannfjöldi geti búið við fæðuöryggi er nauðsynlegt að sjálfbærni í matvælaiðnaði verði sett í forgang (2). Eins og er, líður 1 milljarður manna skort á meðan svipaður fjöldi manna líður ofgnóttar – misskiptingin er gríðarleg.

Almennt er nú viðurkennt að núverandi framganga mannsins á jörðinni beri skýr merki um ósjálfbærni, þ.e. að mannkynið sé að ofnýta náttúruauðlindir jarðarinnar sem á einhverjum tímapunkti munu klárast. Það er því ljóst að eitthvað þarf að breytast í framleiðsluháttum og neysluvenjum okkar til að hægt verði að brauðfæða kynslóðir framtíðarinnar – líka þína afkomendur.

Sjálfbærni í matvælaframleiðslu

Þeir eru margir sem gera sér ekki grein fyrir hversu miklu álagi matvælaframleiðsla veldur á náttúruauðlindir okkar, í þeirri mynd sem hún er á í dag. Um 40% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda er af völdum landbúnaðarframleiðslu – og þar af er helmingur vegna framleiðslu á kjöti, eggjum og mjólk. Auk þess fer um þriðjungur af öllu ferskvatni jarðarinnar í landbúnaðarframleiðslu (3).

Á síðustu árum hefur orðið nokkur vitundarvakning um mikilvægi sjálfbærni og leggja neytendur sífellt meiri áherslu á að sjálfbærni sé lögð til grundvallar við matvælaframleiðslu. Neytendur hafa því í aukni mæli viljað fá að vita hvaðan maturinn kemur og hvernig er hann framleiddur.

Fimm leiðir í átt að sjálfbærari neysluvenjum

Framboð og eftirspurn virka í báðar áttir. Ef breytingar eiga að verða á framleiðsluháttum okkar í átt að sjálfbærni, er nauðsynlegt að breyta neysluvenjum okkar.  Hér að neðan eru 5 atriði sem eru á okkar valdi að breyta til að stuðla að sjálfbærari neysluvenjum:

  1. Veldu plöntuafurðir

Embætti landlæknis mælir með því að þriðjungur matardisk þíns séu grænmeti eða ávextir og í öðrum ráðleggingum er þetta hlutfall jafnvel enn hærra. Með því að velja frekar plöntuafurðir til neyslu þá stuðlar þú að minni notkun á ferskvatni  auk þess að minnka eyðingu skóga – ávinningur bæði fyrir heilsu og umhverfið.

IMG_0308

  1. Minnkaðu kjötneyslu

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birti síðla árs 2015 skýrslu þar sem segir að unnar kjötvörur séu krabbameinsvaldandi (4). Eins hefur Embætti landlæknis sett fram hámark á neyslu af rauðu kjöti við 500 g á viku (5) og fjallað hefur verið um hvernig hægt er að borða hóflega af kjöti á síðunni okkar.

Nú er komin enn ein góð og gild ástæða fyrir því hvers vegna maður ætti að draga úr neyslu á kjöti. Kjötframleiðsla veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda – sér í lagi nautgriparækt – sem aftur veldur álagi á náttúruauðlindir þar sem slík ræktun krefst meiri orku, þ.e. fóðurs, vatns, lands heldur en ræktun á plöntuafurðum. Almennt séð, þá þarf 11 sinnum meiri orku til að framleiða eina hitaeiningu af dýrapróteini samanborið við eina hitaeiningu af plöntupróteini (6). Ýmsar plöntuafurðir, s.s. hnetur, kínóa og ýmsar belgjurtir, eru próteinríkar og geta komið í stað kjötafurða í fæðu okkar.

  1. Veldu sjávarafurðir

salmon

Fiskur er mikilvægur hluti af heilsusamlegu mataræði sem hefur verið mikilvægur próteingjafi hjá Íslendingum í gegnum tíðina. Á síðustu árum hefur heldur dregið úr neyslu Íslendinga á fiski. Ráðlagt er að neyta fisks tvisvar til þrisvar sinnum í viku og þar af er gott að velja „bleikan“ fisk hið minnsta einu sinni, þar sem hann er ríkur af omega-3 fitusýrum og D-vítamíni.

  1. Verslaðu í nærumhverfi

Undanfarin ár hafa sprottið upp matarmarkaðir og lítil innlend matvælafyrirtæki sem framleiða vörur úr eigin ræktun. Skemmtilegt getur verið að kíkja í kringum sig eftir slíkum mörkuðum, kynnast því hvaðan maturinn kemur og hvernig hann er ræktaður. Sérstaða slíkra fyrirtækja liggur oft í atriðum á borð við lífræna ræktun eða sjálfbærni. Hérlendis hefur orðið mikill vöxtur í því sem nefnist norrænt mataræði þar sem áhersla er lögð á neyslu næringarríkra fæðutegunda sem hægt er að rækta hérlendis. Slík ræktun stuðlar að  minnkun í orkunotkun og flutningskostnaði og tilsvarandi minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda auk þess sem norrænt mataræði hefur mikinn heilsufarsávinning í för með sér (7). Ítarlegri upplýsingar um vistvæn innkaup má lesa um hér.

  1. Vertu meðvitaður um það sem þú borðar

Það einfaldasta sem þú getur gert til að stuðla að sjálfbærari neyslu er að vera meðvitaður um það sem þú borðar. Hvaðan kemur maturinn, hvernig er hann ræktaður og hvernig nærir hann líkamann? Matreiðum við alltaf of stóra skammta og hendum síðan afgöngunum – mætti mögulega frysta eða nýta afganga seinna meir?

Með því að velja rétt á matardiskinn stuðlum við að sjálfbærari matvælaframleiðslu sem og auknu heilbrigði.  Þegar allt kemur til alls, þá er það sem er gott fyrir jörðina einnig gott fyrir mannfólkið.

Share.

Védís er matvælafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá Embættis landlæknis.